Alþjóðlegt samstarf
Umboðsmaður barna tekur þátt í fjölbreyttu alþjóðlegu samstarfi og er samstarf við umboðsmenn barna í nágrannalöndunum ríkur þáttur í starfi embættisins
Alþjóðlegt samstarf
Umboðsmaður barna tekur í starfi sínu virkan þátt í ýmsu alþjóðlegu samstarfi. Mikilvægur liður í því er að eiga þétt samstarf við umboðsmenn barna í Evrópu, sem og sérstakt samstarf við umboðsmenn barna á Norðurlöndum. Auk þess tekur embættið virkan þátt í umræðu um málefni barna á heimsvísu, m.a. með þátttöku í alþjóðlegum ráðstefnum og viðburðum, fræðsluferðum og móttöku erlendra gesta.
Árlegur fundur norrænna umboðsmanna barna
Árlegur fundur umboðsmanna barna á Norðurlöndunum var haldinn í Færeyjum dagana 27. – 28. maí. Markmið fundarins er að miðla þekkingu og upplýsingum um nýjungar og verkefni sem miða að aukinni vernd, þátttöku og jafnræði barna. Á fundinum var sérstaklega fjallað um réttindagæslu barna þegar beita þarf börn þvingunaraðgerðum.
ENOC
Samtök umboðsmanna barna í Evrópu (ENOC) héldu sína árlegu ráðstefnu og ársfund í Helsinki dagana 18.-20. september. Fundinn sóttu fulltrúar frá yfir 40 embættum umboðsmanna barna í Evrópu. Umræðuefni ráðstefnunnar var vistun barna utan heimilis og var þar sérstaklega fjallað um fósturkerfi. Samtökin eru afar mikilvægur vettvangur fyrir alþjóðlega samræðu og samstarf um réttindi barna. Á vegum ENOC starfar einnig ENYA, samstarfsnet ráðgjafarhópa barna, og taka fulltrúar ENYA mikinn þátt í starfi samtakanna, ekki síst hinni árlegu ráðstefnu. Að þessu sinni tóku 18 ungmenni þátt í ráðstefnunni, þar á meðal Oddi Sverrisson. Á ársfundinum í Helsinki lét Salvör Nordal, umboðsmaður barna, af stjórnarsetu í ENOC, en hún hefur setið í stjórn ENOC frá árinu 2019.
Vorfundur ENOC fór fram í Tallinn, Eistlandi 3 – 4 júní. Þar var fjallað um börn sem eru vistuð utan heimilis. Þá var einnig fjallað um börn sem eiga foreldri í fangelsi. Fundinn sóttu Salvör Nordal, umboðsmaður barna og Hafdís Una Guðnýjardóttir, lögfræðingur hjá embættinu.
ENYA
Embættið tók þátt í starfi ENYA (European Network of Young Advisors) sem vinnur með samtökum evrópskra umboðsmanna barna. Að þessu sinni fór fundurinn fram í Bratislava daganna 1.-2. júlí og hann sóttu 18 ungmenni frá 16 löndum. Á fundinum var sjónum einkum beint að fósturkerfinu og bar fundurinn yfirskriftina Let's Talk Young, Let's Talk About Protecting and Promoting the Rights of Children in Alternative Care. Skipulagið í Slóvakíu var til fyrirmyndar og hópurinn vann frábærlega vel saman. Þrátt fyrir stífa dagskrá gafst tími til að skoða sig aðeins um og njóta góða veðursins. Júlíana Rós Skúladóttir og Oddi Sverrisson voru fulltrúar embættisins á fundinum og stóðu sig með eindæmum vel. Fundurinn var mjög lærdómsríkur og það var áhugavert að kynnast aðstæðum barna í ólíku löndum og hvernig fósturkerfið er útfært í hverju landi fyrir sig.
Nánari upplýsingar um fund ENYA (á ensku)
Annað erlent samstarf
Athens Democratic Forum
Þau Salvör Nordal, umboðsmaður, Dagur Björgvin Jónsson og Þórey María Kolbeins, fulltrúar ráðgjafarhóps umboðsmanns barna sóttu ráðstefnuna Athens Democratic Forum sem haldin var 1 – 3. október í Aþenu í samstarfi við The New York Times. Yfirskrift ráðstefnunnar var A Moment of Truth en þar var fjallað um falsfréttir, upplýsingaóreiðu og gervigreind. Samhliða metnaðarfullri dagskrá var 45 ungmennum víðs vegar að boðið til ráðstefnunnar til að vinna tillögur og kynna undir lok hennar. Umboðsmaður barna í Grikklandi stýrði. Dagur og Þórey María voru í lykilhlutverkum.
Heimsókn frá starfsmönnum umboðsmanns barna á Grænlandi
Þann 8. nóvember tók embættið á móti fimm starfsmönnum umboðsmanns barna á Grænlandi, þeim Rasmine Hansen, Laura Lennert Jensen, Malu Balle, Laila Ludvigsen og Ditte Enemark Sølbeck. Í heimsókninni var rætt um starfsemi embættanna, þátttöku barna og tækifæri þeirra til þess að hafa raunveruleg áhrif. Þá var sérstaklega fjallað um réttindagæslu barna en það var tilraunaverkefni hjá embættinu til tveggja ára, en það er til skoðunar að koma á sambærilegu tilraunarverkefni í Grænlandi.
Ungmennaþing Norðurlanda og Eystrasaltsríkja
Sigurveig Þórhallsdóttir, lögfræðingur hjá embættinu, sótti ungmennaþing Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna 26. – 28. september í Vilníus, Litháen. Á þinginu stóð Sigurveig, ásamt öðrum að vinnustofu þar sem fjallað var um mikilvægi þess að þeir sem taki ákvarðanir hlusti á ungt fólk (e. “Convince decision makers to listen to youth!”).
Sérfræðihópur um þátttöku barna á tímum heimsfaraldurs
Sigurveig Þórhallsdóttir, lögfræðingur hjá embættinu, átti sæti í sérfræðihópi á vegum Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar (NVC). Um er að ræða norrænt samstarfsverkefni sem fjallar um rétt barna og ungmenna til þátttöku á tímum heimsfaraldurs. Markmið verkefnisins er að miðla þekkingu og rannsóknum um áhrif faraldursins og sóttvarnatakmarkana á börn á Norðurlöndunum. Verkefnið er unnið fyrir hönd Norrænu barna- og æskulýðsnefndarinnar (NORDBUK) og Norrænu ráðherranefndarinnar um heilbrigðis- og félagsmál.
Sjá nánar um verkefnið (VANTAR LINK)
Málþing um þriðju valfrjálsu bókunina við Barnasáttmálann (10 Years of OPIC)
Lögfræðingar embættisins, Sigurveig Þórhallsdóttir og Hafdís Una Guðnýjardóttir tóku þátt í málþingi sem haldið var í apríl við Háskólann í Leiden. Á málþinginu var fjallað um þriðju valfrjálsu bókunina við Barnasáttmálann í tilefni þess að 10 ár voru liðin frá því að bókunin tók gildi. Þriðja valfrjálsa bókunin fjallar um sjálfstæða kæruheimild fyrir börn og fulltrúa þeirra. Það þýðir að börn í þeim aðildarríkjum sem hafa fullgilt bókunina geta leitað til Barnaréttarnefndarinnar ef þau telja að brotið hafi verið gegn þeirra réttindum í sínu heimalandi. Þess ber að geta að Ísland hefur hvorki fullgilt þessa bókun né skrifað undir hana.
Nánari upplýsingar um málþingið má nálgast hér.
Norræna barnaverndarráðstefnan
Salvör Nordal tók þátt í pallborði á norrænu barnaverndarráðstefnunni sem haldin var í Osló þann 2.-4. september.