Sérstök verkefni

Embættinu ber að afla og miðla upplýsingum um stöðu tiltekinna hópa barna og hafa frumkvæði að stefnumótandi umræðu í samfélaginu um málefni barna.

Efnisyfirlit


Eitt af hlutverkum umboðsmanns barna er að afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni í samvinnu við ýmsa aðila; þau gögn skulu lögð til grundvallar samræmdri og markvissri stefnu í málefnum barna á öllum stigum stjórnsýslunnar í samræmi við ákvæði Barnasáttmálans. 

Piron-guillaume-cRRDzGxqVe8-unsplash

Upplýsingar um bið barna eftir þjónustu

Umboðsmaður barna hefur frá árinu 2021 staðið fyrir reglulegri upplýsingaöflun um þann fjölda barna sem bíður eftir þjónustu hjá tilteknum aðilum með það að markmiði að varpa ljósi á stöðuna hverju sinni. Upplýsingar voru birtar tvívegis á árinu, fyrst í mars og svo í september.

Samstarfsaðilar verkefnisins eru Barna- og fjölskyldustofa, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Geðheilsumiðstöð barna, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Barna- og unglingageðdeild LSH, Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu og Heilsuskóli Barnaspítala Hringsins.

Umboðsmaður barna starfar samkvæmt lögum um umboðsmann barna nr. 83/1994 og hefur það hlutverk að standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi barna. Liður í því er að afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni í samvinnu við ýmsa aðila. Hluti af þeirri vinnu er að gera aðgengilegar á einum stað upplýsingar um þann fjölda barna sem bíður eftir tiltekinni þjónustu hverju sinni. Upplýsingarnar eru uppfærðar á sex mánaða fresti til að fylgjast með þróuninni og eru birtar á vefsíðu embættisins.

Þar voru helstu niðurstöður þær að þeim börnum sem bíða eftir greiningu hjá Geðheilsumiðstöð barna fjölgaði töluvert frá því umboðsmaður barna kallaði fyrst eftir upplýsingum um bið barna eftir þjónustu í desember 2021. Þá biðu 738 börn eftir þjónustu Geðheilsumiðstöðvar en í ágúst 2023 biðu hins vegar 1662 börn eftir þjónustu Geðheilsumiðstöðvar, þar af höfðu 1623 börn beðið lengur en þrjá mánuði.

Helstu niðurstöður

Samtals biðu 522 börn eftir þverfaglegri greiningu hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð í ágúst 2023. Af þeim voru 322 börn á aldrinum 0-6 ára og 200 börn 6-18 ára. Þá höfðu 434 börn beðið lengur en þrjá mánuði. 

Fjöldi mála þar sem börn áttu í hlut og beðið var sáttameðferðar hjá sýslumönnum jókst umtalsvert en þau voru 102 í ágúst 2023 en 58 í febrúar 2023.

Alls biðu 125 börn eftir þjónustu Heilsuskólans miðað við tölur sem birtust í september en meðalbiðtími þar voru 21 mánuður og 108 börn höfðu beðið lengur en þrjá mánuði.

Börnum sem bíða eftir þjónustu sálfræðinga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fækkaði frá seinustu mælingum. Í ágúst 2023 biðu 386 börn eftir þjónustu sálfræðinga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en þau voru 547 í febrúar 2023.

Börnum sem biðu eftir þjónustu hjá Barna og unglingageðdeild LSH fækkaði frá því í febrúar 2023, þá biðu 116 börn en í ágúst 2023 biðu 67 börn.

Engar upplýsingar bárust frá Barna- og fjölskyldustofu um þann fjölda barna sem bíður eftir þjónustu meðferðardeildar Stuðla, MST og SÓK.


Það er von umboðsmanns barna að birting upplýsinganna varpi ljósi á raunverulega stöðu barna í íslensku samfélagi og verði stjórnvöldum hvatning til aðgerða og úrbóta. Söfnun og birting upplýsinganna er jafnframt liður í því hlutverki umboðsmanns barna að stuðla að því að Barnasáttmálinn sé virtur og innleiddur að fullu.

Nýjar upplýsingar um bið barna eftir þjónustu

Janko-ferlic-zHJ4ph3GRyg-unsplash

Mat á því sem er barni fyrir bestu

Til þess að uppfylla skilyrði Barnasáttmálans þarf að leggja mat á það sem er barni fyrir bestu, áður en ráðist er í aðgerðir sem varða börn með beinum eða óbeinum hætti. Embættið gaf út leiðbeiningar á árinu um það hvernig framkvæma skuli slíkt mat, annars vegar þegar áhrifin á börn eru almenn, eins og t.d. við setningu laga og reglugerða, mótun stefnu eða við gerð aðgerða- eða framkvæmdaráætlana og hins vegar þegar ákvarðanir eða aðgerðir varða einstök börn eða afmarkaða hópa barna.

Skv. 3. gr. Barnasáttmálans, á að framkvæma mat á því sem er barni fyrir bestu við allar ráðstafanir sem varða börn.

Mat á því sem er barni fyrir bestu er könnun sem fer fram í nokkrum liðum. Mismunandi þættir málsins geta haft mismikið vægi og eftir því sem áhrif á börn eru meira verður matið umfangsmeira.

Atriði til umhugsunar

Hvers eðlis er málið sem um ræðir? 

Hver er tilgangurinn?

Hvaða börn verða fyrir áhrifum?

Eru áhrifin bein eða óbein?

Taka þarf afstöðu til þess hvort þörf sé á frekari sérfræðiþekkingu við framkvæmd matsins á því sem er barni fyrir bestu.


Efnið er aðgengilegt á vefsíðu embættisins og er þýtt og staðfært frá umboðsmanni barna í Svíþjóð.

Ricky-kharawala-Py5mIHCfxY-unsplash

Yfirlýsing um kynfræðslu í skólum

Mikilvægt er að börn fái fræðslu um kynhneigðir, kynvitund, kyntjáningu og ólík fjölskylduform og eykur hinseginfræðsla skilning á fjölbreytileikanum, stuðlar að umburðarlyndi og vinnur gegn fordómum. Þess fyrir utan er einnig mikilvægt að kynfræðsla sé aðgengileg börnum á grunnskólaaldri og að þau fáifræðslu, í samræmi við aldur og þroska, um samskipti, sambönd og kynlíf. Slík fræðsla eflir sjálfsmynd barna og unglinga, þjálfar þau í að virða eigin mörk og annara og eykur þekkingu þeirra á eigin kynheilbrigði.

Ákall um aukna kynfræðslu og fjölbreytileika samfélagsins hefur ekki síst komið frá börnunum sjálfum en ráðgjafarhópur umboðsmanns barna hefur m.a. lagt áherslu á að kynfræðsla sé aðgengilegri fyrir yngri bekki. Á síðasta Barnaþingi voru einnig sérstakar umræður um skort á jafnréttisfræðslu fyrir börn og voru barnaþingmenn sammála um að þarft væri að auka kynfræðslu og hinseginfræðslu í skólum landsins.

Embættið gaf út sameiginlega stuðningsyfirlýsingu með kynsegin- og hinseginfræðslu í grunnskólum ásamt mennta- og barnamálaráðuneytinu, Reykjavíurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Menntamálastofnun, Barnaheillum, Samtökunum ´78 og Heimili og skóla. 

Töluverð umræða átti sér stað í samfélaginu varðandi hinsegin- og kynfræðslu í grunnskólum og námsefni því tengdu. Borið hafði á því að villandi og oft röngum upplýsingum væri dreift um samfélagsmiðla, námsefni tekið úr samhengi og stillt upp á vafasaman hátt. Vegna þeirrar umræðu var gefin út sameiginleg yfirlýsing sem undirrituð var af umboðsmanni barna, mennta- og barnamálaráðuneytinu, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Menntamálastofnun, Barnaheillum, Samtökunum ´78 og Heimili og skóla, þar sem stuðningi var lýst við vandaða og góða hinseginfræðslu og kynfræðslu í skólakerfinu. 

Yfirlýsinguna má nálgast hér.

Réttindagæsla barna

Réttindagæsla barna hjá umboðsmanni barna var tilraunaverkefni til tveggja ára, en kveðið var á um hana í aðgerðaáætlun um innleiðingu Barnasáttmálans, fyrir árin 2021-2024, sem samþykkt var á Alþingi, í júní 2021. Verkefninu lauk í desember 2024 þar sem ekki fékkst fjármagn fyrir áframhaldandi vinnu réttindagæslunnar. Vinnsla mála sem komu inn til embættisins í gegnum réttindagæsluna voru unnin á annan hátt en almenn erindi sem embættinu berast, vinnsla þeirra tók lengri tíma.

Meðferð mála sem réttindagæslan tók til skoðunar byggðu á heimildum umboðsmanns barna, samkvæmt lögum nr. 83/1994 um umboðsmann barna. Þeir sem óskuðu eftir aðkomu réttindagæslunnar voru beðnir um að fylla út þar til gert eyðublað sem aðgengilegt var á vefsíðu embættisins barn.is. Ef beiðni um aðkomu réttindagæslunnar varðaði ákvörðun sem hægt var að skjóta til æðra setts stjórnvalds eða dómstóls, var það mál ekki tekið fyrir hjá réttindagæslunni, til að tryggja skilvirkni og rétta málsmeðferð.

Þegar beiðni barst um aðkomu réttindagæslu umboðsmanns barna var lagt mat á það hvort og með hvaða hætti væri hægt að veita stuðning og ráðgjöf. Markmiðið með aðkomu réttindagæslunnar var alltaf að aðstoða þau sem leita til embættisins við að ná fram réttindum barns. Tilgangurinn var enn fremur að efla hlutverk embættisins í að taka á móti erindum frá börnum, veita þeim stuðning, ráðgjöf og aðstoð við að leita réttar síns hjá stjórnvöldum.

Í starfi réttindagæslunnar var lögð rík áhersla á að aðkoma hennar að málum einstakra barna væri í þágu þeirra og ætti sér stað með þeirra vitund, samþykki og þátttöku. Foreldrar eða aðrir talsmenn barns gátu þó leitað til réttindagæslunnar fyrir hönd barnsins, en réttindagæslan áskildi sér réttinn til að leita með virkum hætti eftir samþykki þess barns sem um var að ræða hverju sinni.

Af þeim málum sem komu inn til réttindagæslunnar var í nokkuð mörgum tilvikum um að ræða erfiðleika innan grunnskóla. Dæmi voru um að börnum hafi verið vísað úr skóla eða þau horfið frá námi af ólíkum ástæðum og skólinn ekki sinnt menntun þeirra eða stuðningsþörfum. Mismunandi ástæður lágu þar að baki, má þar nefna einelti, ásakanir um brot gegn öðrum nemendum og skort á stuðningi innan skólans.

Umboðsmaður barna taldi sterkar vísbendingar hafa komið í ljós um að víða sé staða barna sem eru með ADHD og einhverfugreiningu alvarleg innan grunnskóla, þar sem bæði sé skortur á stuðningi og úrræðum. Afskipti lögreglu af börnum komu til skoðunar og þá komu einnig inn mál sem tengdust barnaverndarþjónustu.

Annie-spratt-edC4tXHw_-w-unsplash


Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica