Fjölbreytt samráð við börn

Embættið leggur áherslu á að efla lýðræðisþátttöku barna og beint samráð við þau um réttindi, þarfir og hagsmuni þeirra. 

Umboðsmaður barna starfækir ráðgjafarhóp og heldur utan um sérfræðihópa barna með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu. Þá leggur embættið einnig áherslu á að kynna fjölbreyttar leiðir til samráðs við börn auk þess sem barnaþing er haldið annað hvert ár.

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna

Embætti umboðsmanns barna leggur ríka áherslu á virkt samráð við ungmenni. Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna starfar nú á grundvelli 3. gr laga um umboðsmann barna en þar segir “Umboðsmaður barna skal í störfum sínum leitast við að hafa virkt samráð við börn og hafa hóp barna sér til ráðgjafar um þau málefni sem snúa að börnum í íslensku samfélagi”. Í hópnum eru börn á aldrinum 12 – 17 ára. Í kjölfar lögfestingar ráðgjafarhópsins var ákveðið að styrkja hópinn og var verkefnastjóri ráðinn til þess að halda utan um það starf.

Meðlimir ráðgjafarhóps

Tíu ára afmæli ráðgjafarhópsins

Í upphafi árs voru tíu ár liðin síðan ráðgjafarhópurinn var stofnaður og hélt hann uppá starfsafmælið í apríl að viðstaddri frú Vigdísi Finnbogadóttur sem ávarpaði hópinn. Á fundinum var rætt um áskoranir og tækifæri í starfi hópsins og mótuð framtíðarsýn með nýjum markmiðum og áherslum. Í kjölfarið vann hópurinn að gerð nýrrar handbókar sem endurspeglar framtíðarsýn hans.

  • Fólk í afmælisveislu ráðgjafarhóps
  • Frá afmæli ráðgjafarhóps

Dæmi um verkefni á árinu

Hér má sjá dæmi um verkefni sem ráðgjafarhópur umboðsmanns barna sinnti á árinu.

Fundur með félags- og barnamálaráðherra

Á fundinum var rætt um helstu áskoranir sem liggja fyrir í nýju ráðuneyti, þrjátíu ára afmæli Barnasáttmálans og hvernig best væri að fá fram tillögur og framlag barna og ungmenna í þeirri vinnu sem er framundan.

Sjá nánar

Fundur um svefn og klukkubreytingar

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna stóð fyrir fundi um svefnvenjur og klukkubreytingar í Menntaskólanum við Hamrahlíð í samvinnu við Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF).

Sjá nánar

Fræðsla um fundarstjórn

Fulltrúar úr ráðgjafarhópi héldu erindi fyrir nemendur í Flataskóla um réttindi barna og fundarstjórn. Var það hluti af undirbúningi fyrir lýðræðisþing sem haldið var í skólanum í tilefni af 30 ára afmæli Barnasáttmálans.

Sjá nánar

Þátttaka í ENYA

Ráðgjafarhópurinn tók þátt í ENYA (European Network of Young Advisors) þar sem fjallað var um réttindi barna í stafrænu umhverfi og bar yfirskriftina Let‘s talk young, let‘s talk about children‘s rights in the digital environment. Nánar er fjallað um verkefnið í kaflanum um alþjóðlegt samstarf.  

Erindi um réttindi barna í stafrænum heimi

Fulltrúar úr ráðgjafarhópnum héldu erindi um réttindi barna í stafrænum heimi á ráðstefnu Persónuverndar og Háskóla Íslands .

Barnaþing 2019

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna tók virkan þátt í barnaþingi og sinnti meðal annars hlutverki fréttamanna, skipuleggjenda og hátíðarstjóra á þinginu . Sjá nánar í kafla um barnaþing - bæta við hlekk vísa í skýrsluna. Nánari umfjöllun um barnaþing er í samnefndum kafla

Skjánotkun barna

Ráðgjafarhópurinn vann með embætti umboðsmanns barna og samstarfsfaðilum að viðmiðum um skjánotkun barna.

Skólaforðun

Ráðgjafarhópurinn tók viðtöl við ungmenni um skólaforðun og sýndi þau á málþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í maí. Nánar er fjallað um skólaforðun í kaflanum "Innleiðing Barnasáttmálans".

Vinnustofa Laura Lundy

Meðlimir úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna komu fram á vinnnustofu Laura Lundy um þátttöku barna og héldu erindi um samráð við börn í stjórnsýslunni. Nánar er fjallað um heimsókn Laura Lundy í kaflanum um alþjóðlegt samstarf .

Ný handbók

Starfsmaður ráðgjafarhópsins vann að gerð nýrrar handbókar ráðgjafarhópsins í samvinnu við meðlimi hópsins. Handbókin er aðgengileg á vefsíðu embættisins .

Skilaboð frá ráðgjafarhópi

Ráðgjafarhópurinn þakkar fyrir liðið ár og öll þau tækifæri sem honum gáfust á liðnu ári en bendir á að sýndarsamráð (e. tokenism) er því miður enn til í íslenskri stjórnsýslu. Skorar ráðgjafarhópurinn á íslensk stjórnvöld að uppræta slíkt í sínu starfi og auka enn frekar samráð við börn þannig að það sé börnum til heilla en ekki einungis fyrir myndasafnið.

Sérfræðihópar

Ein leið til að ná fram sjónarmiðum barna sem búa yfir sérþekkingu á ákveðnu sviði er að kalla saman hóp barna sem búa yfir sameiginlegri reynslu. Aðferðin felur í sér að leyfa börnum og ungmennum að tjá sig og koma sínum sjónarmiðum á framfæri án þess að nokkur fullorðinn hafi áhrif þar á eða komi að sínum skoðunum eða gildum. Börnin tala þá frá sinni eigin reynslu um málefni að eigin vali.

Sérfræðihópur fatlaðra barna

Vinna embættisins með sérfræðihópi fatlaðra barna hófst árið 2018 þegar félagsmálaráðherra veitti embættinu styrk á grundvelli framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks fyrir verkefnið sem fékk heitið „Raddir fatlaðra barna“. Leitað var samstarfs við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um framkvæmd verkefnisins og settur var á stofn sérfræðihópur fatlaðra barna og unglinga. Markmiðið var að skapa rými og tækifæri fyrir fötluð börn og unglinga, til að ræða málefni að eigin vali, og koma með ábendingar byggðar á eigin reynslu og skoðunum.

Niðurstöður hópsins og tillögur hans eru settar fram í skýrslu sem gefin var út í maímánuði. Í þeirri skýrslu koma fram ábendingar hópsins um það sem betur má fara í málefnum fatlaðra barna og unglinga. Ábendingarnar snúa meðal annars að aðgengi, ferðaþjónustu fatlaðra, upplýsingagjöf, tómstundastarfi, virðingu í samstarfi, einelti og ofbeldi.

Börn afhenda ráðherra skýrslu

Umboðsmaður barna þakkar félagsmálaráðuneytinu og Félagsvísindastofnun samstarfið. Einnig vill umboðsmaður þakka þátttakendum í sérfræðihópnum fyrir sitt ómetanlega framlag til verkefnisins.

Skýrslan "Sérfræðihópur fatlaðra barna - samantekt frá umræðum"

Samskipti við börn

Fyrirspurnir frá börnum njóta forgangs og kappkostar embættið að svara þeim börnum eins fljótt og unnt er og þeim er heitið fullum trúnaði. Starfsfólk embættisins er þó bundið tilkynningarskyldu barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

Flestar fyrirspurnir frá börnum berast með tölvupósti á netfangið ub@barn.is, eða í gegnum vefsíðuna, undir liðnum spurt og svarað . Þegar fyrirspurnir koma í gegnum vefsíðuna getur viðkomandi valið að fá svar í tölvupósti eða á heimasíðunni. Ekki er gerð krafa um að börn gefi upp nafn eða aðrar persónuupplýsingar. Þá eru dæmi um að börn komi á skrifstofu embættisins og óski eftir upplýsingum og aðstoð. Skrifstofan er vel merkt og staðsett miðsvæðis í Reykjavík.

Dæmi um fyrirspurnir frá börnum og ungmennum


Þátttaka barna í stefnumótun og ákvarðanatöku

Loftslagsverkföll barna og ungmenna

Loftlagsverkföll barna og ungmenna víða um heim voru mjög áberandi í opinberri umræðu á árinu. Umboðsmaður barna vakti athygli á yfirlýsingu barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um þátttöku barna í loftslagsmálum í október, en nefndin fer með eftirlit með framkvæmd Barnasáttmálans. Þar lýsti nefndin yfir stuðningi við börn sem vilja mótmæla loftslagsbreytingum og áréttaði að hvers kyns þvinganir eða hótanir, sem skerða rétt barna til þess að taka á móti eða miðla upplýsingum og hugmyndum, eru brot gegn sáttmálanum.

Barnaréttarnefndin tekur fram að þær milljónir barna og ungmenna sem hafa tekið þátt í mótmælagöngum gegn loftslagsbreytingum hafa veitt öðrum innblástur og nefndin fagnar virkri þátttöku barna, sem verjendur mannréttinda, í umræðu um málefni sem skiptir þau miklu máli. Er það mat nefndarinnar að börn eigi rétt á því að vera í miðpunkti umræðunnar um loftslagsmál, enda muni ákvarðanir sem teknar eru í dag hafa mest áhrif á þau.

Samkomulag við félags- og barnamálaráðherra

Salvör Nordal, umboðsmaður barna og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, skrifuðu undir yfirlýsingu þann 17. maí um aukið samstarf á árinu er varðar málefni barna. Með samkomulaginu tók embætti umboðsmanns barna að sér að móta tillögur um breytt verklag um þátttöku barna í stefnumótun og ákvarðanatöku. Tillögurnar koma fram í skýrslu sem skilað var til ráðuneytisins í desember 2019

Samkomulagið tók einnig mið að því að styrkja aðkomu félags- og barnamálaráðherra að barnaþingi sem umboðsmaður barna stóð fyrir á árinu. Með því veitti ráðherra embættinu styrk sem var meðal annars nýttur til að tryggja þátttöku barna sem þurfa stuðning við að sækja barnaþingið, til dæmis í tengslum við aðgengi, túlkaþjónustu eða annars konar sérfræðiþjónustu.


Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica