Til forsætisráðherra
Þrátt fyrir aukna áherslu stjórnvalda á málefni barna á umliðnum árum eru víða blikur á lofti. Á of mörgum sviðum sjáum við að staða þeirra barna sem eru í hvað viðkvæmastri stöðu hefur versnað umtalsvert. Það er tilfinnanlegur skortur á úrræðum fyrir börn sem eru í miklum vanda vegna áhættuhegðunar og fíknivanda þar sem loka þurfti úrræðum og tafir hafa verið á að setja á fót önnur í þeirra stað. Embætti umboðsmanns barna var á árinu 2024 í tíðum bréfaskiptum við mennta- og barnamálaráðuneytið vegna stöðunnar í þessum málaflokki eins og kemur fram í þessari skýrslu. Að mati umboðsmanns barna ríkir neyðarástand í þessum málaflokki og er brýnt að stjórnvöld leiti allra leiða til að tryggja þessum börnum þá þjónustu sem þau eiga rétt á lögum samkvæmt. Árið 2024 var þungbært ár í málefnum barna fyrir margra hluta sakir. Þrjú börn voru fórnarlömb í manndrápsmálum. Þá lést piltur í bruna í umsjá barnaverndaryfirvalda á neyðarvistun Stuðla. Það er mat umboðsmanns barna að þörf sé á úttekt á margvíslegum þátttum barnaverndar í landinu, þar á meðal mögulegum úrræðum, aðgengi þessa hóps að heilbrigðisþjónustu og afdrifum barna sem vistuð hafa verið á vegum ríkisins.
Embættið hefur frá árinu 2022 birt reglulega tölur um bið barna eftir þjónustu hjá opinberum aðilum á vefsíðu sinni. Mikilvægt hefur verið að fylgjast með þróuninni enda hefur bið eftir þjónustu verið viðvarandi vandi hér á landi. Eins og fram kemur þegar þessar upplýsingar eru skoðaðar eru nokkrar sveiflur milli ára. Biðin hefur til dæmis styst verulega hjá Barna- og unglingageðdeild en hjá Geðheilsumiðstöð, sem sér um greiningar á ADHD og einhverfu, hefur bið lengst jafnt og þétt og eru nú rúmlega 2400 börn á bið. Það er fagnaðarefni að eitt af markmiðum nýrrar ríkisstjórnar, sem tók við völdum í lok ársins, sé að stytta biðlista og auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu á komandi árum.
Samkvæmt 24. gr. Barnasáttmálans eiga börn rétt á að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja og ber aðildarríkjum sáttmálans að kappkosta við að tryggja að ekkert barn fari á mis við rétt sinn til að njóta slíkrar heilbrigðisþjónustu. Íslenska ríkinu ber jafnframt að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til þess að ná eðlilegum þroska, sbr. 6. gr. Barnasáttmálans. Að mati umboðsmanns barna njóta börn sem fá ekki viðeigandi meðferð vegna úrræðaleysis og þau sem þurfa að bíða eftir greiningu og þjónustu ekki réttinda sinna með fullnægjandi hætti.
Á síðustu árum hefur embættið lagt mikla áherslu á að stjórnvöld innleiði mat á áhrifum á börn. Á árinu 2023 birti embættið leiðbeiningar um gerð slíks mats sem byggði á sambærilegum leiðbeiningum frá umboðsmanni barna í Svíþjóð. Á árinu 2024 voru þessar leiðbeiningar einfaldaðar og framsetning þeirra bætt á vef embættisins. Var þetta gert í samvinnu við mennta- og barnamálaráðuneytið. Þá var útbúinn leiðarvísir um mat á áhrifum á börn í samvinnu við ráðuneytið sem birtur var á vef stjórnarráðsins í nóvember. Mikilvægt er að reglubundið mat á áhrifum ákvarðana verði sem fyrst hluti af vandaðri stjórnsýslu bæði hjá stjórnarráði og sveitarfélögum.
Loks má geta að á árinu var einnig mikil umræða um menntamál og frammistöðu íslenskra nemenda í PISA könnunum, sem hefur dalað í lesskilningi, stærðfræði og náttúrufræði á undanförnum árum. Í þessu samhengi var rætt um stöðu innleiðingar matsferla sem ætlað var að leysa samræmd próf af hólmi, sem voru lögð niður árið 2022. Þá kallaði embætti umboðsmanns barna eftir því að mennta- og barnamálaráðuneytið legði fyrir Alþingi skýrslur um framkvæmd skólahalds í leik-, grunn- og framhaldsskólum sem ráðuneytinu ber að gera á þriggja ára fresti. Hvað varðar grunnskóla hafði ráðuneytið hins vegar ekki lagt fram skýrslu um framkvæmd skólahalds í grunnskólum síðan á 149. löggjafarþingi 2018-2019 og tók sú skýrsla til skólaáranna 2010-2016. Umboðsmaður áréttaði í erindi til ráðuneytisins mikilvægi þess að ráðuneytið sinni lögbundinni skyldu sinni og leggi á þriggja ára fresti fram skýrslur um framkvæmd skólastarfs, til að gera löggjafarvaldinu kleift að sinna því hlutverki sínu, að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og eftirlit. Embættið ítrekaði eftirgrennslan eftir skýrslunum og var skýrsla um framkvæmd skólahalds í grunnskólum lögð fyrir þingið í september 2024.
Auk málefna sem tengjast innleiðingu Barnasáttmálans og erindi til stjórnvalda vegna réttinda barna gerir skýrslan sem hér er lögð fram að öðru leyti grein fyrir þeim margvíslegu verkefnum sem umboðmaður barna vinnur að. Ánægjulegustu verkefnin tengjast fjölbreyttum verkefnum sem ráðgjafarhópur umboðsmanns barna vinnur með embættinu. Þá heldur embættið utan um vinnu barna- og ungmennaráðs heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna en sá hópur heldur úti öflugu starfi ár hvert.
Embætti umboðsmanns barna á í víðtæku samstarfi við innlenda en ekki síður erlenda aðila. Þar hefur samstarf umboðsmanna barna á Norðurlöndunum mikla þýðingu sem og við samtök umboðsmanna barna í Evrópu sem vinna ötullega að réttindum barna. Virkt samráð eflir starfsemi embættisins, gerir starfsfólki kleift að fylgjast með því nýjasta í þróun réttinda barna og halda uppi öflugri vörn fyrir börn hér á landi.