Ársskýrsla 2023

Lesa meira

Til forsætisráðherra

Salvor-arsskyrslaUmboðsmaður barna hefur á síðustu árum unnið markvisst í samræmi við þá stefnu sem mörkuð var árið 2019 með áherslu á Barnasáttmálann og úttektir á stöðu viðkvæmra hópa, aukna þátttöku barna á öllum sviðum samfélagsins og samstarf við innlenda og erlenda aðila.

Eitt skemmtilegasta verkefni umboðsmanns barna er barnaþing sem haldið hefur verið annað hvert ár frá 2019. Þriðja barnaþingið var haldið á árinu og tókst það með afbrigðum vel. Við skipulag barnaþings er leitast við að gefa börnum öruggt rými þar sem þau geta tjáð skoðanir sínar og að skoðunum þeirra sé miðlað til þeirra aðila sem bera ábyrgð með samtali við ráðamenn. Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna er öflugur hópur sem er umboðsmanni til ráðgjafar og tekur virkan þátt í skipulagningu barnaþings og einnig barna – og ungmennaráð heimsmarkmiðanna sem embættið hefur umsjón með. Í framhaldinu hefur verið unnið að því innan stjórnarráðsins að móta verklag sem tryggi að börnin geti með tillögum sínum og hugmyndum haft raunveruleg áhrif á ákvarðanatöku og stefnumótun. Með slíku verklagi verður tryggt að unnið verði markvisst milli barnaþinga með niðurstöður barnanna og tillögur í sveitarfélögum eða á vettvangi stjórnarráðsins og gera barnaþing að enn öflugri vettvangi fyrir sjónarmið barna. 

Embætti umboðsmanns barna ber að fylgjast með þróun og kanna innleiðingu barnasáttmálans í íslenskri stjórnsýslu og gera könnun meðal hennar um stöðuna. Í upphafi ársins birti embættið niðurstöðu könnunar sem send hafði verið út til opinberra stofnana og ráðuneyta í lok árs 2022. Í könnuninni var meðal annars spurt um þekkingu starfsmanna á Barnasáttmálanum, um aðgengi barna að stofnuninni og hvort samráð sé haft við börn. Af svörum má merkja mikinn áhuga meðal stofnana á réttindum barna og óskir um fræðslu og stuðning við innleiðingu Barnasáttmálans.

Á undanförnum misserum hefur embættið lagt ríka áherslu á það við stjórnvöld að þau innleiði mat á áhrifum á börn, eða mat á því sem barni er fyrir bestu, og að slíkt mat verði sjálfsögð framkvæmd í íslenskri stjórnsýslu þegar ráðist er í aðgerðir sem varða börn með beinum eða óbeinum hætti. Embættið gaf á árinu út leiðbeiningar um framkvæmd matsins og mismunandi þætti þess. Þær eru aðgengilegar á vefsíðu embættisins og er ætlað að auðvelda íslenskum stjórnvöldum framkvæmd slíks mats. Leiðbeiningarnar voru þýddar og staðfærðar frá umboðsmanni barna í Svíþjóð en einnig hefur verið litið til sambærilegra leiðbeininga í öðrum nágrannalöndum okkar. 

Embætti umboðsmanns barna hóf á árinu 2022 að birta með reglubundnum hætti yfirlit yfir fjölda barna sem bíða eftir þjónustu hjá opinberum stofnunum. Birting þessara upplýsinga hefur hlotið verðskuldaða athygli enda hefur bið eftir þjónustu verið viðvarandi vandamál til margra ára. Tölurnar sem birtar voru á árinu 2023 sýna, í flestum tilvikum, litlar breytingar frá árinu þar á undan. Með samþykkt farsældarlöggjafar á Alþingi 2021 var markmiðið að innleiða snemmtæka íhlutun í málefnum barna en það felur í sér að börn fái þá þjónustu sem þau þurfa án tafar. Það er ljóst að ef lög um samþætta þjónustu eiga að ná markmiðum er snúa að snemmtækum stuðningi þarf að koma í veg fyrir að langir biðlistar myndist eftir þjónustu. Eins mega biðlistar ekki vera viðvarandi, en það er nú þegar ein helsta fyrirstaða þess að börn fái þann stuðning sem þau þurfa á að halda þegar þörf eftir stuðningi skapast. Þá má benda á að samkvæmt almennum viðmiðum Landlæknisembættisins um bið eftir heilbrigðisþjónustu á viðtal hjá sérfræðingi að fara fram innan 30 daga frá því að beiðni er lögð fram og meðferð að fara fram innan 90 daga frá greiningu. Löng bið hjá mörgum þeim stofnunum sem embættið birtir tölur frá er langt umfram þessi viðmið.

Umboðsmaður barna brýnir fyrir stjórnvöldum að gera nauðsynlegar ráðstafanir svo eyða megi biðlistum sem allra fyrst enda hefur hann í mörgum tilvikum afar skaðleg áhrif fyrir barnið bæði fyrir þroska þess og skólagöngu. Þá er ónefndur beinn og óbeinn kostnaður fyrir foreldra, umhverfi þess og samfélagið allt. Hér er því um afar brýnt hagsmunamál að ræða fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Það er von umboðsmanns barna að stjórnvöld leggi aukinn kraft í að eyða biðlistum og tryggja þannig börnum réttmæta og nauðsynlega þjónustu.  



Stefna embættisins til 2025

Stefna embættisins er í samræmi við breytingu á lögum um embættið sem samþykkt var á Alþingi í desember 2018.

 

Hlutverk

Að efla þátttöku barna í samfélaginu og vinna í því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna þeirra á öllum sviðum.

Gildi

Virðing, samvinna og frumkvæði.

Áherslur í starfi

  • Barna­sátt­málinn

    Fylgjast með þróun og túlkun Barna· sáttmálans og stuðla að því að hann sé virtur.
    Kynna Barna· sáttmálann sem víðast með fjölbreyttu kynningarefni.Gera úttektir á stöðu tiltekinna hópa barna og miðla niðurstöðum.Gera reglubundið mat á innleiðingu barnasáttmálans.
  • Þátttaka barna

    Efla lýðræðisþátttöku barna og beint samráð við þau um réttindi, þarfir og hagsmuni þeirra.
    Efla ráðgjafarhóp umboðsmanns og stofna sérfræðihópa barna með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu. Kynna og innleiða fjölbreyttar leiðir til samráðs við börn.Halda barnaþing annað hvert ár.
  • Framsækni

    Markvisst samstarf hérlendis og erlendis með nýtingu rannsókna og gagnreyndra aðferða og stuðla að því að hann sé virtur.
    Styrkja samstarfsnet um réttindi barna. Kynna bestu aðferðir frá nágrannalöndum við innleiðingu Barnasáttmálans. Stuðla að stefnumótandi umræðu um málefni barna.

Framtíðarsýn

Réttindi barna njóta víðtækrar virðingar og eru sjálfsagður hluti af allri stefnumótun og ákvörðunum.



Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica