Embættið
Vinnur að bættum hag barna og stendur vörð um hagsmuni þeirra, þarfir og réttindi.
Hlutverk umboðsmanns barna er skilgreint í lögum nr. 83/1994 en honum er ætlað að vinna að bættum hag barna og standa vörð um hagsmuni þeirra, þarfir og réttindi þeirra í samræmi við ákvæði Barnasáttmálans. Skal umboðsmaður jafnframt eiga frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni barna, fylgjast með þróun og túlkun Barnasáttmálans og stuðla að því að hann sé virtur, sem og aðrir alþjóðasamningar sem varða réttindi og velferð barna. Umboðsmaður barna skal vinna að því að tekið sé fullt tillit til barna á öllum sviðum samfélagsins, jafnt hjá opinberum aðilum sem og einkaaðilum, og bregðast við ef brotið er á réttindum þeirra. Þá er umboðsmanni ætlað að koma með ábendingar og tillögur um það sem betur má fara í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem varða málefni barna. Einnig felst í hlutverki umboðsmanns að kynna fyrir almenningi löggjöf sem varðar börn sérstaklega.
Á vefsíðu embættisins má lesa nánar um hlutverk umboðsmanns.
Mannauður
Hjá embættinu starfa 5 manns í 4,5 stöðugildum. Salvör Nordal er umboðsmaður barna, og hefur hún gegnt embætti frá 1. júlí 2017. Aðrir starfsmenn á árinu voru: Eðvald Einar Stefánsson, sérfræðingur, Guðríður Bolladóttir, yfirlögfræðingur, Tinna Rós Steinsdóttir, sérfræðingur, Stella Hallsdóttir, lögfræðingur, Salvör Sæmundsdóttir, félagsráðgjafi og Sigurveig Þórhallsdóttir, lögfræðingur.
Starfshópar
Embættið fær reglulega beiðnir um tilnefningar í starfshópa á vegum hins opinbera. Starfsmenn embættisins voru í eftirfarandi starfshópum á árinu:
-
Framkvæmd og fyrirkomulag nýs matsferils
-
Eðvald Einar Stefánsson var fulltrúi embættisins í samráðshópi á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um framtíðarstefnu um samræmt námsmat.
-
Samþætting þjónustu í þágu farsældar barna
-
Guðríður Bolladóttir var fulltrúi embættisins í starfshópi á vegum félagsmálaráðuneytisins um innleiðingu samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna.
-
Úttekt á þátttöku barna
-
Stella Hallsdóttir var fulltrúi embættisins í óformlegum starfshóp á vegum félagsmálaráðuneytisins um úttekt á þátttöku barna undir formerkjum verkefnisins „CP4EUROPE - Strengthening National Child Participation Frameworks and Action in Europe.“
-
Skólahald vegna heimsfaraldurs kórónuveiru
-
Eðvald Einar Stefánsson var fulltrúi embættisins í samráðshópi á vegum mennta og menningarmálaráðuneytisins um skólahald vegna heimsfaraldurs kórónaveiru (COVID-19).
-
Barnvænt Ísland
-
Guðríður Bolladóttir var fulltrúi embættisins í nefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins sem falið var að semja stefnu og aðgerðaráætlun um Barnvænt Ísland.
-
Lagarammi rýndur til að bæta þjónustu við börn með neyslu- og fíknivanda
-
Guðríður Bolladóttir var fulltrúi embættisins í starfshópi á vegum heilbrigðisráðuneytisins til að bæta þjónustu við börn með neyslu- og fíknivanda. Guðríður var jafnframt formaður hópsins.
-
Kynrænt sjálfræði, börn sem fæðast með ódæmigerð einkenni
-
Guðríður Bolladóttir var fulltrúi embættisins í starfshópi á vegum forsætisráðuneytisins sem fjallar um málefni barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni.
-
Stýrihópur stjórnarráðsins um mælaborð um velferð barna
-
Salvör Nordal var fulltrúi embættisins í stýrihópi stjórnarráðsins á vegum félagsmálaráðuneytisins um mælaborð um málefni og velferð barna.
- Endurskoðun undanþágukafla aðalnámskrá grunnskóla
-
Sigurveig Þórhallsdóttir og Stella Hallsdóttir voru fulltrúar embættisins í starfshópi á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um endurskoðun undanþágukafla aðalnámskrá grunnskóla.
-
Samráð um innleiðingu menntastefnu Reykjavíkurborgar
-
Eðvald Einar Stefánsson var fulltrúi embættisins í framtíðarhópi á vegum Skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar vegna samráðs um næstu skref í innleiðingu menntastefnu Reykjavíkurborgar 2021-2024.
-
Velferðarvaktin
-
Eðvald Einar Stefánsson var fulltrúi embættisins í Velferðarvaktinni.
-
Verkefnastjórn heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna
-
Tinna Rós Steinsdóttir var áheyrnarfulltrúi embættisins í verkefnastjórnarhópi sem leiddur var af forsætisráðuneytinu í samstarfi við utanríkisráðuneytið.
Önnur verkefni
Guðríður Bolladóttir var persónuverndarfulltrúi embættisins.
Eðvald Einar Stefánsson var jafnréttistengiliður embættisins.
Eðvald Einar Stefánsson og Stella Hallsdóttir voru fulltrúar embættisins í innleiðingu á grænum skrefum hjá embættinu.
Embættið lauk tveimur grænum skrefum á árinu.
Samstarf við félagasamtök
Sigurveig Þórhallsdóttir og Stella Hallsdóttir voru fulltrúar embættisins í Náum áttum hópnum
Eðvald Einar Stefánsson var fulltrúi embættisins í Saman hópnum
Sigurveig Þórhallsdóttir og Stella Hallsdóttir voru fulltrúar embættisins í vinnuhópi vegna fræðsluefnis um Barnasáttmálann
Fjárveitingar
Eftir nokkra aukningu á fjárveitingum til embættisins í samræmi við breytingu á lögum hefur hún haldist nokkuð stöðugt á síðustu árum. Sjá nánar í töflu.
Ár | Framlag úr ríkissjóði |
2021 | 78,5 m.kr |
2020 | 77,8 m.kr. |
2019 | 78,8 m.kr. |
2018 | 53,3 m.kr. |
2017 | 51,7 m.kr. |
Tafla 1. Fjárveitingar til umboðsmanns barna
Embættið í fjölmiðlum
Vefsíða embættisins gegnir ríku hlutverki í að koma ábendingum og fyrirspurnum barna á framfæri sem og fréttum af starfi embættisins og stöðu barna í íslensku samfélagi. Embættið er einnig virkt á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram.
Undanfarin ár hefur umboðsmaður barna nýtt þjónustu Fjölmiðlavaktarinnar til að vakta umfjöllun um embættið í útvarpi, sjónvarpi, blöðum og á netmiðlum.
Mynd 1. Þróun fréta árið 2021 í samanburði við árið 2020.
Tafla 2. Þróun fjölda frétta 2021 í samanburði við árið 2020 eftir miðlum.
Skrifstofan
Nokkrar breytingar urðu á skrifstofu umboðsmanns barna á árinu sem hefur haft aðsetur í Kringlunni 1 frá árinu 2010. Um haustið gerði leki vart við sig sem olli töluverðum skemmdum á húsnæðinu sem varð til þess að embættið flutti skrifstofu sína tímabundið í Borgartún 7b á meðan leitað er að framtíðarhúsnæði þess. Á árinu fór fram innleiðing á tölvukerfi embættisins í skýjageira ríkisins og nýtt Teams símkerfi var tekið í notkun.
Þá flutti skrifstofa embættisins tímabundið á Ísafjörð vikuna 17.-21. maí en markmiðið var að hitta þá sem starfa að málefnum barna og eiga samtal við börn um allt land um málefni sem standa þeim næst.
Vefsíðan
Á vefsíðunni Barn.is geta börn og ungmenni sent fyrirspurnir með einföldum hætti og jafnframt nálgast svör við algengum spurningum.
Barn.is vinnur til verðlauna
Ný vefsíða embættisins fór í loftið árið 2020 og er henni ætlað að bæta aðgengi barna að embættinu með góðum upplýsingum og einföldum og aðgengilegum samskiptaleiðum. Vefurinn er unnin í samvinnu við Hugsmiðjuna sem sá um hönnun og forritun og var hann tilnefndur til verðlauna í tveimur flokkum á Íslensku vefverðlaununum. Annars vegar var um að ræða tilnefningu sem „opinber vefur ársins“ og hins vegar sem „samfélagsvefur ársins“. Vefurinn sigraði í flokknum „ Samfélagsvefur ársins“ en í umsögn dómnefndar segir:
Efnismikill vefur með góða og skýra flokka uppbyggingu þar sem misjafnir markhópar eiga auðvelt með að rata á réttan stað. Hönnunin er smekkleg sem skilar sér í stílhreinum vef en um leið vef sem er notendavænn og aðgengilegur.
Útgefið efni
Embættið gefur reglulega út skýrslur og annað efni sem tengist Barnasáttmálanum og stöðu barna í íslensku samfélagi. Þá gefur embættið reglulega út rafræn fréttabréf og umboðsmaður barna skrifar reglulega greinar í blöð um þau málefni barna sem eru efst á baugi hverju sinni.
Skýrslur
Eftirfarandi skýrslur voru gefnar út á árinu.
- Frásagnir barna af heimsfaraldri II – Frásagnir barna af þriðju bylgju kórónuveiru
- Frásagnir barna af heimsfaraldri III - Framtíðarsýn
Innsendar greinar
Dagur mannréttinda barna – Morgunblaðið 20.11.2021
Grein í tilefni dags mannréttinda barna þar sem farið var yfir hvað hefur áunnist í málefnum barna frá því að Barnasáttmálinn var samþykktur og mikilvægi þess að leita eftir sjónarmiðum barna í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans.
Áskorun til nýrrar ríkisstjórnar – Fréttablaðið 15.10.2021
Grein um alvarlega stöðu í geðheilbrigðismálum barna þar sem hún beindi því til nýrrar ríkisstjórnar að gera þeim málum hátt undir höfði í nýjum stjórnarsáttmála.
Umboðsmaður barna með starfstöð á Ísafirði – Fréttablaðið 20.05.2021
Grein þar sem fjallað var um markmið heimsóknar embættisins til Ísafjarðar og nágrannabyggða.
Börn fá boð á Barnaþing – Morgunblaðið 25.05.2021
Grein þar sem greint var frá fyrirhuguðu barnaþingi og mikilvægi þess að leita fjölbreyttra leiða til samráðs við börn.
Vanlíðan eykst og biðlistar lengjast – SÍBS blaðið 16.02.2021
Grein þar sem hún fjallaði um hrakandi andlega heilsu barna og unglinga og langa biðlista eftir sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu og nauðsyn þess að brugðist sé við vandanum.
Fréttabréf
Umboðsmaður gaf út 5 rafræn fréttabréf á árinu.
- Fréttabréf í mars
- Fréttabréf í júní
- Fréttabréf í september
- Fréttabréf í október
- Fréttabréf í desember
Stefnumótandi umræða
Umboðsmaður barna skipuleggur reglulega viðburði auk þess sem starfsfólk embættisins sækir fjölda málþinga og ráðstefna og á fundi við margvíslega aðila um málefni sem tengjast börnum og réttindum þeirra á ári hverju. Þá fer umboðsmaður barna reglulega í viðtöl við fjölmiðla til að vekja athygli á málefnum sem tengjast réttindum barna eða hafa áhrif á umræðu um börn og réttindi þeirra.
Kórónuveiru-faraldurinn setti nokkuð strik í reikninginn á árinu og fóru flestir fundir og viðburðir fram með rafrænum hætti. Í flestum tilvikum reyndist auðvelt að færa fundi á rafrænt form. Fundir urðu styttri og skilvirkari og áttu þátt í að einfalda samstarf og samskipti við hina ýmsu aðila sem koma að réttindum barna. Umboðsmaður barna náði þó að heimsækja nokkra grunnskóla og leikskóla á árinu þar sem rætt var um réttindi barna og starfsemi embættisins.
Dæmi um verkefni og viðtöl í stefnumótandi umræðu
Sérstök ábyrgð útsendingaraðila
Salvör Nordal fór í viðtal hjá Fréttablaðinu í febrúar þar sem fjallað var um ábyrgð útsendingaraðila þegar börn taka þátt í viðburðum í beinni útsendingu. Þar lagði hún áherslu á rétt barna til þátttöku í slíkum viðburðum en mikilvægt sé að þau séu vel undirbúin og í öruggu umhverfi þar sem mikið álag geti fylgt því að vera í beinni útsendingu. Sérstök ábyrgð væri á útsendingaraðilum að bregðast við ef eitthvað kæmi upp á þegar börn eru þátttakendur í beinni útsendingu.
Erindi á vorráðstefnu Greiningarstöðvarinnar
Salvör Nordal hélt erindi á vorráðstefnu Greiningarstöðvarinnar sem haldin var í apríl. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Börn með fatlanir – viðhorf og þekking“ og fjallaði Salvör í erindi sínu um niðurstöður sérfræðihóps fatlaðra barna sem birtar voru í skýrslu árið 2019. Þar kom m.a. fram að börn úr sérfræðihópnum hafi upplifað fordóma og skilningsleysi á sinni fötlun og aðstæðum. Niðurstöður sérfræðihópsins voru m.a. að þörf sé á aukinni fræðslu og að vinna verði bug á fordómum gegn fötluðu fólki sem og skaðlegum staðalímyndum.
Kerfisbundin skoðun á biðlistamálum barna
Salvör Nordal fór í viðtal hjá útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis í september þar sem hún ræddi um alvarlega stöðu barna sem hafa þurft að bíða lengi eftir mikilvægri þjónustu sem þau þurfa á að halda, t.d. á barna og unglingageðdeild, bið eftir greiningum og fleira. Benti hún á að hægt væri að koma í veg fyrir mörg alvarleg tilvik með því að grípa inn í fyrri stigum. Þá boðaði hún til kerfisbundinnar skoðunar embættisins á biðlistamálum barna.
Ráðstefnan „Slysavarnir 2021“
Salvör Nordal hélt erindi á ráðstefnunni „Slysavarnir barna“ sem haldin var á vegum Landsbjargar í október. Í erindinu fjallaði Salvör um mikilvægi þess að skráningar á slysum á börnum séu vandaðar og vakti athygli á því að engin miðlæg skráning um slys á börnum væri hér á landi og kallaði eftir úrbótum þannig að slíkar upplýsingar megi nýta betur í forvarnaskyni.
Evrópsk ráðstefna um þátttöku barna
Salvör Nordal og fulltrúi frá ráðgjafarhópi umboðsmanns barna, tóku þátt í rafrænni ráðstefnu á vegum Evrópuráðsins um þátttöku barna í október. Á ráðstefnunni tóku börn og fullorðnir jafnan þátt í dagskránni þar sem meðal annars var rætt um þær áskoranir sem felast í þátttöku barna og nauðsyn þess að börn taki virkan þátt í samfélaginu og hafi áhrif á það.
Skóli án aðgreiningar
Salvör Nordal fór í viðtal hjá Fréttablaðinu í nóvember þar sem fjallað var um skóla án aðgreiningar og hvernig sú hugmyndafræði hafi í raun aldrei orðið að raunveruleika. Þar kallaði Salvör eftir því að fleiri og fjölbreyttari úrræði stæðu til boða fyrir börn og foreldra innan skólakerfisins og áréttaði mikilvægi þess að mennta og menningarmálaráðuneytið og samband íslenskra sveitarfélaga taki skólaforðun sérstaklega til skoðunar.