Sérstök verkefni
Embættinu ber að afla og miðla upplýsingum um stöðu tiltekinna hópa barna og hafa frumkvæði að stefnumótandi umræðu í samfélaginu um málefni barna.
Efnisyfirlit
- Upplýsingar um bið barna eftir þjónustu
- Mat á því sem er barni fyrir bestu
- Barnvæn réttargæsla
- Málþing um hljóðvist
- Gróðursetning í Vinaskógi
Eitt af hlutverkum umboðsmanns barna er að afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni í samvinnu við ýmsa aðila; þau gögn skulu lögð til grundvallar samræmdri og markvissri stefnu í málefnum barna á öllum stigum stjórnsýslunnar í samræmi við ákvæði Barnasáttmálans.
Upplýsingar um bið barna eftir þjónustu
Umboðsmaður barna hefur frá árinu 2021 staðið fyrir reglulegri upplýsingaöflun um þann fjölda barna sem bíður eftir þjónustu hjá tilteknum aðilum með það að markmiði að varpa ljósi á stöðuna hverju sinni. Upplýsingar voru birtar tvívegis á árinu, annars vegar í febrúar og hins vegar í september.
Samstarfsaðilar verkefnisins eru Barna- og fjölskyldustofa, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Geðheilsumiðstöð barna, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Barna- og unglingageðdeild LSH, Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, Heilsuskóli Barnaspítalans og Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.
Það er von umboðsmanns barna að birting þessara upplýsinga muni varpa ljósi á raunverulega stöðu barna í íslensku samfélagi og verði stjórnvöldum hvatning til aðgerða og úrbóta. Söfnun og birting upplýsinganna er jafnframt liður í því hlutverki umboðsmanns að stuðla að frekari innleiðingu Barnasáttmálans.
Staðan árið 2024:
Barna- og fjölskyldustofa
Upplýsingar um bið barna eftir úrræðum á vegum BOFS eru annars vegar frá 1. febrúar 2024 og hins vegar frá 1. september það sama ár. Úrræði á vegum BOFS eru MST, Stuðlar, Bjargey, styrkt fóstur og Barnahús.
MST – Í janúar beið 31 barn eftir þjónustu MST teymis og meðalbiðtími var 61 dagur. Í september biðu 24 börn eftir þjónustu MST teymis og meðalbiðtími var 89 dagar.
MST er meðferðarúrræði á vegum Barna- og fjölskyldustofu fyrir fjölskyldur barna á aldrinum 12-18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda.
Stuðlar – Í janúar biðu 7 börn eftir þjónustu meðferðardeildar Stuðla og meðalbiðtími var 66 dagar. Í september biðu 5 börn og meðalbiðtími var 53 dagar.
Stuðlar eru meðferðarstöð fyrir börn og unglinga frá 12 til 18 ára, Stuðlar skiptast í þrjár deildir, neyðarvistun, meðferðardeild og stuðningsheimilið Fannafold.
Bjargey - Það beið 1 barn eftir plássi á Bjargey bæði í janúar og september. Í janúar var meðalbiðtími 57 dagar en 34 í september.
Bjargey er langtímameðferðarheimili sem er ætlað stúlkum og kynsegin. Meginmarkmið meðferðarheimilisins er einkum að veita sérhæfða meðferð vegna alvarlegra hegðunarerfiðleika og vímuefnaneyslu.
Styrkt fóstur - Það biðu 2 börn eftir því að komast í styrkt fóstur í janúar og meðalbiðtími var 59 dagar. Í september biðu 6 börn og meðalbiðtími var 34 dagar.
Styrkt fóstur er þegar þörf er fyrir sérstaka umönnun og þjálfun barns á fósturheimili í takmarkaðan tíma, að hámarki tvö ár. Gjarnan er um að ræða börn sem eiga við íþyngjandi tilfinninga- og hegðunarvanda að etja sem ekki hefur tekist að vinna bug á með öðrum og vægari hætti.
Barnahús -Það biðu 7 börn eftir meðferð í Barnahúsi janúar. Þau brot sem börnin hafa orðið fyrir eru flokkuð eftir alvarleika í flokka 1 og 2. Meðalbiðtími í flokki 1 var 27 dagar og 47 dagar í flokki 2. Í september 2024 biðu 14 börn, það bárust ekki upplýsingar um meðalbiðtíma.
Ráðgjafar- og greiningarstöð
Frá byrjun febrúar 2024 og fram í ágúst það sama ár fjölgaði börnum sem biðu eftir greiningu hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð úr 565 í 626.
Í byrjun febrúar 2024 biðu 330 börn á aldrinum 0-6 ára eftir þverfaglegri greiningu hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð, meðalbiðtími var 20 mánuður og 288 börn höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Jafnframt biðu 235 börn á aldrinum 6-18 ára og meðalbiðtími í þeim aldurshópi var einnig 20 mánuðir og 209 börn höfðu beðið lengur en þrjá mánuði.
Í ágúst 2024 beið 381 barn á aldrinum 0-6 ára eftir þverfaglegri greiningu, meðalbiðtími var 22,8 mánuðir og 333 börn höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Jafnframt biðu 245 börn á aldrinum 6-18 ára eftir þverfaglegri greiningu. Meðalbiðtími í þeim aldurshópi var 20 - 22 mánuðir og 220 börn höfðu beðið lengur en þrjá mánuði.
Hlutverk Ráðgjafar- og greiningarstöðvar er að tryggja að börn með alvarlegar þroskaskerðingar sem leitt geta til fötlunar síðar á ævinni fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem bæta lífsgæði þeirra.
Barna- og unglingageðdeild (BUGL)
Frá því í lok janúar 2024 og fram í lok ágúst, það sama ár fjölgaði börnum sem biðu eftir þjónustu göngudeildar BUGL úr 22 í 47.
Í lok janúar 2024 biðu 19 börn eftir þjónustu göngudeildar BUGL, meðalbiðtími var 1,26 mánuður. Þar að auki biðu 3 börn eftir átröskunarmeðferð göngudeildar. Í lok ágúst 2024 biðu 43 börn og meðalbiðtími var 1,8 mánuður. Þar að auki biðu 4 börn eftir átröskunarmeðferð. Hér er um að ræða nokkra aukningu frá því í febrúar.
Göngudeild barna- og unglingageðdeildar veitir börnum og unglingum að 18 ára aldri þjónustu vegna geð- og þroskaraskana.
Geðheilsumiðstöð barna
Fjöldi barna sem biðu eftir greiningu hjá Geðheilsumiðstöð barna jókst úr 1.636 í janúar í 2.020 í ágúst 2024. Í byrjun árs höfðu 1.220 börn beðið lengur en þrjá mánuði en í ágúst 2024 höfðu 1.727 börn beðið lengur en þrjá mánuði.
Geðheilsumiðstöð barna (GMB) veitir 2. stigs heilbrigðisþjónustu á landsvísu fyrir börn að 18 ára aldri. Miðstöðin sinnir greiningu, ráðgjöf og meðferð vegna geð- og þroskavanda barna og unglinga.
Heilsuskólinn
Það biðu 120 börn eftir að komast að hjá Heilsuskólanum í byrjun febrúar 2024, meðalbiðtími var 14,7 mánuður og 89 börn höfðu beðið lengur en 3 mánuði. Í lok ágúst biðu 100 börn, meðalbiðtími var 12 mánuðir og 84 börn höfðu beðið lengur en 3 mánuði.
Heilsuskóli Barnaspítalans þjónar öllu landinu og aðstoðar börn og fjölskyldur þeirra sem eru 2,5 staðalfrávikum fyrir ofan meðalkúrfu í BMI eða börn sem hafa verið með mikla þyngdaraukningu á stuttum tíma. Í Heilsuskólanum eru fjölskyldum kenndar aðferðir til að takast á við þyngdarstjórnun og viðhalda breytingum ásamt því að bæta lífsgæði til lengri tíma. Leitast er við að hvetja börnin áfram með styðjandi hætti ásamt því að veita ráðgjöf um mataræði og hreyfingu.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins
Í febrúar 2024 biðu 282 börn eftir sálfræðiþjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Meðalbiðtími var þá 106 dagar og 150 börn höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Í ágúst 2024 hafði börnum á biðlista fækkað í 209, en meðalbiðtími hafði lengst verulega og var orðinn 203 dagar. Þá höfðu 154 börn beðið lengur en þrjá mánuði eftir að komast að hjá sálfræðingi.
Sálfræðingar á heilsugæslustöðvum veita börnum meðferð vegna hegðunar- og tilfinningavanda ásamt því að veita foreldrum þeirra ráðgjöf. Læknir á heilsugæslustöð þarf að senda tilvísun til sálfræðings til nánara mats ásamt því að upplýsa um áætlaðan biðtíma.
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu
Í febrúar biðu 442 mál meðferðar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli barnalaga og hjúskaparlaga og hefur þeim fjölgað frá því í febrúar 2023 en þá biðu175 mál. Meðalbiðtími þessara mála er nú 4,5 mánuðir. Þá beið 21 mál meðferðar sem stofnað var til á grundvelli lögræðislaga. Fjöldi mála þar sem börn eiga í hlut og beðið er sáttameðferðar hjá sýslumönnum á öllu landinu hefur aukist og bíða nú108 mál en það voru 58 mál í febrúar 2023. Tölur frá sýslumanni bárust ekki í ágúst 2024.
Á fjölskyldusviði embættisins eru meðal annars meðhöndluð erindi foreldra er varða framfærslu barna, umgengni, sambúðarslit, skilnað, skipta búsetu, forsjá, lögheimili eða utanlandsferð. Við meðferð þessara mála kann að reyna á sáttameðferð, ráðgjöf og fleiri úrræði samkvæmt barnalögum. Þá eru meðhöndluð þar mál á grundvelli ættleiðingarlaga og lögræðislaga. Börnin sjálf eru ekki aðilar þessara mála, í merkingu stjórnsýslulaga, en málin varða hagsmuni þeirra.
Heyrnar- og talmeinastöð Íslands
Í lok janúar 2024 biðu 797 börn hjá Heyrnar- og talmeinastöð en í byrjun júlí það ár biðu 418 börn. Þessi börn biðu nær öll eftir heyrnarmælingu og sum einnig eftir annarri þjónustu heyrnarfræðinga eða lækna. Meðalbiðtími í lok janúar var 7,1 mánuður fyrir börn undir fjögurra ára aldri og 7,8 fyrir eldri börn. Í byrjun júlí 2024 var meðalbiðtími fjórir mánuðir hjá yngri hópnum og tveir hjá þeim eldri.
Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er miðstöð þekkingar í heyrnar- og talmeinum á Íslandi. Þar er veitt þjónusta á landsvísu, þeim sem eru heyrnarskertir, heyrnarlausir eða með mál og talmein.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
Árið 2024 höfðu 80 börn stöðu brotaþola í kynferðisbrotamáli og 150 í ofbeldisbrotamáli. Þá höfðu 21 barn stöðu sakbornings í kynferðisbrotamáli og 145 í ofbeldisbrotamáli. Hér þarf að gera fyrirvara þar sem um er að ræða bráðabirgðatölur sem geta tekið breytingum aftur í tímann.
Mat á því sem er barni fyrir bestu
Leiðbeiningar umboðsmanns barna
Árið 2024 var unnið að uppfærslu á leiðbeiningum embættisins um framkvæmd mats á því sem er barni fyrir bestu og voru þær birtar á vefsíðu embættisins í lok árs 2024. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. Barnasáttmálans á það sem er barni fyrir bestu ávallt að hafa forgang þegar taka á ákvarðanir eða gera á ráðstafanir sem varða börn. Til þess að vita hvað sé barni fyrir bestu þarf að framkvæma formlegt mat á bestu hagsmunum barns. Slíkt mat á að framkvæma, óháð því hvort áhrifin eru bein eða óbein t.d. ef til stendur að vinna drög að frumvarpi eða reglugerð eða setja á fram leiðbeiningar í málaflokki sem gæti haft áhrif á börn. Með það að markmiði að auka þekkingu á 1. mgr. 3. gr. Barnasáttmálans og auðvelda framkvæmd mats á áhrifum á börn hefur embætti umboðsmanns barna útbúið leiðbeiningar.
Leiðbeiningarnar byggja að mestu á fyrirmynd frá umboðsmanni barna í Noregi. Mikil áhersla var lögð á að hafa leiðbeiningarnar skýrar og aðgengilegar. Leiðbeiningunum er skipt upp í tvo hluta, fyrri hlutinn tekur til aðgerða sem hafa áhrif á börn með almennum hætti eins og t.d. á vanalega við varðandi setningu laga, reglugerða eða við mótun stefnu. Seinni hlutinn tekur til ákvarðana eða aðgerða sem varða einstök börn eða afmarkaðan hóp barna. Hvorum hluta fyrir sig er síðan skipt upp í fjóra þætti.
Samstarfsverkefni umboðsmanns barna og mennta- og barnamálaráðherra
Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra og Salvör Nordal, umboðsmaður barna undirrituðu samning þriðjudaginn 16. janúar 2024 um samvinnu við gerð fræðsluefnis um mat á því sem er barni fyrir bestu. Samningurinn var gerður í tengslum við aðgerð 4.1 í þingsályktun um barnvænt Ísland. Þann 4. nóvember 2024 var gefinn út leiðarvísir um mat á áhrifum á börn sem er ætlað að liggja til grundvallar við stefnumótandi ákvarðanatöku stjórnvalda, svo sem við gerð lagafrumvarpa, reglugerða, stefnu, aðgerðaáætlana o.fl.
Barnvæn réttargæsla
Umboðsmaður barna vann á árinu að úttekt og greiningu á íslensku réttarkerfi út frá hugmyndafræði barnvænnar réttarvörslu. Markmiðið er að greina og varpa ljósi á stöðuna hér á landi og gera tillögur að úrbótum sem nauðsynlegar eru til að styrkja réttindi barna innan réttarkerfisins.
Umboðsmaður barna framkvæmdi í júlí könnun í því skyni að leggja mat á það hversu vel réttarkerfið og stjórnsýslan samræmast réttindum barna samkvæmt Barnasáttmálanum og þeim kröfum sem gerðar eru til barnvænnar réttarvörslu í þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem við eiga. Könnunin var send til stofnana innan þeirra fimm málefnasviða sem úttektin nær til: Lögreglumála, dómsmála, barnaverndarmála, útlendingamála og málefna sýslumanna. Áætlað er að verkefninu ljúki árið 2025 með útgáfu skýrslu.
Málþing um hljóðvist
Í tilefni af degi heyrnar, sem er þann 3. mars ár hvert, efndi umboðsmaður barna ásamt Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Vinnueftirlitinu og Embætti landlæknis til ráðstefnu um hljóðvist í skólum, forvarnir og breytt viðhorf til heyrnarverndar. Ráðstefnan fór fram í Salnum, Kópavogi föstudaginn 1. mars 2024. Salvör Nordal umboðsmaður barna ávarpaði ráðstefnuna og Dagur B. Eggertsson sá um fundarstjórn. Eftirfarandi erindi voru á ráðstefnunni:
Hljóðvist í skólum - Ólafur Hjálmarsson
Hávaðamælingar í skólum og umhverfi barna - Sigurður Einarsson
Upplifun barna af hávaða og hljóðvist - stutt myndbönd
Heyrnarskert börn í skóla-umhverfi - Regína Rögnvaldsdóttir
Úrræði fyrir heyrnarskert börn í skólum - Hildur Heimisdóttir
Áhrif hávaða og slæmrar hljóðvistar á börn og unglinga - Kristbjörg Gunnarsdóttir og Ösp Vilberg Baldursdóttir
Lýðheilsa, hljóðvist og heyrnarvernd - Alma Möller, landlæknir
Framtíðarsýn, breytt viðhorf og áherslur WHO - Kristján Sverrisson
Gróðursetning í Vinaskógi
Börn úr Vesturbæjarskóla, ásamt umboðsmanni barna og í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands, gróðursettu trjáplöntur í Vinaskógi í tilefni af barnaþingi sem haldið var í nóvember 2023. Gróðursetningin fór fram á degi íslenskrar náttúru sem var mánudaginn 16. september 2024. Umhverfismál eru börnum afar hugleikin og var mikil áhersla lögð á þau málefni í umræðum á öllum barnaþingum. Markmið gróðursetningarinnar er að kolefnisjafna ferðir barnaþingmanna og sérstaklega þeirra sem komu lengst að, í samræmi við áherslur barnaþingmanna á umhverfis- og loftslagsmál og umhverfisvæna samgöngumáta.
Vinaskógur var stofnaður í tilefni Landgræðsluskógaátaksins árið 1990 og átti frú Vigdís Finnbogadóttir hugmyndina að honum og er hún verndari hans. Frú Vigdís Finnbogadóttir, er jafnframt verndari barnaþings og því er vel við hæfi að velja Vinaskóg til gróðursetningar í tengslum við barnaþing. Nemendur í sjötta bekk Vesturbæjarskóla tóku í gróðursetningunni að þessu sinni ásamt starfsfólki umboðsmanns barna. Skógræktarfélag Íslands hefur umsjón með gróðursetningu og umhirðu Vinaskógar.