Barnaþing

Umboðsmaður barna boðar annað hvert ár til þings um málefni barna og eru niðurstöður og ályktanir þingsins kynntar ríkisstjórn. Barnaþing er mikilvægur liður í starfi embættisins og öflugur vettvangur fyrir börn til þess að láta skoðanir sínar í ljós.

Efnisyfirlit


Umboðsmaður barna boðar annað hvert ár til þings um málefni barna og eru niðurstöður þingsins kynntar ríkisstjórn í samræmi við lög um umboðsmann barna. Barnaþing er þannig reglubundinn vettvangur fyrir börn til þess að láta skoðanir sínar í ljós og hafa áhrif á sitt samfélag, auk þess að gefa stjórnvöldum tækifæri til þess að fylgja hugmyndum barnaþingmanna eftir og koma tillögum þeirra í framkvæmd. Embættið boðar fjölbreyttan hóp barna til þingsins og leggur við upphaf þingsins fram skýrslu um stöðu barna á Íslandi, þar sem m.a. er farið yfir þróun í málefnum barna. Barnaþingi er ætlað að efla börn til þátttöku í lýðræðislegri umræðu um málefni sem snerta þau og veita sjónarmiðum þeirra farveg inn í almenna stefnumótun og þjóðfélagsumræðu í samræmi við 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Barnaþing 2023

Barnaþing var haldið í þriðja sinn þann 16. og 17. nóvember 2023. Líkt og á fyrri barnaþingum voru börn valin með slembivali með úrtaki úr Þjóðskrá til að tryggja þátttöku fjölbreytts hóps barna frá öllu landinu. Um 140 börn sóttu barnaþingið að þessu sinni. 

Skýrsla í upphafi barnaþings

Við upphaf barnaþings lagði umboðsmaður barna fram skýrslu um stöðu og þróun í málefnum barna. Í skýrslunni sem nú var lögð fram var fjallað um stöðu barna út frá þeim verkefnum og greiningum á réttindum barna sem umboðsmaður barna hefur unnið að á síðustu misserum og lúta að innleiðingu Barnasáttmálans og stöðu viðkvæmra hópa barna í íslensku samfélagi. Skýrslan er einnig gefin út á einfaldara máli.

Meðal þeirra verkefna sem fjallað er um í skýrslunni er: 

  • Mat á því sem er barni fyrir bestu.
  • Könnun til opinberra stofnana um innleiðingu Barnasáttmálans. 
  • Samanburður á bið barna eftir þjónustu.
  • Réttindagæslu barna og barnvæna réttarvörslu. 
  • Netið, samfélagsmiðla og börn. 
  • Lýðræðislega þátttöku barna.

Heimsókn til Alþingis

Alþingi bauð barnaþingmönnum í heimsókn eftir hádegi 16. nóvember. Hópnum var skipt í tvennt og tók forseti Alþingis tók á móti þeim í þingsalnum, sagði þeim frá störfum þingisins og svaraði spurningum barnaþingmanna. Þá var skoðunarferð um húsið með starfsmönnum Alþingis. Var þetta í alla staði afar vel heppnuð heimsókn. 

  • börn á alþingi
  • börn á alþingi
  • börn á alþingi
  • börn á alþingi
  • börn á alþingi
  • Barnathing_2023_ljosmyndir-30

Þingdagur 17. nóvember

Barnaþingið sjálft fór fram með þjóðfundarformi í Hörpu föstudaginn 17. nóvember og setti Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands þingið kl. 9. Fyrir hádegi fóru fram fjörugar umræðum hjá barnaþingmönnum á vinnuborðum um málefni sem tengdust skóla, umhverfisvernd, samgöngum og öðrum samfélagsmálum sem brunnu á þeim. Eftir hádegi mættu fullorðnir boðsgestir, meðal annars þingmenn og ráðherrar, til að taka þátt í áframhaldandi umræðu um þau umfjöllunarefni sem börnin höfðu valið. Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna kom að skipulagi fundarins og sá meðal annars um kynningar og samfélagsmiðla meðan á barnaþingi stóð. Fundarstjóri var Sigyn Blöndal.

Barnathing_2023_ljosmyndir-75

Ráðherrar sátu fyrir svörum

Þau Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftlagsráðherra, Svandís Svavarsdóttir, fyrrum matvælaráðherra og Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, sátu fyrir svörum í lok barnaþingsins. 

Hér eru dæmi um spurningar barnaþingmanna til ráðherra sem voru fjölbreyttar og endurspegluðu þær umræður sem fram fóru á borðunum.

Við hér á borði 14 okkur finnst hræðilegt að láta fólk bíða rosa lengi eftir greiningum og hjálp svo okkar spurning er þessi: Hvernig getum við stytt biðtíma eftir greiningum og hjálp? 

Hvernig getum við verið fullviss um að raddir barna heyrist?

Hvernig getum við verið með meira jafnrétti hjá minnihlutahópum?

Hvernig er hægt að tryggja að öll fái jafna menntun?

Hvernig getum við verið fullviss um að barnavernd fari rétt að?

Hvernig væri hægt að passa að öll börn eigi heimili? Líka þau sem hafa flúið heimili sín.


Undir lokin ávarpaði Katrín Jakobsdóttir, þáverandi forsætisráðherra barnaþingmenn. Í ávarpi sínu lagði meðal annars áherslu á mikilvægi þess að börn fengu tækifæri til að koma sínum skoðunum á framfæri og þar skipti barnaþing miklu máli.  

  • Ráðherrar á barnaþingi
  • Barnathing_2023_ljosmyndir-186

Áherslur barnaþingmanna

Börnin sögðu brýnt að stjórnvöld hlustuðu meira á börn og að réttindi allra barna væru tryggð. Þá lögðu þau til að sálfræðiþjónusta væri til staðar í öllum skólum, lækkun kosningaaldurs niður í 16 ár, skólakerfi sem hentar öllum, bæði þeim sem vilja fara hratt eða hægt í gegnum námið, að bið eftir greiningum væri stytt, betri þjónusta væri fyrir flóttafólk, ókeypis í strætó fyrir öll börn undir 18 ára aldri og að öll kyn fái sömu réttindi í íþróttum.

Öll börn eiga að fá að stunda íþróttir og tómstundir án þess að hafa áhyggjur af kostnaði.

Hvernig getum við fengið fullorðna fólkið til að taka mark á skoðunum barna?

Barnamenning

Á barnaþingi er mikið lagt upp úr því að dagskráin sé samansett af umræðuvinnu og skemmtun. Þá er barnamenningu gert hátt undir höfðu og eftir hádegi komu ungir leikarar og fluttu tvö atriði úr leikritinu Fíasól gefst aldrei upp sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu í byrjun desember.

Barnaþingi lauk svo með því að Herra Hnetusmjör kom og skemmti barnaþingmönnum sem völdu hann sérstaklega til að koma á þingið.

  • Atriði Fíasól
  • Herra Hnetusmjör

Barnaþing verður næst haldið í nóvember 2025.

  • barnaþing 2023
  • Barnathing_2023_ljosmyndir-94
  • Barnathing_2023_ljosmyndir-82
  • Barnathing_2023_ljosmyndir-76
  • barnaþing 2023
  • barnaþing 2023
  • barnaþing 2023
  • barnaþing 2023
  • barnaþing 2023
  • Barnathing_2023_ljosmyndir-180



Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica