Fjölbreytt samráð við börn
Embættið leggur áherslu á að efla lýðræðisþátttöku barna og hefur í starfi sínu beint samráð við börn um mál sem varða hagsmuni þeirra á öllum sviðum.
Efnisyfirlit
- Ráðgjafarhópurinn
- Barna- og ungmennaráð heimsmarkmiðanna
- Fundur með börnum frá Grindavík
- Reynsla barna frá Grindavík
Embættinu ber að stuðla að þátttöku barna í samfélagslegri umræðu og allri stefnumótun og ákvarðanatöku í málefnum barna hjá ríki og sveitarfélögum. Umboðsmaður barna starfrækir ráðgjafarhóp með börnum og heldur utan um starf Ungmennaráðs heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Þá leggur embættið ríka áherslu á að kynna fjölbreyttar leiðir til samráðs við börn, en mikilvægur liður í því er m.a. barnaþing sem haldið er annað hvert ár og krakkakosningar sem fram fara samhliða alþingis-, forseta- og sveitarstjórnarkosningum.
Ráðgjafarhópurinn
Embættið leitast eftir því að efla þátttöku barna með samtali um það sem skiptir máli fyrir börn og inngilda þau í ákvarðanatöku sem snýr að þeirra réttindum. Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna gegnir lykilhlutverki í starfi embættisins og er ráðgefandi fyrir umboðsmann um hagsmuni barna í landinu. Í hópnum eru starfandi börn og ungmenni á aldrinum 12 – 17 ára sem öll hafa það sameiginlegt að brenna fyrir réttindum barna. Þar sem aldurstakmarkið er 17 ára er hópurinn síbreytinlegur og nýir meðlimir ávallt velkomnir.
Á vefsíðu embættisins er hægt að fá frekari upplýsingar um hópinn og sækja um að taka þátt. Fundir ráðgjafarhópsins eru að jafnaði 1 sinni í mánuði og oftar þegar viðburðir eða verkefni kalla á slíkt. Ekki er gerð krafa um lágmarksþátttöku ráðgjafa á fundum eða öðrum verkefnum. Starfsmaður embættisins sem sérhæfir sig í þátttöku barna heldur utan um starf hópsins, sendir út fundarboð, gerir drög að fundardagskrá og hefur yfirsýn með samskiptum og umræðum á fundum. Umræðan stýrist að öðru leiti af þeim málefnum sem eru ofarlega í huga barnanna hverju sinni.
Verkefni ráðgjafarhópsins á árinu voru fjölbreytt. Fulltrúar hópsins fá oft boð um að vera með erindi á hinum ýmsu ráðstefnum og samráðsfundum. Í byrjun árs 2024 hélt hópurinn erindi á ráðstefnu BUGL um transbörn. Þá átti hópurinn fund með mennta- og barnamálaráðherra í kjölfar bréfs sem hópurinn sendi á ráðherrann. Í bréfinu kemur meðal annars fram að börn og ungmenni telja mikla þörf á frekari fræðslu um málefni jaðarsettra hópa. Kennsla eigi að vera þar samræmd milli skóla og mikilvægt sé að allir standi jafnt að vígi.
Um sumarið héldu fulltrúar frá hópnum til Bratislava á fund ENYA, þar sem 18 ungmenni frá 16 löndum á vegum evrópusamtaka umboðsmanns barna fjölluðu um börn í fósturkerfinu. Júlíana Rós Skúladóttir og Oddi Sverrisson voru fulltrúar embættisins á fundinum. Nánar er fjallað um ENYA í kaflanum um alþjóðlegt samstarf.
Í september afhenti ráðgjafarhópurinn, ásamt Salvöru Nordal umboðsmanni barna, ráðherrum skýrslu barnaþings ársins 2023. Meðal þeirra mála sem fjallað er um í skýrslunni og börnin ræddu sérstaklega um við ráðherra eru almenningssamgöngur, aukið samráð við börn, andleg heilsa og mikilvægi fræðslu um jaðarhópa í skólum. Einnig ræddu börnin og ráðherrarnir um vaxandi ofbeldi meðal barna og hvernig hægt sé að bregðast við þessari þróun.
Barna- og ungmennaráð heimsmarkmiðanna
Umboðsmaður barna heldur utan um starf Barna- og ungmennaráðs heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna samkvæmt samningi við forsætisráðuneytið. Meginmarkmið Barna- og ungmennaráðsins er að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, meðal ungmenna og í samfélaginu almennt. Ráðinu er ætlað að vera lifandi vettvangur þar sem heimsmarkmiðin og Barnasáttmálinn eru höfð að leiðarljósi og rædd með gagnrýnum og lausnamiðuðum hætti. Ungmennaráðið samanstendur af tólf fulltrúum, víðs vegar að af landinu, á aldursbilinu 13-18 ára.
Nýtt barna- og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna hélt sinn fyrsta fund í Reykjavík dagana 15. og 16. febrúar 2024 en nýir fulltrúar ráðsins voru kosnir á barnaþingi sem haldið var í nóvember 2023 og valdir úr góðum hópi umsækjenda. Ráðið átti m.a. fund með Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Landvernd, heilbrigðisráðherra og umboðsmanni barna. Fráfarandi fulltrúar ráðsins tóku einnig þátt á fundinum þar sem þau deildu reynslu sinni og upplifun til nýrra fulltrúa. Við þökkum þeim sérstaklega fyrir vel unnin störf á síðustu tveimur árum og óskum þeim velfarnaðar í framtíðinni.
Nýja ráðið fundaði síðan aftur í Reykjavík í nóvember og gistu í tvær nætur í Reykjadal í Mosfellssveit. Yfir fundartímann hóf ráðið undirbúning á fundi með ríkisstjórn Íslands sem er á dagskrá árið 2025.
Fundur með börnum frá Grindavík
Þann 7. mars 2024 var öllum börnum á grunn- og framhaldsskólaaldri boðið á fund í Laugardalshöll á vegum umboðsmanns barna og bæjaryfirvalda Grindarvíkur. Markmið fundarins var að gefa börnunum tækifæri á að koma skoðunum sínum á framfæri og fá þeirra hugmyndir um hvernig stjórnvöld gætu staðið betur vörð um þeirra réttindi en Grindvíkingum var gert að yfirgefa heimili sín undir lok árs 2023 vegna jarðskjálfta og eldgosa. Rúmlega 300 börn sóttu fundinn og tóku þar virkan þátt. Katrín Jakobsdóttir, þáverandi forsætisráðherra, ávarpaði fundinn og svaraði spurningum barnanna. Áhersla var lögð á að skapa vettvang sem væri á forsendum barnanna sjálfra þar sem þau fengju að ráða þeim málefnum sem rædd voru. Börnin unnu saman að skilaboðum til ríkisstjórnarinnar sem umboðsmaður barna hefur komið á framfæri m.a. í bréfi til ríkisstjórnar Íslands sem var sent 13. mars. Þá voru niðurstöður fundarins teknar saman í skýrslu sem var afhent forsætisráðherra í júní 2024. Í tillögum barnanna komu fram ýmis áhersluatriði, einkum varðandi skóla- og íþróttastarf, tómstundir, húsnæðismál og stuðning fyrir fjölskyldur. Þá birtist með margvíslegum hætti sú ósk barnanna að þeim verði veitt fleiri tækifæri til samveru og að styrkja tengsl sín á milli.
Reynsla barna frá Grindavík („að allir séu óhultir“)
Þann 17. júní 2024 opnaði sýningin „að allir séu óhultir“ í Lestrasal Safnahúsins. Verkin á sýningunni voru afrakstur myndlistarnámskeiðs sem Listasafn Íslands hélt í samstarfi við umboðsmann barna og var undir handleiðslu myndlistarfólksins Margrétar H. Blöndal og Kolbeins Huga. Verkin sem voru sýnd voru unnin út frá reynslu barna frá Grindavík sem þurftu að flýja heimili sín 10. nóvember 2023. Þá voru einnig sýnd gögn frá fundi umboðsmanns barna með börnum frá Grindavík í byrjun mars. Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra og Salvör Nordal, umboðsmaður barna fluttu ávarp við opnunina.
Við opnunina afhentu börn frá Grindavík, þau Bergþóra, Lena, Ágústa, Þórgunnur og Sigtryggur Máni, forsætisráðherra skýrslu með niðurstöðum fundarins sem haldinn var í mars. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að samvera var börnunum ofarlega í huga og þeim fannst jákvætt að fá að vera með fjölskyldu sinni og fá tækifæri til að hitta aðra ættingja. Fram kom að börnunum fannst erfitt að þurfa að flýja heimili sín í Grindavík og þau upplifðu mikla sorg, óánægju og söknuð vegna þess. Þá voru þau þakklát fyrir að hafa fengið annað húsnæði og tækifæri til að kynnast nýju umhverfi.