Ársskýrsla 2019

Lesa meira

Til forsætisráðherra

Árið 2019 markaði tímamót í starfi umboðsmanns barna en á árinu komu til framkvæmda þær mikilsverðu breytingar sem gerðar voru á lögum embættisins í lok árs 2018 með nýjum verkefnum og ber þar barnaþingið hæst. Á árinu voru jafnframt þrjátíu ár liðin frá því að Barnasáttmálinn var samþykktur. Hingað til hefur ársskýrsla umboðsmanns barna til ráðherra verið gefin út í prentuðu formi í samræmi við lög embættisins en breyting var gerð á því við endurskoðun laganna og er skýrslan nú eingöngu birt rafrænt. Við hönnun skýrslunnar var áhersla lögð á að gera hana aðgengilegri og ekki síst börnum.

Fjárveitingar til embættisins hækkuðu á árinu 2019 í fyrsta skipti í langan tíma og gefa þær embættinu aukin tækifæri til að sækja fram. Í upphafi árs var ráðist í umfangsmikla stefnumótunarvinnu með LC ráðgjöf þar sem starfsemi embættisins var kortlögð með það fyrir augum að styrkja sýn embættisins og frumkvæði þess á öllum sviðum. Haldinn var fundur með hagaðilum og fulltrúum úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna og unnið úr margvíslegum tillögum og ábendingum. Niðurstaða þessarar vinnu var sú að lögð yrði áhersla á þrjá megin þætti í starfi embættisins til ársins 2025: Barnasáttmálann, innleiðingu hans og fræðslu; þátttöku barna og fjölbreytt samráð við börn; og framsækni þar sem leitað væri eftir markvissu samstarfi við innlenda og erlenda aðila.

Umboðsmaður barna átti fjölbreytt samráð við börn á árinu, má þar nefna vinnu sérfræðihóps barna með fötlun en skýrsla með niðurstöðum þeirrar vinnu var afhent félags- og barnamálaráðherra í apríl. Með lögfestingu ráðgjafarhóps umboðsmanns barna hefur hópurinn fengið aukið vægi í starfi embættisins og umgjörð hans styrkst til muna. Árið var einkar viðburðarríkt hjá ráðgjafarhópnum, hann hélt uppá tíu ára afmæli í apríl þar sem Vigdís Finnbogadóttir var sérstakur heiðursgestur. Hópurinn mótaði stefnu um starf ráðgjafarhópsins og tóku fulltrúar úr hópnum í fyrsta skipti þátt í ungmennastarfi evrópusamtaka umboðsmanna barna (ENYA) og sóttu fundi í Brussel og Belfast af því tilefni. Þá gegndi ráðgjafarhópurinn mikilvægu hlutverki við skipulag og framkvæmd barnaþingsins í nóvember.

Umboðsmaður barna og félags- og barnamálaráðherra undirrituðu samning á árinu um aukið samstarf og verkefni sem tengdist þátttöku barna við stefnumótun og ákvarðanatöku og aðkomu ráðuneytisins að barnaþingi. Í lok ársins skilaði embættið skýrslu um efnið þar sem farið er yfir stöðu samráðs við börn hér á landi og settar fram tillögur um hvernig styrkja megi samráð við börn hjá ríki og sveitarfélögum. Í tengslum við áherslu embættisins á þátttöku barna kom hingað til lands Laura Lundy, prófessor við Queen´s Háskóla í Belfast en hún er einn helsti sérfræðingur samtímans á þessu sviði. Jafnframt var ákveðið að skipulag barnaþings tæki mið af kenningum Lundy um markvissa og raunverulega þátttöku barna. 

Hápunktur starfsársins var fyrsta barnaþingið sem haldið var í Hörpu 21.-22. nóvember. Undirbúningur barnaþingsins var einstakt lærdómsferli fyrir embætti umboðsmanns barna og erum við sérstaklega stolt af því hvernig til tókst. Farin var sú leið að velja börn með slembivali úr Þjóðskrá og sóttu þingið 139 börn. Barnaþingið hófst á skemmtilegri hátíðardagskrá með barnaþingmönnum, forseta Íslands, ráðherrum og forseta Alþingis að viðstaddri Vigdísi Finnbogadóttur, verndara barnaþingsins. Morguninn eftir hófst þingið sem fór fram með þjóðfundarformi en barnaþingmenn tóku ákvörðun í sameiningu um þau málefni sem taka átti fyrir.  Reynslan af þinginu færir okkur heim sanninn um það hve mikilvægt er að fá fjölbreyttan hóp barna til lýðræðislegrar þátttöku. Fjölbreytileikinn er ekki sjálfgefinn og fæst ekki nema tryggt sé að tilteknir hópar barna fái að taka þátt á sömu forsendum og aðrir. Í því skyni átti embættið meðal annars samstarf við Þroskahjálp sem jafnframt veitti fötluðum barnaþingmönnum sérstakan stuðning á þinginu sjálfu.

Embættið reiðir sig á margvíslegt samstarf við stofnanir, félagasamtök og einstaklinga. Á árinu leitaði embættið samstarfs víða og fékk marga til liðs við sig ekki síst á barnaþinginu, en þar var valinn maður í hverju rúmi. Mikilvægasti auður embættisins eru starfsmenn þess sem lyftu grettistaki í stefnumótun og áherslubreytingum á árinu og þau börn og ungmenni sem starfa með embættinu. Öll hafa þau helgað sig réttindum barna og því er tilhlökkun að mæta verkefnum hvers dags. Ég er þess fullviss að aukinn slagkraftur embættisins á síðustu misserum muni skipta miklu máli fyrir börn í okkar samfélagi. 

UMBODSMADURBARNA_79

Salvör Nordal
Umboðsmaður barna


Stefnumótun

Í byrjun árs 2019 hófst vinna við mótun stefnu embættisins til ársins 2025 þar sem farið var ítarlega yfir verkefni embættisins og vinnulag í samstarfi við LC Ráðgjöf. Markmiðið var að styrkja sýn embættisins og efla frumkvæði þess í málefnum barna.

Stefna embættisins til ársins 2025

Stefna embættisins er í samræmi við breytingu á lögum um embættið sem samþykkt var á Alþingi í desember 2018. 

Hlutverk

Að efla þátttöku barna í samfélaginu og vinna í því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna þeirra á öllum sviðum.

Gildi

Virðing, samvinna og frumkvæði.

Áherslur í starfi

 • Barnasáttmálinn

  Fylgjast með þróun og túlkun Barna­sáttmálans og stuðla að því að hann sé virtur.
  Kynna Barna­sáttmálann sem víðast með fjölbreyttu kynningarefni. Gera úttektir á stöðu tiltekinna hópa barna og miðla niðurstöðum. Gera reglubundið mat á innleiðingu barnasáttmálans.
 • Þátttaka barna

  Efla lýðræðisþátttöku barna og beint samráð við þau um réttindi, þarfir og hagsmuni þeirra. 
  Efla ráðgjafarhóp umboðsmanns og stofna sérfræðihópa barna með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu.  Kynna og innleiða fjölbreyttar leiðir til samráðs við börn. Halda barnaþing annað hvert ár. 
 • Framsækni

  Markvisst samstarf hérlendis og erlendis með nýtingu rannsókna og gagnreyndra  aðferða og stuðla að því að hann sé virtur.
  Styrkja samstarfsnet um réttindi barna.  Kynna bestu aðferðir frá nágrannalöndum við innleiðingu Barnasáttmálans. Stuðla að stefnumótandi umræðu um málefni barna.

Framtíðarsýn

Réttindi barna njóta víðtækrar virðingar og eru sjálfsagður hluti af allri stefnumótun og ákvörðunum.

Fundur með hagaðilum

Þann 5. apríl var haldinn samráðsfundur með fulltrúum félagasamtaka, stofnana og annarra sem teljast til hagaðila embættisins. Á fundinum fengu viðstaddir kynningu á embættinu og fyrstu drögum að nýrri stefnu þess.Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica