Alþjóðlegt samstarf

Samstarf við umboðsmenn barna í nágrannalöndunum er ríkur þáttur í starfi embættisins. 

Umboðsmaður barna sótti fjölmarga fundi erlendis, þar á meðal European Forum í Brussel og ráðstefnu í Búkarest um þátttöku barna í stefnumótun og ákvarðanatöku. 

Fundur umboðsmanna barna á Norðurlöndunum

Árlegur fundur umboðsmanna barna á Norðurlöndunum fór að þessu sinni fram á Íslandi dagana 21. – 23. maí. Þessir fundir hafa reynst mikilvægir í starfi embættanna en á þeim er fjallað um þau hagsmuna- og réttindamál barna sem eru efst á baugi í hverju landi og nýjustu verkefnin kynnt.

Þátttakendur á fundinum voru umboðsmenn barna á Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Færeyjum og Álandseyjum sem og starfsmenn Barnaráðsins í Danmörku. Á fundinum var rætt um forvarnir vegna afbrota unglinga, dæmi um mismunandi lausnir frá Norðurlöndunum og mat á áhrifum á réttindum barna. Þátttakendur fengu einnig kynningu frá Rannsóknum og greiningu, áttu samtal við Ásmund Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og heimsóttu Barnahús.

Umbodsmenn-barna-a-nordurlondunum_1598027874616

Laura Lundy, gestur umboðsmanns

Í tengslum við vinnu við mótun aðgerðaáætlunar um aukna þátttöku barna í stefnumótun bauð umboðsmaður barna Laura Lundy, prófessor við Queen‘s háskóla í Belfast, í heimsókn í nóvember. Laura er einn helsti sérfræðingur samtímans í þátttöku barna í stefnumótun og ákvarðanatöku og það var mikill heiður að fá hana hingað til lands. Á meðan á heimsókninni stóð hélt Lundy meðal annars erindi á morgunverðarfundi hópsins Náum áttum þar sem fjallað var um áhrif barna á eigin réttindi og samfélag. Á þeim fundi ræddu þær Ída Karólína Harris og Ragnheiður Vala Höskuldsdóttir um leiðir ungmenna til þess að hafa áhrif á samfélagið.

Þá hélt umboðsmaður barna ásamt félagsmálaráðuneytinu og stýrihópum Stjórnarráðsins  vel heppnaða vinnustofu um þátttöku barna. Auk Dr. Laura Lundy fjallaði Dr. Carmel Corrigan, sérfræðingur hjá umboðsmanni barna á Írlandi um reynslu íra af aðgerðaáætlun um aukið samráð við börn. Vinnustofuna sátu m.a. fulltrúar ráðuneyta, stofnana, félagasamtaka og ungmennaráða.

  • Laura-Lundy
  • Vinnustofa

Laura Lundy hélt einnig málstofu á Menntavísindasviði Háskóla Íslands um þátttöku barna í skólastarfi og vísindarannsóknum en hún hefur birt fræðigreinar þar sem fjallað er um mikilvægi þess að gera börnum kleift að vera ekki aðeins viðfang rannsókna heldur virkir þátttakendur. 

Fundur samtaka evrópskra umboðsmanna barna (ENOC)

Árlegur fundur samtaka evrópskra umboðsmanna barna fór fram í Belfast dagana 25. – 27. september. Efni fundarins var réttur barna í stafrænu umhverfi og tók Ísak Hugi Einarsson, fulltrúi ráðgjafarhóps umboðsmanns barna þátt ásamt umboðsmanni barna og Guðríði Bolladóttur, lögfræðingi embættisins. Fundurinn var afar skemmtilegur og gagnlegur, ekki síst vegna þátttöku ungmenna sem voru með kraftmikil skilaboð til fullorðna fólksins.

Enoc-stjorn02

Fundinum lauk með ársfundi samtakanna þar sem meðal annars var kosið í stjórn ENOC og hlaut Salvör Nordal þar kosningu sem stjórnarmeðlimur.

ENYA (European Network of Young Advisors)

Umboðsmaður barna tók í fyrsta sinn þátt í árlegu ungmennaverkefni evrópskra samtaka umboðsmanna barna (ENOC). Verkefni ársins fjallaði um réttindi barna í stafrænu umhverfi og bar yfirskriftina Let‘s talk young, let‘s talk about children‘s rights in the digital environment.

Markmið verkefnisins er að gefa ungmennum tækifæri til að láta í ljós skoðanir sínar um eigin réttindi í tengslum við stafræna tækni og umhverfi. Hér á landi voru tveir hópar stofnaðir, annar í Reykjavík og hinn á Akureyri. Alls tóku 18 börn á aldrinum 11-17 ára þátt.

Enya

Dagana 25. – 26. júní var haldinn ENYA fundur í Brussel þar sem tveir fulltrúar frá hverju landi, eða hátt í fjörutíu ungmenni, komu saman og unnu að endanlegum tillögum ENYA. Ísak Hugi Einarsson var fulltrúi Reykjavíkurhópsins og Illugi Dagur Haraldsson fulltrúi Akureyrarhópsins á fundinum en með í för voru umboðsmaður barna og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, starfsmaður ráðgjafarhópsins. Ísak Hugi og Illugi Dagur kynntu vinnu íslensku hópanna og myndböndin og fengu frábær viðbrögð. Niðurstöður barnanna á fundinum í Brussel voru fjölbreyttar en hafa þó ýmsa sameiginlega snertifleti. Mikið var rætt um notkun samfélagsmiðla, netöryggi, staðalmyndir og fræðslu. Í myndbandi sem gefið var út að fundi loknum má sjá íslensku þátttakendurna bregða fyrir. Myndband var gefið út að fundi loknum

Í september mánuði fór Salvör Nordal ásamt Ísaki Huga fulltrúa ráðgjafarhópsins til Belfast þar sem þau tóku þátt í fundi evrópskra umboðsmanna barna þar sem endanlegar tillögur ENYA um börn í stafrænu umhverfi voru kynntar.  


Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica