Kórónuveiran

Frá því að Kórónuveirufaraldurinn hófst árið 2020 hefur umboðsmaður barna verið í miklum og reglulegum samskiptum við yfirvöld á sviði heilbrigðismála sem og aðra aðila sem taka ákvarðanir um aðgerðir til að hefta útbreiðslu veirunnar sem áhrif hafa á börn. 

Ljóst er að á tímum heimsfaraldurs hefur oft verið nauðsynlegt að taka ákvarðanir með skömmum fyrirvara og ekki hægt að fara að ítrustu kröfum um vandaðan undirbúning ákvarðana. Hins vegar hafa ákvarðanir verið teknar, um afar íþyngjandi ráðstafanir sem varða börn með beinum hætti, án þess að mat hafi verið lagt á áhrif þeirra á börn, sem felur í sér að ekki er unnt að grípa til mótvægisaðgerða, til þess að draga úr neikvæðum áhrifum á börn.

Mat á áhrifum sóttvarnaaðgerða á börn

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft áhrif á öll svið daglegs lífs barna í íslensku samfélagi, en þær aðstæður leiddu í ljós kerfisbundna veikleika í íslenskri stjórnsýslu, sem koma í veg fyrir að ákvæði Barnasáttmálans séu virt í framkvæmd og að réttindi barna nái fram að ganga.

Af því tilefni sendi embættið bréf til forsætisráðuneytisins en ítrekað hafa ákvarðanir sem varða börn verið teknar án þess að nokkuð samráð sé við þau eða þá aðila sem eiga að gæta hagsmuna þeirra.

Að mati umboðsmanns barna þurfa íslensk stjórnvöld að stíga næstu skref í innleiðingu Barnasáttmálans með því að innleiða ferla sem tryggja að sjónarmið barna rati inn í alla ákvarðanatöku sem þau varðar og að áhrif ákvarðana á börn liggi fyrir áður en þær koma til framkvæmda.

Forsætisráðuneytið sendi bréfið áfram til allra ráðuneyta og í kjölfarið var haldinn fundur með fulltrúum frá félagsmálaráðuneytinu, mennta og menningarmálaráðuneytinu, heilbrigðisráðuneytinu, embætti sóttvarnarlæknis og forsætisráðuneytinu þar sem innihald bréfsins var rætt frekar.

Mynd með færslu

Sýnatökur barna

Í lok árs sendi umboðsmaður barna bréf til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins varðandi framkvæmd PCR sýnatöku á börnum. Embættinu hafði borist fjölmargar ábendingar sem vörðuðu PCR-sýnatöku á börnum en þær snerust einna helst um langar biðraðir utandyra á köldum dögum, framkvæmd sýnatöku í óbarnvænu umhverfi þar sem ekki var tekið mið af þörfum barna ásamt því að starfsmenn sem tóku sýni úr börnum skorti þjálfun í að eiga í samskiptum við börn. Umboðsmaður barna áréttaði sérstaklega mikilvægi þess að börn upplifi sig örugg og að aðstæður fyrir sýnatökur barna séu eins barnvænar og kostur er. Í kjölfarið brást heilsugæslan á Höfuðborgarsvæðinu við ábendingunum og bætti aðkomuna og þjónustuna við börn.

Bólusetningar barna

Bólusetningar barna á aldrinum 12-15 ára gegn kórónuveirunni, hófust á haustmánuðum. Mörg börn leituðu til embættisins og voru m.a. að velta fyrir sér hver væri ávinningur og áhætta af bólusetningunum. Einnig voru börn að velta fyrir sér hvenær þau fengju sjálf að ákveða hvort þau þiggi bólusetningu eða ekki og hvað ætti að gera ef foreldrar og börn væru ósammála. Mikil fjölmiðlaumfjöllun var um málið og fór Salvör Nordal, umboðsmaður barna í fjölmörg viðtöl vegna fyrirhugaðra bólusetninga barna og lagði ríka áherslu á að foreldrar og börn ræddu saman um þessi atriði og að hlustað væri á vilja barnanna. Þá væri nauðsynlegt að gera aðgengilegt auðskilið upplýsingaefni fyrir börn og foreldra sem liður í því að gera þeim kleift að taka sameiginlega og upplýsta ákvörðun.

Frásagnir barna af heimsfaraldri

Það er mikilvægt að fá innsýn í reynsluheim barna og ungmenna á hverjum tíma og ekki síst þegar um áður óþekktar aðstæður er að ræða, eins og heimsfaraldur. Á árinu óskaði umboðsmaður barna eftir frásögnum barna og ungmenna með áherslu á framtíðarsýn þeirra eftir lok kórónuveirufaraldursins hvað varðar samfélagið, skólastarf, þátttöku í tómstundum og aðstæður þeirra heima fyrir og vöktu frásagnirnar nokkra athygli.

Var þetta í þriðja sinn sem óskað var eftir frásögnum barna um kórónuveiruna, en ekki voru gerðar sérstakar kröfur um form frásagna og voru börn hvött til þess að senda myndir, skriflegar frásagnir eða myndskeið, að eigin vali.

Meirihluti barna sem sendu frásagnir sínar taldi að skólinn myndi ekki taka miklum breytingum í kjölfar faraldursins og töldu flestir líklegt að skólinn myndi komast aftur í eðlilegt horf. Þá töldu börnin að samskipti yrðu almennt betri en áður og að fólk myndi aftur fara að heilsast með handabandi, faðma vini og ættingja og hittast eins og áður. Einnig töldu börnin að þátttaka í tómstundum yrði með svipuðu móti og áður og að samkomubönn og grímuskylda myndi heyra sögunni til. Nánar má lesa um niðurstöðurnar á vefsíðu umboðsmanns barna

1_1656859669806


Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica