Innleiðing og kynning á Barnasáttmálanum

Embættið fylgist með þróun og túlkun Barnasáttmálans, fylgist með að hann sé virtur og leggur áherslu á að kynna sáttmálann með fjölbreyttum leiðum.

Efnisyfirlit


Umboðsmaður barna hefur það hlutverk samkvæmt lögum að vinna að því að stjórnvöld, einstaklingar, félög og önnur samtök einstaklinga taki fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Í starfi sínu skal umboðsmaður barna setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins. Þá ber umboðsmanni að stuðla að kynningu á löggjöf og öðrum réttarreglum sem varða börn fyrir almenningi. Einnig ber umboðsmanni að stuðla að því að börn fái kynningu á Barnasáttmálanum og þeim réttindum sem í honum felast. Umboðsmaður barna sinnir því hlutverki með ýmsum hætti, m.a. með því að leiðbeina þeim sem til hans leita um réttindi barna. Þá flytur umboðsmaður reglulega erindi og fyrirlestra, heimsækir skóla, og birtir efni á heimasíðu embættisins og samfélagsmiðlum. Embættið tekur virkan þátt í samstarfsverkefninu Barnasattmali.is, þar sem finna má ýmis verkefni, veggspjöld og fróðleik um barnasáttmálann. 

Heimsóknir og fræðsla

Heimsókn á Norðvesturland

Dagana 17. – 19. apríl heimsótti umboðsmaður barna og starfsfólk embættisins Húnaþing vestra, Húnabyggð og Skagaströnd. Þessi heimsókn var hluti af stefnu embættisins um að heimsækja sveitarfélög, auka sýnileika og efla tengsl við þau sem vinna að málefnum barna víðsvegar um landið. Í ferðinni voru leik- og grunnskólar heimsóttir og fundir haldnir með fulltrúum sveitarfélaganna og þeirra sem starfa að málefnum barna hjá sveitarfélögunum. Einnig átti umboðsmaður og starfsfólk fund með nemendum og ungmennaráðum þar sem þau sögðu frá því sem helst brennur á þeim. 

  • IMG_2571
  • IMG_2641
  • IMG_2567
  • IMG_2561

Kynning á vegum Mannréttindaskrifstofu Íslands

Þann 22. maí hélt umboðsmaður barna erindi fyrir hóp sérfræðinga frá Póllandi sem voru hér í heimsókn á vegum Mannréttindaskrifstofu Íslands. Umboðsmaður barna kynnti starfsemi embættisins, barnaþing og áherslu embættisins á þátttöku barna.

Heimsókn meistaranema í lögfræði

Nemendur í lögfræði við Háskóla Íslands sem sóttu námskeið í mannréttindum barna heimsóttu embættið. Hafdís Una Guðnýjardóttir, lögfræðingur hjá embættinu kynnti fyrir þeim starf umboðsmanns barna og réttindi barna.

Ráðstefnan löggæsla og samfélag

Ráðstefnan Löggæsla og samfélagið fór fram dagana 4. – 5. október 2023 við Háskólann á Akureyri. Námsbraut lögreglufræða stóð fyrir ráðstefnunni sem fram fór í sjötta sinn, en þema ráðstefnunnar var ofbeldi í sinni víðustu merkingu. Hafdís Una Guðnýjardóttir, lögfræðingur hjá umboðsmanni barna hélt erindi á ráðstefnunni um börn sem brotaþola og barnvæna réttarvörslu (e. Child Friendly Justice). Erindið fjallaði einkum um mikilvægi þess að hugað sé sérstaklega að réttindum barna innan réttarvörslukerfisins og við rannsókn og meðferð mála hjá lögreglu. Sigurveig Þórhallsdóttir, lögfræðingur hjá umboðsmanni barna sótti einnig ráðstefnuna. 

Heimsókn frá Slóveníu 30. október

Umboðsmaður barna tók á móti hópi fólks frá Slóveníu sem starfar hjá ungmennaheimili fyrir unglinga með félagsleg vandamál og hegðunarerfiðleika. Umboðsmaður kynnti starfsemi embættisins, þá var einnig umræða um réttindi barna og stöðu þeirra á Ísland.

Fundur sérfræðihóps um þátttöku barna á tímum heimsfaraldurs

Sigurveig Þórhallsdóttir sótti fund sérfræðihóps um þátttöku barna á tímum heimsfaraldurs sem haldinn var í Kaupmannahöfn 18. október. Sérfræðihópurinn fundaði einnig á Íslandi 23. nóvember og tók í kjölfarið þátt í norrænni ungmennaráðstefnu sem haldin var á Íslandi í nóvember.

Kennsla í diplómanámi um farsæld barna

Þann 16. október kenndu Salvör Nordal, umboðsmaður barna og lögfræðingar embættisins nemendum í diplómanámi um farsæld barna. Var þar sérstaklega fjallað um leiðbeiningar embættisins um mat á því sem barni er fyrir bestu og nemendur fengu að spreyta sig á því að leggja mat á bestu hagsmuni barns í raunhæfum verkefnum.

Heimsókn frá embætti umboðsmanns barna í Svíþjóð

Yfirlögfræðingur embættis umboðsmanns barna í Svíþjóð og annað starfsfólk heimsótti umboðsmann barna í nóvember. Tilgangur heimsóknarinnar var að ræða samvinnu embættanna um túlkun barnasáttmálans og annarra lögfræðilegra málefna. Þá komu sænsku gestirnir einnig til þess að ræða um þátttöku barna og fylgjast með barnaþingi en það er áhugi fyrir því að koma á barnaþingi í Svíþjóð af íslenskri fyrirmynd. 

Fræðsla á samfélagsmiðlum

Embættið nýtir meðal annars samfélagsmiðlana Facebook og Instagram til að vekja athygli á réttindum barna og fræða áhugasama um ákvæði Barnasáttmálans. Fróðleiksmolar um réttindi barna voru birtir vikulega og á aðventunni var sérstök áhersla lögð á réttindi barna hvað varðar menntun, og atvinnuþátttöku með daglegum sögum. 

Umboðsmaður barna á Facebook

Umboðsmaður barna á Instagram

Reglubundið mat á innleiðingu Barnasáttmálans

Í október 2022 sendi umboðsmaður barna bréf til allra ráðuneyta og ríkisstofnana með beiðni um þátttöku í könnun um innleiðingu Barnasáttmála. Þetta er í annað skipti sem slík könnun er framkvæmd af embættinu. Meginmarkmið könnunarinnar var að afla upplýsinga um stöðu innleiðingar sáttmálans í íslenska stjórnsýslu og fyrirkomulag samráðs stofnana við börn. Könnuninni er ætlað að meta ávinning af lögfestingu Barnasáttmálans og er liður í því lögbundna hlutverki embættisins að fylgjast með þróun og túlkun Barnasáttmálans og því að hann sé virtur. Mikilvægur þáttur í innleiðingu Barnasáttmálans er að tryggja að hann sé með markvissum og kerfisbundnum hætti hafður að leiðarljósi við alla stefnumótun, lagasetningu og ákvarðanatöku sem varðar börn. Þekking á sáttmálanum og réttindum þeim sem þar er kveðið á um er jafnframt grundvallarforsenda þess. 

Helstu niðurstöður könnunarinnar

Þekking á Barnasáttmálanum hjá stofnunum er almennt takmörkuð en 42% svarenda voru sammála því góð þekking væri til staðar. 

Áhugi er hjá stofnunum að bæta við þekkingu starfsfólks á réttindum barna.

73% svarenda sögðu að starfsfólk sinna stofnana hafi ekki fengið fræðslu um Barnasáttmálann.

Flestar stofnanir telja húsnæði sitt vera aðgengilegt börnum. Aðeins 5% stofnana töldu húsnæði sitt óaðgengilegt börnum. 

Einungis 11% stofnana eru með texta á vefsíðum sínum á einföldu máli sem börn skilja.

52% stofnana leggja sérstaklega mat á þau áhrif sem tillögur eða aðgerðir geta haft á börn.

39% stofnana hafa haft samráð við börn í sínu starfi


Niðurstöður könnunarinnar kom út í apríl og er aðgengileg á vefsíðu embættisins. Líkt og í fyrri könnun kemur fram að þekking starfsfólks ríkisstofnana á Barnasáttmálanum og réttindum barna sé takmörkuð. Hins vegar má greina skýran áhuga á því að auka þekkingu starfsfólks á Barnasáttmálanum og fá frekari fræðslu og kynningu frá embættinu, sem er afar jákvætt. Flestir svarendur töldu sína stofnun vera í húsnæði sem byði upp á gott aðgengi fyrir börn. Hins vegar voru einungis 11% stofnana með einfaldan texta á vefsíðu sinni sem börn skilja og um 18% hafa gefið út kynningarefni sem er barnvænt. Til að börn geti leitað sjálfstætt og á sínum eigin forsendum að upplýsingum um eigin réttindi, þjónustu og önnur tiltæk úrræði þarf upplýsingaefni að vera til staðar sem er á einföldu og auðskildu máli. Slíkt efni getur einnig nýst öðrum hópum og er ávinningurinn því mikill.

Embætti umboðsmanns barna er ávallt reiðubúið til samráðs og samstarfs um undirbúning og framkvæmd aðgerða um barnvænt aðgengi, samráð við börn og þátttöku þeirra í stefnumótun og ákvarðanatöku. Sé þess óskað, er embætti umboðsmanns barna jafnframt reiðubúið til að funda með stofnunum, til þess að ræða þær leiðir sem færar eru og þá möguleika sem felast í starfsemi hverrar stofnunar.

Niðurstaða könnunar um innleiðingu Barnasáttmálans
Mynd með skýrslu

Erindi til stjórnvalda

Eitt af verkefnum umboðsmanns barna er að fylgjast með stöðu barna í samfélaginu og benda stjórnvöldum á það sem betur má fara. Oft á tíðum er sú vitneskja fengin með ábendingum frá almenningi. Umboðsmaður barna kemur þeim ábendingum áfram meðal annars í samtölum eða með því að senda bréf til stjórnvalda. Hér er yfirlit yfir bréf sem send voru á árinu og viðbrögð við þeim.

Efni bréfs viðtakandi  dags. bréf Svar móttekið 
Mygla í grunnskólum Mennta- og barnamálaráðuneytið 13.2.2023  
Fræðsluskylda stjórnvalda og réttur barna til að hefja nám við hæfi í framhaldsskóla Mennta- og barnamálaráðuneytið 15.6.2023 3.7.2023
Samráð við nemendur um sameiningu skólanna MA og VMA Mennta- og barnamálaráðuneytið 8.9.2023 30.11.2023
Birting dóma sem varða börn  Dómsmálaráðuneytið  15.9.2023
Fræðsla um málefni jaðarsettra hópa - Ráðgjafarhópur UB sendir Mennta- og barnamálaráðuneytið 13.10.2023 Með fundi þann 10. janúar 2024
Fylgd barna úr frístundaheimilum   Menningar-, íþrótta- og tómstundarráð Reykjavíkurborgar 18.10.2023  
Verklagsreglur um aðfaragerðir Dómsmálaráðuneytið 1.11.2023 Með fundi þann 21. nóvember
Ósk um fund vegna stöðu fylgdarlausra barna og barna sem koma í fylgd annarra en foreldra sinna og hafa óskað eftir alþjóðlegri vernd Dómsmálaráðuneytið, Útlendingastofnun, BOFS 6.12.2023 Með fundi þann 18. desember

Öll bréf sem umboðsmaður barna sendir frá sér og svör við þeim, eru birt á vefsíðu embættisins.

Um forsjárdeilur og aðfaragerðir

Embættið hefur í gegnum árin fengið reglulega erindi og ábendingar sem varðar forsjármál og aðfaragerðir og nokkuð var um slíkt á árinu. Með hliðsjón af þeim ábendingum átti umboðsmaður barna fund með dómsmálaráðherra til þess að ræða hvort endurskoða þurfi verklagsreglur um aðfaragerðir sem varða börn og hvort þörf væri á því að taka viðeigandi lagaákvæði til endurskoðunar.

Yfirlýsing umboðsmanns barna um forsjárdeilur og aðfaragerðir

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd Barnasáttmálans í aðildarríkjum og gefur nefndin reglulega út almennar athugasemdir (e. general comments) sem veita nánari upplýsingar um hvernig aðildarríki geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt Barnasáttmálanum.

Hér má nálgast yfirlit yfir allar almennar athugasemdir

Þann 18. september 2023 kynnti barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna almenna athugasemd nr. 26 sem fjallar um réttindi barna og umhverfið, með sérstakri áherslu á loftlagsbreytingar. Í athugasemdinni ávarpar barnaréttarnefndin í fyrsta skipti opinberlega sjálfstæðan rétt barna til þess að lifa í hreinu, heilnæmu og sjálfbæru umhverfi. Almenna athugasemdin varpar ljósi á það hvernig umhverfisáskoranir hafa bein áhrif á réttindi barna og útlistar þau mikilvægu skref sem ríki verða að taka til að tryggja að börn geti alist upp í sjálfbærum heimi.


Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica