Ársskýrsla 2021

Lesa meira

Til forsætisráðherra

Árið 2021 er um margt eftirminnilegt, ekki síst þar sem kórónuveirufaraldurinn setti svip sinn á íslenskt samfélag og þjóðlíf, en starf umboðsmanns barna var þar ekki undanskilið. Ekki aðeins setti hann mark sitt á innra starf embættisins með innleiðingu fjarvinnu og rafræns fundahalds, heldur snérust viðfangsefnin að miklu leyti um stöðu barna í íslensku samfélagi í heimsfaraldri og áður óþekktum aðstæðum með tilheyrandi áskorunum. 

Embætti umboðsmanns hefur á undanförnum árum lagt höfuðáherslu á áframhaldandi innleiðingu Barnasáttmálans, en það er og verður viðvarandi verkefni íslenskra stjórnvalda. Eitt mikilvægasta skrefið í þá átt er að innleiða formlega framkvæmd mats á áhrifum á börn, við mótun stefnu og ákvarðanatöku, á öllum stigum stjórnkerfisins. Brýnt er að innleiða framkvæmd mats á áhrifum á börn hið allra fyrsta, ekki síst með hliðsjón af fenginni reynslu síðustu ára, enda má leiða að því líkur að innleiðing verklags sem tryggir upplýsingagjöf til barna, þátttöku þeirra í ákvarðanatöku sem og mat á áhrifum á þau, hefði nýst til að fyrirbyggja ýmis neikvæð áhrif sem sóttvarnaaðgerðir hafa haft á börn. Einnig er brýnt að hafa í huga að mat á áhrifum á börnum felur í sér annað og meira en mat á hagsmunum þeirra, réttindum og þörfum hverju sinni, því leiði mat á áhrifum í ljós neikvæð áhrif á börn, ber stjórnvöldum skylda til þess að leita allra leiða til að fyrirbyggja slík áhrif og grípa til mótvægisaðgerða í þeim tilvikum þar sem það er ekki gerlegt. Þá ber íslensk ríkinu jafnframt að tryggja að allar ákvarðanir sem varða börn, séu teknar út frá því sem þeim er fyrir bestu, eins og Barnasáttmálinn gerir kröfu um. 

Á tímum faraldursins voru teknar ákvarðanir um afar íþyngjandi ráðstafanir sem vörðuðu börn með beinum hætti, og sýndu með óyggjandi hætti fram á mikilvægi þess, að mat á hagsmunum barna verði ávallt hluti af ákvarðanatöku og setningu laga. Af þessum sökum átti embættið fjölmarga fundi með heilbrigðisyfirvöldum á síðasta ári, þar sem á það var minnt, að í neyðarástandi er heilsu og velferð hætta barna hætta búin, og í slíkum aðstæðum verður að virða, vernda og tryggja réttindi barna. Það var því ánægjulegt að embætti sóttvarnalæknis leitaði á síðari hluta ársins meðal annars til ráðgjafarhóps umboðsmanns barna og óskaði eftir liðsinni hópsins við að rýna upplýsingaefni um veiruna og fyrirhugaðar bólusetningar, sem ætlað var börnum.

Erfitt er að gera sér grein fyrir öllum afleiðingum veirufaraldursins á börn enda líklegt að í mörgum tilvikum verði áhrifin langvarandi og komi ekki fram fyrr en síðar. Fáir þjóðfélagshópar hafa orðið fyrir viðlíka áhrifum, enda hefur skóla- og frístundastarf sem og félagslíf barna verið úr skorðum, í nærri tvö ár. Í frásögnum sem embættið safnaði frá börnum á árinu, og sem finna má á heimasíðu embættisins, kom fram að mörg þeirra fundu fyrir vanlíðan, streitu, kvíða, þunglyndi og einmanaleika þegar leið á kórónufaraldurinn. Þá höfðu þau ólíkar skoðanir á kostum og göllum fjarnáms, og þótti mörgum erfitt að bera grímu í skólanum, svo dæmi séu nefnd. Af frásögnum barnanna má draga margvíslega lærdóma fyrir framtíðina og þar má lesa um reynslu þeirra og sjónarmið sem full ástæða er til að gefa gaum.

Sagt er að það dafni og vaxi sem hlúð er að, og það á ekki síst við um börn. Rannsóknir hafa sýnt að það að hlúa vel á börnum, á mikilvægasta mótunarskeiði ævi þeirra, skiptir sköpum fyrir framtíðarhorfur þeirra og samfélagslegur ávinningur þess er ótvíræður. Tíðar breytingar og mikil óvissa marka hins vegar dýpri spor í líf barna en þeirra sem eldri eru, en síðustu misseri hafa einkennst af því. Af þessum sökum er nauðsynlegt að stjórnvöld fylgist vel með þróuninni á næstu árum og sinni þeirri skyldu, að afla vandaðra tölfræðilegra gagna um stöðu og líðan barna í samfélagi okkar, ekki síst þau börn sem þegar fyrir faraldurinn, voru í viðkvæmri félagslegri stöðu.

Umboðsmaður barna fagnar aukinni áherslu stjórnvalda á börn á síðustu misserum og ber þar helst að nefna samþykkt laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem og þingsályktunartillögu um stefnu um barnvænt Ísland. Með þeim er lagður grunnur að verulegum breytingum, þar sem stjórnvöld heita snemmtækum stuðningi í þágu barna á þeirra forsendum, markvissri gagnaöflun um stöðu barna sem nýta á í stefnumótun í málefnum þeirra og þá fagnar umboðsmaður barna ekki síst nýrri áherslu á aukið samráð við fjölbreytta hópa barna um allt land um málefni sem varða þau.

Það er því von umboðsmanns barna, að áhrifa þessara breytinga gæti þegar á næsta ári, enda um löngu tímabær verkefni að ræða. Takist að innleiða umræddar breytingar eins og að er stefnt, verða afar mikilvæg skref stigin í átt að fullri innleiðingu Barnasáttmálans, sem eru til þess fallin að raunverulega bæta stöðu barna, sem á einhverjum tímapunkti munu þurfa á nauðsynlegri stuðningsþjónustu að halda. Umboðsmaður barna mun hér eftir sem hingað til, sinna hlutverki sínu sem opinber talsmaður barna, með því að fylgjast með innleiðingu og framkvæmd þessara laga, sem og öðrum ákvörðunum stjórnvalda sem varða börn, svo tryggt sé að öll börn hér á landi njóti þeirra réttinda sem Barnasáttmálinn veitir þeim. 

UMBODSMADURBARNA_79


Stefna embættisins til 2025

Stefna embættisins er í samræmi við breytingu á lögum um embættið sem samþykkt var á Alþingi í desember 2018.

 

Hlutverk

Að efla þátttöku barna í samfélaginu og vinna í því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna þeirra á öllum sviðum.

Gildi

Virðing, samvinna og frumkvæði.

Áherslur í starfi

  • Barna­sátt­málinn

    Fylgjast með þróun og túlkun Barna· sáttmálans og stuðla að því að hann sé virtur.
    Kynna Barna· sáttmálann sem víðast með fjölbreyttu kynningarefni.Gera úttektir á stöðu tiltekinna hópa barna og miðla niðurstöðum.Gera reglubundið mat á innleiðingu barnasáttmálans.
  • Þátttaka barna

    Efla lýðræðisþátttöku barna og beint samráð við þau um réttindi, þarfir og hagsmuni þeirra.
    Efla ráðgjafarhóp umboðsmanns og stofna sérfræðihópa barna með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu. Kynna og innleiða fjölbreyttar leiðir til samráðs við börn.Halda barnaþing annað hvert ár.
  • Framsækni

    Markvisst samstarf hérlendis og erlendis með nýtingu rannsókna og gagnreyndra aðferða og stuðla að því að hann sé virtur.
    Styrkja samstarfsnet um réttindi barna. Kynna bestu aðferðir frá nágrannalöndum við innleiðingu Barnasáttmálans. Stuðla að stefnumótandi umræðu um málefni barna.

Framtíðarsýn

Réttindi barna njóta víðtækrar virðingar og eru sjálfsagður hluti af allri stefnumótun og ákvörðunum.



Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica