Alþjóðlegt samstarf

Umboðsmaður barna tekur þátt í fjölbreyttu alþjóðlegu samstarfi og er samstarf við umboðsmenn barna í nágrannalöndunum ríkur þáttur í starfi embættisins

Efnisyfirlit


Umboðsmaður barna tekur í starfi sínu virkan þátt í ýmsu alþjóðlegu samstarfi. Mikilvægur liður í því er að eiga þétt samstarf við umboðsmenn barna í Evrópu, sem og sérstakt samstarf við umboðsmenn barna á Norðurlöndum. Auk þess tekur embættið virkan þátt í umræðu um málefni barna á heimsvísu, m.a. með þátttöku í alþjóðlegum ráðstefnum og viðburðum, fræðsluferðum og móttöku erlendra gesta.

Árlegur fundur norrænna umboðsmanna barna

Árlegur fundur umboðsmanna barna á Norðurlöndunum var haldinn í Osló dagana 4. – 7. júní. Markmið fundarins er að miðla þekkingu og upplýsingum um nýjungar og verkefni sem miða að aukinni vernd, þátttöku og jafnræði barna. Á fundinum var sérstaklega fjallað um börn sem fremja afbrot og eru vistuð í fangelsi eða á vegum barnaverndar. Einnig var farið yfir áherslur og helstu verkefni embættanna síðustu misserin og hvað væri á dagskrá á næstunni, með sérstakri áherslu á afleiðingar Covid-19 faraldursins.

Þessir árlegu norrænu fundir eru afar gagnlegir og hafa reynst ákaflega mikilvægir í starfi embættanna.

ENOC

Samtök umboðsmanna barna í Evrópu (ENOC) héldu sína árlegu ráðstefnu og ársfund í Brussel dagana 19.-21. september sl. Fundinn sóttu fulltrúar frá yfir 40 embættum umboðsmanna barna í Evrópu. Umræðuefni ráðstefnunnar var hlutverk og staða sjálfstæðra barnaréttindastofnana. Samtökin eru afar mikilvægur vettvangur fyrir alþjóðlega samræðu og samstarf um réttindi barna. Á vegum ENOC starfar einnig ENYA, samstarfsnet ráðgjafarhópa barna, og taka fulltrúar ENYA mikinn þátt í starfi samtakanna, ekki síst hinni árlegu ráðstefnu. Tæplega 20 ungmenni tóku þátt í ráðstefnunni að þessu sinni, þar á meðal Aldís, sem er í ráðgjafarhóp umboðsmanns barna.

Vorfundur ENOC fór fram í Stokkhólmi þar sem fjallað var um hlutverk umboðsmanns barna annars vegar og hins vegar um rétt barna á víðsjárverðum tímum eins og í stríði, heimsfaraldri og náttúruhamförum. Fulltrúi Úkraínu flutti þar áhrifamikla ræðu en þar hefur stríðið kallað fram ólýsanlegar hörmungar fyrir börn. Mikilvægt er að draga lærdóm um viðbrögð við hamförum og huga vel að stöðu barna í þeim. 

Á ársfundinum í Brussel lét Salvör Nordal, umboðsmaður barna, af formennsku samtakanna, sem hún gengdi í ár. Hún hefur setið í stjórn ENOC undanfarin ár. 

Stjórn ENOC

ENYA

Embættið tók þátt í starfi ENYA (European Network of Young Advisors) sem vinnur með samtökum evrópskra umboðsmanna barna. Að þessu sinni fór fundurinn fram í Möltu í byrjun júlí og hann sóttu um 36 ungmenni frá 18 löndum. Á fundinum var sjónum einkum beint að hlutverki umboðsmanna barna og bar hann yfirskriftina Let's Talk Young, Let's Talk about Promoting and Protecting Children's Rights. Skipulagið á Möltu var til fyrirmyndar og hópurinn vann frábærlega vel saman og lauk við tillögur sínar þann 5. júlí. Þrátt fyrir stífa dagskrá gafst tími til að skoða sig aðeins um og njóta góða veðursins. Farið var til Medina og til höfuðborgarinnar Valletta. Aldís og Kolbrún fulltrúar úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna tóku þátt á fundinum auk Andreu Róa, sérfræðingi í þátttöku barna hjá embættinu.

enya fundur

Annað erlent samstarf

Sérfræðihópur um þátttöku barna á tímum heimsfaraldurs

Sigurveig Þórhallsdóttir, lögfræðingur hjá embættinu, átti sæti í sérfræðihópi á vegum Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar (NVC). Um er að ræða norrænt samstarfsverkefni sem fjallar um rétt barna og ungmenna til þátttöku á tímum heimsfaraldurs. Markmið verkefnisins er að miðla þekkingu og rannsóknum um áhrif faraldursins og sóttvarnatakmarkana á börn á Norðurlöndunum. Verkefnið er unnið fyrir hönd Norrænu barna- og æskulýðsnefndarinnar (NORDBUK) og Norrænu ráðherranefndarinnar um heilbrigðis- og félagsmál.

Sjá nánar um verkefnið

Fræðsluferð starfsfólks til Belfast og Dublin

Umboðsmaður barna og starfsfólk embættisins heimsóttu systurstofnanir embættisins í Belfast og Dublin. Heimsóknin var liður í fræðsluátaki starfsfólks ásamt því að efla tengsl stofnananna en frekar og til að fara yfir málefni sem varða réttindi barna. Þá fékk starfsfólkið kynningu frá samtökunum Barnados og Children's Rights Alliance.

Starfsfólk embættisins átti einnig fund með Lauru Lundy, einum helsta sérfræðingi í þátttöku barna ásamt öðrum þátttakendum sem vinna að málefnum barna víðs vegar í heiminum. Fundurinn var haldinn í Queens háskólanum í Belfast. Fræðsluferðin var styrkt af Starfsþróunarsetri BHM.

  • Írland
  • belfast

Námskeið í réttindum barna

Þrír starfsmenn embættisins, þær Hafdís Una Guðnýjardóttir, Unnur Helgadóttir og Sigurveig Þórhallsdóttir sóttu námskeið við Háskólann í Leiden, Hollandi. Námskeiðið er kennt á hverju ári og ber heitið Frontiers of Children´s Rights. Á námskeiðinu var m.a. fjallað um málefni barna á flótta og reynslu af kæruleið til barnaréttarnefndarinnar á grundvelli þriðju valfrjálsu bókunarinnar við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Meðal fyrirlesara á námskeiðinu voru Dr. Ann Skelton, formaður barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna og Alex Conte, framkvæmdastjóri Child Rights Connect.

Transgender börn

Umboðsmaður barna tók þátt í verkefninu “Transgender child – an effective support system in school” í samstarfi við Fundacja Psycho-Edukacja (Stofnun um sálfræðimenntun í Póllandi) og “Warszawskie Centrum Innowacji Edukacyjno-Społecznych i Szkoleń” (Miðstöð menntunar, nýsköpunar og þjálfunar í Varsjá). Markmið verkefnisins er að styðja skólastjórnendur og kennara til að hanna og innleiða skilvirkt stuðningskerfi í skólum til að draga úr mismunum og ofbeldi sem stafar af fordómum gagnvart hinsegin fólki í pólskum grunn- og framhaldsskólum. Verkefnið var styrkt af Uppbyggingarsjóði EES.

Verkefninu lauk í október með ráðstefnu í Varsjá þar sem niðurstöður verkefnisins var kynnt nánar. Frekari upplýsingar um verkefnið má finna hér (á ensku). Hafdís Una Guðnýjardóttir flutti erindi á ráðstefnunni og breytingar á lögum um kynrænt sjálfræði hér á landi og verklagsreglur Reykjavíkurborgar um transbörn.  

Börn þurfa list

Í maí tók Eðvald Einar Stefánsson sérfræðingur hjá embættinu verið í Kaupmannahöfn á ráðstefnunni "Children needs art" sem er alþjóðleg ráðstefna haldin af dönsku samtökunum Barndrømmen. Á ráðstefnunni var meðal annars rætt um gildi þess að vinna saman að barnamenningarverkefnum með það að leiðarljósi að öll börn geti upplifað og notið listar og menningar á sínum forsendum. Börn hafa rétt til að taka þátttöku í menningar- og listalífi og er mikilvægt að tryggja jöfn tækifæri allra barna til að njóta og taka þátt í listalífi. 


Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica