Innleiðing Barna­sáttmálans

Embættið fylgist með þróun og túlkun Barnasáttmálans og stuðlar að því að hann sé virtur.

Embættið leggur áherslu á að fylgjast með stöðu viðkvæmra hópa barna og miðla gögnum og upplýsingum um börn til aðila sem móta stefnu eða taka ákvarðanir í málefnum barna. 

Tölfræðiupplýsingar um börn

Haustið 2017 hófst samstarf umboðsmanns barna og Hagstofunnar um miðlun og birtingu hagtalna sem varpa ljósi á stöðu barna í íslensku samfélagi. Hagstofan hefur frá þeim tíma safnað fjölbreyttum tölfræðiupplýsingum um börn og birt á vefsíðu sinni.

Þar má meðal annars finna tölur um fjölda starfandi barna á íslenskum vinnumarkaði, upplýsingar um fjölda barna sem sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi, komur barna á heilsugæslustöðvar, auk ítarlegra upplýsinga um fjölda skráðra nemenda í grunnskóla og leikskóla. 

Samstarf umboðsmanns barna og Hagstofunnar um miðlun og birtingu tölfræðiupplýsinga um börn hófst árið 2017. 

Það er mikill fengur í birtingu þessara gagna enda leggja vandaðar tölulegar upplýsingar mikilvægan grunn að stefnumótun í málefnum barna en tilfinnanlega hefur skort á að slíkar upplýsingar séu aðgengilegar. Þá hefur barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna gagnrýnt það að gagnasöfnun hér á landi taki ekki til allra sviða Barnasáttmálans og að umgjörð um vinnslu og mat á slíkum gögnum sé ekki fullnægjandi.

Reglubundið mat á innleiðingu Barnasáttmálans – dæmi um ábendingar og álit

Reglubundið mat á innleiðingu Barnasáttmálans fer fram með margvíslegu móti eins og eftirfylgni með fyrirspurnum og ábendingum og umsögnum til Alþingis um frumvörp og þingsályktunartillögur. Þá hefur embættið frumkvæði að umræðu um ýmis mál sem varða hag barna í samfélaginu.

Langur biðtími hjá sýslumanni höfuðborgarsvæðisins

Umboðsmaður barna fékk á árinu fjölda ábendinga frá einstaklingum sem bíða úrskurðar sýslumanns og hafa lýst yfir áhyggjum vegna langs biðtíma. Langur biðtími getur valdið þeim börnum sem í hlut eiga mikilli vanlíðan og kvíða en einnig getur það orðið til þess að ágreiningur milli foreldra vex og málin verða þannig erfiðari úrlausnar þegar þau koma loks til meðferðar. Embættið sendi því áskorun til dómsmálaráðherra vegna óviðunandi biðtíma eftir afgreiðslu mála hjá fjölskyldusviði sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu um umgengni, forsjá og lögheimili barna. Umboðsmaður kom einnig ábendingum á framfæri beint við dómsmálaráðherra á fundum með honum. 

Lesa má bréfið í heild sinni á vefsíðu umboðsmanns barna.

Þjónusta talmeinafræðinga

Embætti umboðsmanns barna hafa borist ýmsar ábendingar um talþjálfun fyrir börn og fyrirkomulag þjónustu á þessu sviði. Embættið sendi bréf til heilbrigðisráðherra þar sem óskað var eftir upplýsingum um það hvort ráðuneytið telji að skipulag þjónustunnar tryggi börnum tímalega og nauðsynlegan aðgang að þjónustu talmeinafræðinga og hvort til standi að gera breytingar á fyrirkomulaginu og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Svar barst frá ráðuneytinu 6. júní en þar kom fram að ekki stæði til að endurskoða fyrirkomulagið en bent var á að gripið hafi verið til aðgerða til að sporna við skorti á talmeinafræðingum og ljóst væri að útskrifuðum talmeinafræðingum muni fjölga sem ætti að leiða til betri þjónustu og styttingu biðlista. 

Skjáviðmið

Embættið tók þátt í að móta viðmið um skjánotkun barna og ungmenna til stuðnings foreldrum við að stuðla að jákvæðri og uppbyggilegri umgengni við tækni, tölvur og snjalltæki, en viðmiðin taka mið af þörfum mismunandi aldurshópa barna. Í hópnum voru fulltrúar frá Embætti landlæknis, umboðsmanni barna, Barnaheillum, Heilsugæslunni, Heimili og skóla og SAFT. 

fólk í samræðum

Börn sem sækja um alþjóðlega vernd

Embættið fylgist vel með stöðu barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi með reglulegu samtali og ábendingum til stjórnvalda.

Í júlí óskaði umboðsmaður barna eftir fundi með dómsmálaráðherra og forstjóra Útlendingastofnunar til að ræða fyrirkomulag þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra hér á landi á meðan umsókn er til meðferðar, meðferð umsókna og málsmeðferðartíma og hvort dómsmálaráðuneytið og Útlendingastofnun telji þörf á að taka til skoðunar meðferð þessara mála með hliðsjón af Barnasáttmálanum og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði mannréttinda. Umboðsmaður barna átti fund með báðum þessum aðilum þann 15. júlí þar sem þessi málefni voru rædd. 

Bréfið í heild sinni.

Á árinu óskaði kærunefnd útlendingamála eftir liðsinni umboðsmanns barna vegna nýrra verklagsreglna nefndarinnar um mat á hagsmunum barna. Embættið varð við þeirri ósk og átti nokkra fundi með starfsmönnum nefndarinnar.

Rafrettur

Nokkur umræða átti sér stað á árinu um skaðsemi rafrettna en umboðsmaður barna leggur áherslu á að gripið sé til ráðstafana til að koma í veg fyrir mögulegt heilsutjón barna af völdum rafretta. Í umsögn um frumvarp til laga um tóbaksvarnir sem varð að lögum vorið 2019 benti umboðsmaður á að ekki lægju fyrir upplýsingar um áhrif notkunar rafrettna til lengri tíma hvorki fyrir notandann né aðra. Því væri mikilvægt að vernda börn fyrir hugsanlegum skaðlegum afleiðingum slíkrar notkunar með því að láta sömu takmarkanir sem ná yfir tóbaksreykingar ná yfir notkun rafrettna. Þá taldi umboðsmaður enn fremur mikilvægt að efla forvarnir til að koma í veg fyrir notkun rafrettna meðal barna og ungmenna. 

Nánari umfjöllun má finna ávefsíðu umboðsmanns.

Fræðsluskylda og skólaforðun

Að mati umboðsmanns er þörf á samræmdum viðmiðum um skráningu á skólasókn nemenda í grunnskólum til þess að fá nauðsynlegar upplýsingar um eðli og umfang skólaforðunar. Einnig þarf að efla stuðningsþjónustu innan skóla, tryggja þarf börnum í þessari stöðu nauðsynlega félags- og heilbrigðisþjónustu, og efla þarf stuðning við foreldra og heimili þeirra barna sem sækja ekki skóla vegna vanlíðunar eða heimilisaðstæðna.

Fræðsluskylda og brottvísun nemenda úr skólum

Samkvæmt lögum um framhaldsskóla eiga allir nemendur rétt á því að stunda nám við framhaldsskóla til 18 ára aldurs, en um er að ræða svokallaða fræðsluskyldu. Þrátt fyrir það berast umboðsmanni barna reglulega upplýsingar um að börnum undir 18 ára aldri sé vísað úr framhaldsskóla vegna brota á skólareglum um mætingu eða óviðunandi námsárangurs.

Á árinu átti umboðsmaður barna í samskiptum við annars vegar Menntamálastofnun og hins vegar mennta- og menningarmálaráðuneyti um inntak fræðsluskyldunnar og skyldur framhaldsskóla gagnvart nemendum í vanda. Óskaði umboðsmaður barna sérstaklega eftir skýringum ráðuneytisins á því hvernig heimild skólameistara framhaldsskóla til að víkja nemendum úr skóla sem standast ekki kröfur um námsárangur eða skilyrði um mætingu, uppfylli ákvæði 28. gr. Barnasáttmálans og aðalnámskrá framhaldsskóla. Umboðsmaður barna sendi bréf vegna þessa til menntamálaráðuneytisins í lok árs 2018 og barst svar frá ráðuneytinu þann 28. júní 2019. Í svarbréfi ráðuneytisins kom fram að tilefni sé til að kanna hvort yfirvöld megi gera betur til að þeim nemendum sem standast ekki námsframvindu- eða skólasóknarkröfur séu tryggð viðeigandi úrræði svo fræðsluskyldu gagnvart þeim sé sinnt. Umboðsmaður barna mun fylgja þessu málefni eftir og benda á þörfina fyrir nauðsynlegar úrbætur.

Tillögur um viðbrögð við skólaforðun

Embættið sendi mennta- og menningarmálaráðherra tillögur að viðbrögðum við skólaforðun. Þær miða fyrst og fremst að því að réttur barna til menntunar sé uppfylltur samkvæmt ákvæðum Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013 sem og lög um grunnskóla nr. 91/2008 en Barnasáttmálinn leggur þá skyldu á stjórnvöld að grípa til ráðstafana til að stuðla að reglulegri skólasókn og draga úr því að nemendur hverfi frá námi.

Tillögur umboðsmanns barna um aðgerðir til að bregðast við skólaforðun

Kortlagning

Mikilvægt er að rætt verði við börn og ungmenni sem hafa glímt við skólaforðun til að fá reynslu þeirra og sjónarmið fram en 12. gr. Barnasáttmálans kveður á um rétt barna til þátttöku í öllum málum sem varða þau.

Samræmd fjarvistaskráning

Samræming fjarvistarskráninga er lykilatriði í að fylgjast með þróun skólaforðunar. Að mati umboðsmanns barna þurfa fyrirmæli um slíka skráningu og útfærslu á henni að koma frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem er stefnumótandi aðili í málaflokknum. 

Stuðningur við börn 

Setja þarf fram og hrinda í framkvæmd aðgerðum sem stuðla að því að börn fái stuðning við hæfi eins og grunnskólalög kveða á um sem og reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla nr. 585/2010. Vísbendingar eru um að ástæðu skólaforðunar hjá mörgum börnum megi rekja til skorts á viðunandi stuðningi í skólum. 

Samræming verkferla

Umboðsmaður barna leggur til að krafa sé gerð til grunnskóla um setningu verkferla um viðbrögð við skólaforðun. 

Raddir barna

Mikilvægt er að rætt verði við börn og ungmenni sem hafa glímt við skólaforðun til að fá reynslu þeirra og sjónarmið fram en 12. gr. Barnasáttmálans kveður á um rétt barna til þátttöku í öllum málum sem varða þau.

Könnun um skólaforðun

Velferðarvaktin óskaði liðsinnis og ráðgjafar umboðsmanns barna vegna undirbúnings könnunar um skólasókn og skólaforðun í grunnskólum landsins. Könnunin var framkvæmd í þeim tilgangi að afla upplýsinga frá skólastjórnendum sem nýst geta við stefnumótun í málefnum barna og er aðgengileg á vefsvæði Velferðarvaktarinnar. Umboðsmaður barna telur niðurstöður könnunarinnar vera mikilvægt innlegg í umræðuna um stöðu barna í íslensku samfélagi enda hefur skort upplýsingar um umfang þessa vanda.

Umsagnir og álit

Á vefsíðu umboðsmanns barna birtast umsagnir og álit sem embættið sendir frá sér til Alþingis og opinberra aðila.


Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica