Fjölbreytt samráð við börn
Embættið leggur áherslu á að efla lýðræðisþátttöku barna og hefur í starfi sínu beint samráð við börn um mál sem varða hagsmuni þeirra á öllum sviðum.
Efnisyfirlit
Embættinu ber að stuðla að þátttöku barna í samfélagslegri umræðu og allri stefnumótun og ákvarðanatöku í málefnum barna hjá ríki og sveitarfélögum. Umboðsmaður barna starfrækir ráðgjafarhóp með börnum og heldur utan um starf Barna- og ungmennaráðs heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna samkvæmt samningi við forsætisráðuneytið. Embættið leggur ríka áherslu á að kynna fjölbreyttar leiðir til samráðs við börn.
Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna
Embættið leitast eftir því að efla þátttöku barna með samtali um það sem skiptir máli fyrir börn og inngilda þau í ákvarðanatöku sem snýr að þeirra réttindum.
Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna gegnir lykilhlutverki í starfi embættisins og er ráðgefandi fyrir umboðsmann um hagsmuni barna í landinu. Í hópnum eru starfandi börn og ungmenni á aldrinum 12 – 17 ára sem öll hafa það sameiginlegt að brenna fyrir réttindum barna. Þar sem aldurstakmarkið er 17 ára er hópurinn síbreytinlegur og nýir meðlimir ávallt velkomnir. Á vefsíðu embættisins er hægt að fá frekari upplýsingar um hópinn og sækja um að taka þátt.
Fundir ráðgjafarhópsins eru að jafnaði 1 – 2 sinnum í mánuði og oftar þegar viðburðir eða verkefni kalla á slíkt. Ekki er gerð krafa um lágmarksþátttöku ráðgjafa á fundum eða öðrum verkefnum. Starfsmaður embættisins sem sérhæfir sig í þátttöku barna heldur utan um starf hópsins, sendir út fundarboð, gerir drög að fundardagskrá og hefur yfirsýn með samskiptum og umræðum á fundum. Umræðan stýrist að öðru leiti af þeim málefnum sem eru ofarlega í huga barnanna hverju sinni.
Verkefni ráðgjafarhópsins á árinu voru fjölbreytt. Fulltrúar hópsins fá oft boð um að vera með erindi á hinum ýmsu ráðstefnum m.a. á árlegri ráðstefnu BUGL en þema hennar var að þessu sinni skólaforðun, áskoranir og úrræði.
Hópurinn var einnig virkur í undirbúningi barnaþings og sáu þau m.a. annars um samfélagsmiðla embættisins meðan á þinginu stóð. Fyrir barnaþing heimsóttu þau forseta Íslands á Bessastöðum þar sem þau ræddu við hann um réttindi barna almennt og afhentu honum boðsbréf á barnaþingið.
Ráðgjafarhópurinn tók einnig virkan þátt í starfi ENYA
(samstarfsnet ráðgjafarhópa barna í Evrópu) í ár. Hópurinn vann að tillögum sem
unnið var með á vinnufundi sem haldinn var á Möltu dagana 3. – 5. júlí.
Tveir fulltrúar úr ráðgjafarhópnum, þær Aldís og Kolbrún, sóttu þann fund. Sjónum
var þar einkum beint að hlutverki umboðsmanns barna. Nánar er fjallað um ENYA í kaflanum um alþjóðlegt samstarf.
Barna- og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna
Umboðsmaður barna heldur utan um starf Barna- og ungmennaráðs heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna samkvæmt samningi við forsætisráðuneytið.
Meginmarkmið Barna- og ungmennaráðsins er að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, meðal ungmenna og í samfélaginu almennt. Ráðinu er ætlað að vera lifandi vettvangur þar sem heimsmarkmiðin og Barnasáttmálinn eru höfð að leiðarljósi og rædd með gagnrýnum og lausnamiðuðum hætti. Ungmennaráðið samanstendur af tólf fulltrúum, víðs vegar að af landinu, á aldursbilinu 13-18 ára. Ungmennaráðið hittist að jafnaði 6 sinnum á ári.
Ungmennaráðið hélt fund á Akureyri um miðjan mars þar sem farið var yfir tillögur ráðsins sem unnið hafði verið að fram að því. Þann 28. apríl hélt ungmennaráðið fund með ríkisstjórninni þann þar sem tillögur ráðsins voru kynntar og afhentar.
Punktar úr tillögum barna- og ungmennaráðs heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna til ríkisstjórnar Íslands.
Vinna að því að lækka vistspor Íslendinga.
Fræðsla um matarsóun og neysluhyggju.
Efla grænan skatt.
Ný, fjölbreyttari og sveigjanlegri aðalnámskrá í samráði við nemendur og kennara.
Sálfræðiþjónusta innan veggja skólans.
Styðja nýsköpun og sjálfstæðan hugsunarhátt hjá nemendum.
Veita flóttafólki og innflytjendum aðstoð til að aðlagast nýju samfélagi á Íslandi á þann hátt og hraða sem hentar þeim best.
Rauði pokinn - tíðarvörur aðgengilegar á sem flesta staði.
Bæta aðgengi fatlaðs fólks í víðum skilningi að samfélaginu.
Fulltrúar ráðsins tóku þátt í barnaþingi umboðsmanns barna sem haldið var í Hörpu en þar var kosið í ráðið til næstu tveggja ára.
Tveir fulltrúar ráðsins, þau Íris Sævarsdóttir og Þröstur Flóki Klemensson tóku þátt í að stýra „heimsins stærstu kennslustund“ sem haldin var í Salaskóla þann 5. desember. Heimsins stærsta kennslustund (World Largest Lesson) er árlegt kennsluátak, styrkt af UNESCO og í umsjón Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, sem hefur það markmið að efla vitund nemenda og hvetja þá til aðgerða er kemur að sjálfbærri þróun og heimsmarkmiðunum.