Alþjóðlegt samstarf

Samstarf við umboðsmenn barna í nágrannalöndunum er ríkur þáttur í starfi embættisins. 

ENOC

Ársfundur samtaka evrópskra umboðsmanna barna (ENOC) fór fram 29. september í Aþenu í Grikklandi. Á fundinum var Salvör Nordal, umboðsmaður barna, kjörin formaður samtakanna og mun taka við formennskunni á næsta ársfundi sem fer fram í Reykjavík haustið 2022. Salvör hefur setið í stjórn samtakanna síðustu tvö ár og er fyrsti íslenski umboðsmaður barna til að eiga sæti í stjórn ENOC og fá kosningu sem formaður samtakanna.

Stjorn-ENOC

Í tengslum við ársfundi ENOC er jafnframt haldin ráðstefna um tiltekið svið réttinda barna en á fundinum í Aþenu var fjallað um áhrif kórónuveirunnar á börn. Á fundinum í Reykjavík á næsta ári verður umfjöllunarefnið loftlagsbreytingar út frá réttindum barna.

Í ENOC eiga flest embætti umboðsmanna barna í Evrópu aðild og eru samtökin afar mikilvægur vettvangur fyrir alþjóðlega samræðu og samstarf um réttindi barna. Á vegum þeirra starfar einnig ENYA, evrópskt samstarfsnet ráðgjafarhópa barna, og taka fulltrúar ENYA mikinn þátt í starfi samtakanna, ekki síst á hinum árlega fundi. Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna hefur á síðustu árum tekið virkan þátt í starfi ENYA sem er einstakur vettvangur til að eiga samtal við börn og ungmenni annars staðar í Evrópu og skiptast á sjónarmiðum og reynslu.

Enoc-hybrid

Árlegur fundur norrænna umboðsmanna barna

Norrænir umboðsmenn barna koma saman árlega og ræða um sameiginleg málefni sem tengjast réttindum barna á Norðurlöndunum. Að þessu sinni fór fundurinn fram rafrænt en embætti umboðsmanns barna í Finnlandi sá um skipulag fundarins. Rætt var um áhrif kórónuveirunnar á börn með sérstakri áherslu á jöfnuð.

Tapio-haaja-YwfXOmnfdqs-unsplash

ENYA Fundur

Fulltrúar úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna, sátu fund ENYA sem haldinn var í júlí. Fundurinn átti að fara fram á Möltu en færa þurfti hann á netið, annað árið í röð vegna kórónuveirunnar. Umræðuefni ungmennanna á fundinum var áhrif kórónuveirunnar á börn, en ráðgjafarhópur umboðsmanns barna vann að verkefninu mánuðina á undan og kaus svo fulltrúa til að sitja fundinn. Áherslur ráðgjafarhópsins voru heilbrigðis- og menntamál. Nefndu þau sérstaklega aukinn ójöfnuð meðal barna sem tilheyra minnihlutahópum eins og t.d. börn með fatlanir og börn sem eiga foreldra sem eru ekki íslenskumælandi og sem geta þ.a.l. veitt þeim takmarkaða aðstoð við heimanám. 

Enya-meeting2021


Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica