Krakkakosningar
Krakkakosningar eru samstarfsverkefni umboðsmanns barna og KrakkaRÚV. Krakkakosningarnar hafa verið haldnar sjö sinnum, þar af tvisvar sinnum árið 2024
Krakkakosningar
Með Krakkakosningum er börnum gefið tækifæri á að láta í ljós skoðanir sínar á frambjóðendum í samræmi við ákvæði Barnasáttmálans, samning Sameinuðu þjóðanna um rétttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Tvennar kosningar fóru fram 2024, annars vegar í tengslum við forsetakosningar og hins vegar Alþingiskosningar.
„Krakkakosningar eru afar skemmtilegt verkefni og tækifæri fyrir skólana að kynna fyrir börnum fyrirkomulag kosninga og gaman að sjá að fjölmargir skólar sýna verkefninu áhuga. Þá hefur samstarfið við RUV alltaf verið afar ánægjulegt“, segir umboðsmaður barna, Salvör Nordal.
Forsetakosningar
Krakkakosningar voru haldnar sjötta sinn í maí 2024 en það var í annað sinn sem kosningar voru haldnar í tengslum við forsetakosningar. Kosningarnar hófust í maí og niðurstöður vöru tilkynntar í kosningasjónvarpi RÚV, laugardaginn 1. júní. Forsetaframbjóðendur fengu tækifæri til þess að kynna sig með stuttu myndbandi sem sýnt var í Krakkafréttum og það var einnig gert aðgengilegt á vefsvæði KrakkaRÚV. Í framhaldi af því var börnum í grunnskólum landsins gefið tækifæri á að kjósa sinn uppáhalds forsetaframbjóðanda. Alls tóku 5.394 nemendur frá 55 grunnskólum þátt í kosningunum.
Niðurstöður voru svohljóðandi:
- Jón Gnarr, 26,5%
- Halla Hrund Logadóttir, 13,9%
- Arnar Þór Jónsson, 13,8%
- Katrín Jakobsdóttir, 11,8%
- Baldur Þórhallsson, 9,9%
- Viktor Traustason, 6,2%
- Halla Tómasdóttir, 5,0%
- Ásdís Rán Gunnarsdóttir, 4,4%
- Ástþór Magnússon, 2,6%
- Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, 1,6%
- Helga Þórisdóttir, 1,5%
- Eiríkur Ingi Jóhannsson, 0,6%
- Auðir og ógildir seðlar voru 178 eða 3,3%
Alþingiskosningar
Í nóvember fóru fram Krakkakosningar í tengslum við Alþingiskosningar sem voru haldnar 30. nóvember. Þetta var í sjöunda sinn sem krakkakosningar hafa verið haldnar. Framkvæmd kosninganna var sem áður í höndum hvers skóla eða bekkjar. Kosningarnar fóru fram 25. – 27. nóvember. Það var í höndum kennara að safna saman atkvæðum og senda niðurstöður til umboðsmanns barna. Alls skiluðu 10 stjórnmálaflokkar inn framboði á landsvísu og einn í Reykjavík norður. Kynningar frá framboðum voru birtar í innslögum í Krakkafréttum vikuna fyrir kosningar en myndböndin voru einnig aðgengileg á vefsíðu KrakkaRúv. Niðurstöður Krakkakosninga voru tilkynntar í upphafi Kosningavöku RÚV þann 30. nóvember. Alls tóku 76 grunnskólar þátt og um 6100 nemendur. Þetta er mesta þátttaka frá upphafi Krakkakosninga en þær fóru fyrst fram árið 2016. Miðflokkurinn sigraði nokkuð örugglega með 25% atkvæða, næst komu Píratar með 13,5% atkvæða og svo Lýðræðisflokkurinn með 10,2% atkvæða. Auðir og ógildir seðlar voru 313.
Kosningarfundurinn
Á degi mannréttinda barna var haldinn kosningafundur barna í Norræna húsinu. Markmið fundarins var að vekja athygli á málefnum barna og veita börnum tækifæri til þess að beina spurningum til frambjóðenda um helstu áherslur flokkanna í málefnum barna og þau atriði sem helst brenna á börnum. Fulltrúar allra framboða á landsvísu mættu á fundinn sem var í umsjón ráðgjafarhóps umboðsmanns barna. Fundurinn var tekinn upp og verður aðgengilegur á barn.is, vefsíðu embættisins.