Embættið
Vinnur að bættum hag barna og stendur vörð um hagsmuni þeirra, þarfir og réttindi.
Hlutverk umboðsmanns barna er skilgreint í lögum nr. 83/1994 en honum er ætlað að vinna að bættum hag barna og standa vörð um hagsmuni þeirra, þarfir og réttindi í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem í daglegu tali er nefndur Barnasáttmálinn. Skal umboðsmaður einkum eiga frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni barna, fylgjast með þróun og túlkun Barnasáttmálans og stuðla að því að hann sé virtur, sem og aðrir alþjóðasamningar sem varða réttindi og velferð barna. Umboðsmaður barna skal vinna að því að tekið sé fullt tillit til barna á öllum sviðum samfélagsins, jafnt hjá opinberum aðilum sem og einkaaðilum, og bregðast við ef brotið er á réttindum þeirra. Þá er umboðsmanni ætlað að koma með ábendingar og tillögur um það sem betur má fara í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem varða málefni barna. Einnig felst í hlutverki umboðsmanns að kynna fyrir almenningi löggjöf sem varðar börn sérstaklega.
Á vefsíðu embættisins má lesa nánar um hlutverk umboðsmanns.
Mannauður embættisins
Salvör Nordal, heimspekingur, er umboðsmaður barna, og hefur hún gegnt embætti frá 1. júlí 2017. Aðrir starfsmenn á árinu voru: Eðvald Einar Stefánsson, sérfræðingur, lögfræðingarnir Guðríður Bolladóttir og Stella Hallsdóttir (í fæðingarorlofi frá október) og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, verkefnastjóri í hlutastarfi.
Á árinu voru fjórir háskólanemar frá Háskóla Íslands í starfsnámi hjá umboðsmanni barna, einn stundaði nám í lögfræði og þrír í uppeldis- og menntunarfræði.
Starfshópar
Embættið fær reglulega beiðni um tilnefningar í hina ýmsu starfshópa. Starfsmenn embættisins voru skipaðir í eftirfarandi hópa.
- Rafrettur
Guðríður Bolladóttir, lögfræðingur var tilnefnd af umboðsmanni barna í starfshóp sem skipaður er af heilbrigðisráðherra til að meta hvort takmarka eigi heimildir til markaðssetningar bragðefna í rafrettum og gera tillögu um með hvaða hætti slíkt skuli gert. - Kynrænt sjálfræði
Guðríður Bolladóttir, lögfræðingur er fulltrúi embættisins í starfshópi sem forsætisráðherra skipaði og fjallar um málefni barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Hópurinn mun gera tillögur um úrbætur og jafnframt semja frumvarp til laga um breytingar á lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, sem feli í sér að bætt verði við lögin ákvæði sem fjallar um breytingar á kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. - Samræmd könnunarpróf
Eðvald Einar Stefánsson, sérfræðingur, sat fyrir hönd embættisins í starfshóp um samræmd könnunarpróf sem var falið að vinna tillögu að framtíðarstefnu um markmið, hlutverk, framkvæmd og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa. Skipað var í hópinn árið 2018 en nokkrir fundir voru haldnir í byrjun þessa árs og lauk hópurinn störfum sínum formlega á árinu. - Barnavernd
Guðríður Bolladóttir, lögfræðingur var tilnefnd af umboðsmanni barna í starfshóp tengdum breytingum á barnaverndarkerfi. - Velferðarvaktin
Eðvald Einar Stefánsson, sérfræðingur er fulltrúi embættisins í Velferðarvaktinni.
Fjárveitingar
Í kjölfar breytinga á lögum um umboðsmann barna í lok árs 2018 hækkuðu fjárveitingar til embættisins nokkuð og voru alls 78,8 milljónir á árinu 2019. Sjá nánar í töflu.
Ár | Framlag úr ríkissjóði |
---|---|
2015 | 44,2 m.kr. |
2016 | 47,9 m.kr. |
2017 | 51,7 m.kr. |
2018 | 53,3 m.kr. |
2019 | 78,8 m.kr. |
Tafla 1. Fjárveitingar til umboðsmanns barna
Embættið í fjölmiðlum
Vefsíða embættisins gegnir ríku hlutverki í að koma ábendingum og fyrirspurnum barna á framfæri, fréttum af starfi embættisins og stöðu barna í íslensku samfélagi.
Á árinu setti embættið upp vefsíðuna www.barnaþing.is þar sem hægt er að fá upplýsingar um allt sem viðkemur barnaþingi sem haldið er annað hvert ár.
Embættið er einnig virkt á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram.
Undanfarin ár hefur umboðsmaður barna notað þjónustu Fjölmiðlavaktarinnar til að vakta umfjöllun um embættið í útvarpi, sjónvarpi, blöðum og á netmiðlum. Þá fékk barnaþing sem haldið var í nóvember töluverða umfjöllun í fjölmiðlum.
Mynd: 2. Þróun fjölda frétta árið 2019 í samanburði við árið 2018.
2018 | 2019 | |
---|---|---|
Netmiðlar | 157 | 121 |
Prentmiðlar | 66 | 45 |
Sérvefir | 8 | 17 |
Sjónvarp/ útvarp | 31 | 24 |
Tafla 3. Þróun fjölda frétta 2019 í samanburði við árið 2018 eftir miðlum.
Nýtt merki umboðsmanns barna
Embættið tók í notkun nýtt merki sem byggir á hugmyndafræðilegum grunni fyrra merkis. Höfundur merkisins er sá sami og gerði upphaflega merkið, Þorvaldur Ó. Guðlaugsson, og sýnir nýja merkið eins og áður kríur á flugi. Kríur búa yfir aðdáunarverðum krafti og verjast hvers konar yfirgangi með öllum tiltækum ráðum. Aðrir fuglar keppast um að verpa í nágrenni við kríur enda verja þær varpsvæði sín og unga af mikilli harðfylgni.
Mynd 3. Höfundur merkisins er sá sami og gerði upphaflega merkið, Þorvaldur Ó. Guðlaugsson, og nýja merkið sýnir eins og áður kríur á flugi.
Útgefið efni
Embættið gefur reglulega út skýrslur og annað efni sem tengist Barnasáttmálanum og stöðu barna í íslensku samfélagi. Þá gefur embættið út rafræn fréttabréf og umboðsmaður barna skrifar reglulega greinar í blöð um þau málefni barna sem eru efst á baugi hverju sinni.
Skýrslur
Þessar skýrslur voru gefnar út á árinu.
- Sérfræðihópur fatlaðra barna – samantekt úr niðurstöðum
- Skýrsla umboðsmann barna: lögð fram á barnaþingi 2019
- Þátttaka barna í stefnumótun og ákvörðunum
Greinar í dagblöðum
Hér má sjá yfirlit yfir blaðagreinar umboðsmanns barna á árinu.
- Barnasáttmálinn 30 ára á þessu ári.
- Birting dóma þegar þolendur eru börn.
- Barnaþing haldið í ár.
- Skjátími er ekki bara skjátími.
- Skólaforðun alvarlegt vandamál.
- Samráð við börn við stefnumótun og ákvarðanatöku.
- Lýðræðisþátttaka barna er valdeflandi.
- Barnaþingið mun valda straumhvörfum.
Fréttabréf
Umboðsmaður gaf út þrjú rafræn fréttabréf á árinu.
Stefnumótandi umræða
Umboðsmaður barna skipuleggur reglulega viðburði auk þess sem starfsfólk embættisins sækir fjölda málþinga og ráðstefna og á fundi við margvíslega aðila um málefni sem tengjast börnum og réttindum þeirra á ári hverju.
Á árinu átti umboðsmaður barna m.a. fundi með Persónuvernd, ráðherrum, umboðsmanni Alþingis, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, talsmönnum barna á Alþingi, starfshópi um framkvæmdaáætlun í barnavernd, Útlendingastofnun, UMFÍ, heimsótti Brúarskóla auk þess sem hann tók þátt á starfsdögum SAMFÉS.
Embættið er aðili að Náum áttum, samstarfshóp um fræðslu og forvarnir . Hópurinn heldur reglulega morgunverðarfundi á Grand hótel um ýmis málefni sem varða börn og forvarnir.
Málstofa um þátttöku barna á LÝSU
LÝSA – rokkhátíð lýðræðisins var haldin á Akureyri fyrstu helgina í september og hélt umboðsmaður barna þar málstofu í samstarfi við frístunda- og forvarnadeild Akureyrarbæjar. Þar var rætt um þátttöku barna í stefnumótun stjórnvalda, hvernig ríki og sveitarfélög haga samráði við börn og hvað mætti betur fara. Miklar umræður sköpuðust en samhljómur var í salnum um mikilvægi þess að finna lausnir og skapa betri farveg fyrir börn til að koma skoðunum sínum á framfæri.
Fundur um svefn og klukkubreytingar
Í lok febrúar stóð embættið og ráðgjafarhópur umboðsmanns barna í samvinnu við Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) fyrir fundi um svefnvenjur og klukkubreytingar í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Fundurinn var afar vel sóttur og stofan full af áhugasömu ungu fólki. Sérfræðingar héldu erindi um áhrif svefns á frammistöðu og líðan ungs fólks og í lokin fóru fram líflegar og góðar umræður sem fulltrúar úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna tóku þátt í ásamt sérfræðingunum og öðrum ungmennum.
Málþing um skólaforðun
Umboðsmaður barna ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Velferðarvaktinni stóð fyrir máþingi um efnið Skólasókn – skólaforðun: hvert er hlutverk foreldra, skóla og stjórnvalda? á Grand hótel þann 20. maí. Salvör Nordal, umboðsmaður barna var með erindi á því málþingi þar sem hún kom meðal annars inn á að gera þyrfti greinarmun á skólaleyfi, skólaforðun og stöðu barna sem eru utan skóla eða með skerta stundatöflu. Í þeim tilvikum þar sem börn eru utan skóla getur verið um að ræða alvarlegan hegðunarvanda eða aðrar ástæður sem leiða til þess að þeim hefur verið vísað úr skóla og fá ekki viðeigandi úrræði. Guðríður Bolladóttir, lögfræðingur embættisins, hélt líka erindi um reynslu nágrannalandanna á þessu sviði og hvaða lærdóm megi draga af henni.
Norræn ráðstefna
Sótt var um styrk til norrænu ráðherranefndarinnar til ráðstefnuhalds þar sem viðfangsefnið er bætt staða barna eftir skilnað. Ráðgert er að halda ráðstefnuna árið 2021 og verður hún ætluð fagaðilum sem með einum eða öðrum hætti koma að málefnum barna og fjölskyldna við og eftir skilnað.
Dæmi um ávörp, fyrirlestra og aðra þátttöku
-
Salvör Nordal, umboðsmaður barna var með ávarp við setningu ungmennaráðstefnunnar "Ungt fólk og lýðræði" sem ungmennaráð UMFÍ hélt.
-
Salvör Nordal hélt erindi á starfsdögum Samfés en um er að ræða árlegur viðburður þar sem starfsfólk félagsmiðstöðva kemur saman.
-
Salvör Nordal heimsótti Landsþing ungs fólks sem haldið var í Mosfellsbæ og var með ávarp . Á þinginu koma saman ungmenni af öllu landinu.
-
Guðríður Bolladóttir, lögfræðingur var borðstjóri á ráðstefnunni félagsmálaráðuneytisins "Breytingar í þágu barna" sem haldin var 2. október.
-
Guðríður Bolladóttir, lögfræðingur var málstofustjóri á ráðstefnu um geðrækt, forvarnir og snemmtæka íhlutun . Ráðstefnan bar heitið " Emotional wellbeing of children".
-
Salvör Nordal, umboðsmaður barna hélt erindi á ráðstefnunni „Ungt fólk á Suðurlandi horfir til framtíðar“.
-
Salvör Nordal, umboðsmaður barna flutti ávarp á málþinginu um stöðu barna sem misst hafa foreldri, „Hvað verður um mig?“
-
Salvör Nordal, umboðsmaður barna var fundarstjóri á ráðstefnu um aðstæður fatlaðra barna með innflytjendabakgrunn .
-
Salvör Nordal var viðstödd opnun Menningarhátíð barna og unglinga á Austurlandi BRAS en sú hátíð var eitt af fjölmörgum verkefnum sem hlaut styrk Barnamenningarsjóð 2019.
-
Ráðstefnan „Njóta börn nægrar persónuverndar í stafrænum heimi“. Þar var Salvör Nordal í pallborði auk þess sem tveir fulltrúar ráðgjafarhópsins þau Ísak Hugi Einarsson og Vigdís Sóley Vignisdóttir ráðgjafarhópsins voru með erindi .