Embættið

Samkvæmt 1. gr. laga um umboðsmann barna nr. 83/1994 hefur embættið það meginhlutverk að bæta hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra í samræmi við ákvæði Barnasáttmálans.

Efnisyfirlit


Hlutverk embættisins er skilgreint í lögum um umboðsmann barna nr. 83/1994. Þar kemur fram að embættinu er ætlað að vinna að bættum hag barna og standa vörð um hagsmuni þeirra, þarfir og réttindi í samræmi við ákvæði Barnasáttmálans. Umboðsmaður skal eiga frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni barna, fylgjast með þróun og túlkun Barnasáttmálans og stuðla að því að hann sé virtur, sem og aðrir alþjóðasamningar sem varða réttindi og velferð barna. Umboðsmaður barna skal jafnframt vinna að því að fullt tillit sé tekið til réttinda barna á öllum sviðum samfélagsins, hjá opinberum aðilum sem og einkaaðilum, og bregðast við ef brotið er gegn réttindum þeirra. Þá er umboðsmanni ætlað að koma með ábendingar og tillögur um það sem betur má fara í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem varða málefni barna, kynna fyrir almenningi löggjöf sem varðar börn og beita sér fyrir því að gerðar verði rannsóknir á þessu sviði.

Á vefsíðu embættisins má lesa nánar um hlutverk umboðsmanns.

Mannauður

Salvör Nordal er umboðsmaður barna, og hefur hún gengt embætti frá 1. júlí 2017. Annað starfsfólk embættisins á árinu voru þau Eðvald Einar Stefánsson, sérfræðingur, Sigurveig Þórhallsdóttir, lögfræðingur, Hafdís Una Guðnýjardóttir, lögfræðingur, Unnur Helgadóttir, lögfræðingur og Andrea Rói Sigurbjörns, sérfræðingur í þátttöku barna.

Breytingar voru á starfsliði embættisins á árinu, Stella Hallsdóttir, lögfræðingur sem starfaði hjá embættinu frá 2017 hætti í upphafi árs og hóf störf hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu. Guðríður Bolladóttir, yfirlögfræðingur, hætti störfum í mars og hóf þá störf hjá heilbrigðisráðuneytinu. Hafdís Una Guðnýjardóttir hóf störf í byrjun mars og Unnur Helgadóttir starfaði tímabundið hjá embættinu frá byrjun júlí til loka nóvember. Embættið var með auka fjárveitingu vegna tilraunaverkefnis um réttindagæslu barna sem gerði kleift að ráða inn starfsmann til að sinna því verkefni. Því lauk hins vegar í lok ársins. 

Starfsfolk_UB

Starfsfólk embættisins fv. Sigurveig Þórhallsdóttir, Hafdís Una Guðnýjardóttir, Salvör Nordal, Eðvald Einar Stefánsson og Andrea Rói Sigurbjörns.

Verkefni innan embættisins

Hafdís Una Guðnýjardóttir var persónuverndarfulltrúi embættisins.

Eðvald Einar Stefánsson var jafnréttistengiliður embættisins.

Eðvald Einar Stefánsson var fulltrúi embættisins í innleiðingu á grænum skrefum hjá embættinu.


Starfshópar

Embættið fær reglulega beiðnir um tilnefningar í starfshópa á vegum hins opinbera. Starfsfólk embættisins sátu í eftirfarandi starfshópum á árinu:

Endurskoðun undanþágukafla aðalnámskrár grunnskóla

Sigurveig Þórhallsdóttir var fulltrúi embættisins í starfshóp á vegum mennta- og barnamálaráðuneytisins um endurskoðun á 16. kafla aðalnámskrár grunnskóla frá árinu 2011.

Samþætting þjónustu í þágu farsældar barna

Sigurveig Þórhallsdóttir var fulltrúi embættisins í starfshópi á vegum mennta- og barnamálaráðuneytisins um innleiðingu samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna.

Ráðgjafahópur um framkvæmdaráætlun á sviði barnaverndar 2023–2027

Hafdís Una Guðnýjardóttir var fulltrúi embættisins í ráðgjafahóp á vegum mennta- og barnamálaráðuneytisins um framkvæmdaráætlun á sviði barnaverndar 2023-2027.

Velferðarvaktin

Eðvald Einar Stefánsson var fulltrúi embættisins í Velferðarvaktinni.

Sjálfbært Íslands

Andrea Rói Sigurbjörns var áheyrnarfulltrúi í verkefnastjórn sem leiddur var af forsætisráðuneytinu í samstarfi við utanríkisráðuneytið.

Fagráð SES

Hafdís Una Guðnýjardóttir var fulltrúi embættisins í fagráði um verkefnið samvinna eftir skilnað. Fagráð SES er vettvangur fyrir lykilaðila til að styðja við og veita aðstoð við áframhaldandi innleiðingu á stafrænum vettvangi SES.

Samstarf við félagasamtök

  • Sigurveig Þórhallsdóttir var fulltrúi embættisins í Náum áttum hópnum.
  • Eðvald Einar Stefánsson var fulltrúi embættisins í Saman hópnum.
  • Sigurveig Þórhallsdóttir var fulltrúi embættisins í vinnuhópi vegna fræðsluefnis um Barnasáttmálann.

Fjárveitingar

Embættið var með sérstaka fjárveitingu á árinu vegna tilraunaverkefnis um réttindagæslu barna sem kveðið er á um í aðgerðaráætlun um innleiðingu Barnasáttmálans. Verkefninu, sem hófst í upphafi árs 2022, lauk á árinu.

Ár Framlag úr ríkissjóði skv. fjárlögum
2023 97,8 m.kr
2022 97,5 m.kr
2021 78,5 m.kr
2020 77,8 m.kr.
2019 78,8 m.kr.

Tafla 1. Fjárveitingar til umboðsmanns barna

Embættið í fjölmiðlum

Vefsíða embættisins gegnir ríku hlutverki í að koma ábendingum og fyrirspurnum barna á framfæri sem og fréttum af starfi embættisins og stöðu barna í íslensku samfélagi. Embættið er einnig virkt á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram.

Fjölmiðlavaktin

Undanfarin ár hefur umboðsmaður barna nýtt þjónustu Fjölmiðlavaktarinnar til að vakta umfjöllun um embættið í útvarpi, sjónvarpi, blöðum og á netmiðlum. Eftirfarandi upplýsingar eru fengnar úr þeirri skýrslu.

Tafla-1-Throun-fjolda-fretta-arid-2023-samanborid-vid-2022

Tafla 1. Þróun fjölda frétta árið 2023 samanborið við 2022.

Tafla-2-Throun-fjolda-fretta-2023-i-samanburdi-vid-arid-2022-eftir-midlum

Tafla 2. Þróun fjölda frétta 2023 í samanburði við árið 2022 eftir miðlum.

Þróun tenginga við Facebook

Línuritið hér að neðan sýnir heildarfjölda Facebook-tenginga sem vísuðu í nafnið „Umboðsmaður barna“ á árinu 2023. 

Tafla-3-Throun-tenginga-vid-Facebook-arid-2023

Tafla 3. Þróun tenginga við Facebook árið 2023

Vefsíða

Á vefsíðu umboðsmanns barna geta börn og ungmenni sent fyrirspurnir með einföldum hætti og jafnframt nálgast svör við algengum spurningum. Vefsíðunni er ætlað að bæta aðgengi barna og ungmenna að umboðsmanni barna og einfalda þeim að sækja nauðsynlegar upplýsingar um sín réttindi.

Vefsida2

Erindi frá börnum

Mikið af erindum frá börnum koma í gegnum spurt og svarað á vefsíðunni eða á vefspjalli. Mikil áhersla er lögð á að vera í góðum samskiptum við börn og njóta fyrirspurnir frá börnum ávallt forgangs hjá embættinu. Börnum er svarað eins fljótt og unnt er og þeim heitið fullum trúnaði. Starfsfólk embættisins er þó bundið tilkynningarskyldu skv. barnaverndarlögum, nr. 80/2002.

Þegar fyrirspurnir koma í gegnum vefsíðuna getur viðkomandi valið að fá svar í tölvupósti eða að það sé birt á vefsíðunni. Ekki er gerð krafa um að börn gefi upp nafn eða aðrar persónuupplýsingar. 

Að jafnaði berast um 200 erindi frá börnum og ungmennum og einungis þau svör sem sendandi veitir leyfi fyrir er birt á barn.is. Hér má sjá nokkur dæmi. 


Skrifstofan

Í upphafi árs kom í ljós, eftir mælingar frá verkfræðistofunni Eflu, mygla í húsnæði umboðsmanns barna að Borgartúni 7b, en embættið var þar til húsa frá 2021. Lokun rýma og aukin loftræsting reyndist ekki nægileg til að bæta loftgæði fyrir starfsfólk. Í byrjun sumars ákvað umboðsmaður því að flytja skrifstofu sína í skrifstofurými Regus á Hafnartorgi, en sú ráðstöfun er gerð til bráðabirgða á meðan fundin er varanleg lausn á húsnæðismálum embættisins. 

Skrifstofan

Útgefið efni

Embættið gefur reglulega út skýrslur og annað efni sem tengist Barnasáttmálanum og stöðu barna í íslensku samfélagi. Þá gefur embættið út rafræn fréttabréf og umboðsmaður barna skrifar reglulega greinar í blöð um þau málefni barna sem eru efst á baugi hverju sinni.

Eftirfarandi skýrslur voru gefnar út á árinu

Barnasáttmálinn og réttindi barna, skýrsla um stöðu barna lögð fram á barnaþingi 2023. Um skýrsluna er fjallað í kaflanum um Barnaþing.

Til þess að uppfylla skilyrði barnasáttmálans þarf að leggja mat á það sem er barni fyrir bestu, áður en ráðist er í aðgerðir sem varða börn, með beinum eða óbeinum hætti. Eftirfarandi leiðbeiningar fjalla um framkvæmd matsins og mismunandi þætti þess. Nánari umfjöllun er í kaflanum um sérstök verkefni.

Innleiðing Barnasáttmálans, upplýsingar um stöðu á innleiðingu barnasáttmálans hjá ráðuneytum og ríkisstofnunum í lok árs 2022. Nánari umfjöllun er í kaflanum Innleiðing og kynning á Barnasáttmálanum


Umsagnir

Á vefsíðu umboðsmanns barna birtast umsagnir og álit sem embættið sendir frá sér til Alþingis og annarra opinberra aðila. Hér má finna þær umsagnir sem embættið sendi frá sér á árinu en þær eru einnig aðgengilegar á vefsíðu Alþingis og á samráðsgátt stjórnvalda.

Greinar í fjölmiðlum

Á árinu birtist grein eftir Salvöru Nordal um „Rétt barna og nafnleynd kynfrumugjafa“ í Morgunblaðinu þann 25. maí 2023, í tilefni af því að lagt var fram frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsóknar nr. 55/1996.

Réttur barna og nafnleynd kynfrumugjafa

Fréttabréf

Umboðsmaður gefur reglulega út rafræn fréttabréf um starfið. Á árinu voru 4 fréttabréf gefin út en hægt er að skrá sig á póstlistann okkar til að fá fréttabréfið sent þegar það kemur út.

Fréttabréf í mars

Fréttabréf í júlí

Fréttabréf í október

Fréttabréf í desember

 


Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica