Fjölbreytt samráð við börn
Embættið leggur áherslu á að efla lýðræðisþátttöku barna og beint samráð við þau um mál sem varða hagsmuni þeirra á öllum sviðum.
Umboðsmaður barna starfrækir ráðgjafarhóp með börnum og heldur utan um starf Ungmennaráðs heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Þá leggur embættið ríka áherslu á að kynna fjölbreyttar leiðir til samráðs við börn, en mikilvægur liður í því er barnaþing sem haldið er annað hvert ár.
Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna
Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna starfar á grundvelli 3. gr. laga um umboðsmann barna, en þar segir:
Umboðsmaður barna skal í störfum sínum leitast við að hafa virkt samráð við börn og hafa hóp barna sér til ráðgjafar um þau málefni sem snúa að börnum í íslensku samfélagi.
Um fimmtán börn á aldrinum 12 – 17 ára tóku virkan þátt í starfi ráðgjafarhópsins á árinu. Fundir fyrri hluta ársins fóru að mestu leyti fram á netinu vegna samkomutakmarkana.
Ráðgjafarhópurinn í júní 2021
Verkefni hópsins voru fjölbreytt en hér fyrir neðan má sjá nokkur dæmi um verkefni sem ráðgjafarhópurinn tók þátt í á árinu.
Yfirlýsing um vernd barna í fjölmiðlum
Í febrúar sendi ráðgjafarhópurinn frá sér yfirlýsingu um mikilvægi þess að tryggja börnum vernd gegn opinberri niðurlægingu í kjölfar upptöku af atviki sem átti sér stað í útsendingu Ríkissjónvarpsins. Mikil umræða skapaðist sökum þess að útsending var ekki rofin strax og áréttaði ráðgjafarhópurinn mikilvægi þess að skýrt regluverk verði sett um þátttöku barna í fjölmiðlum sem taki sérstakt mið af rétti barna til friðhelgi einkalífs.
Kosningafundur barna
Í september hélt ráðgjafarhópurinn vel heppnaðan kosningafund barna í Hörpu, en um var að ræða samstarfsverkefni umboðsmanns barna og KrakkaRÚV. Fulltrúar frá níu framboðslistum mættu á fundinn og svöruðu þar spurningum ráðgjafarhópsins. Fundurinn var tekinn upp og er aðgengilegur á vefsíðu embættisins.
Fundur fólksins
Í september tóku nokkur ungmenni úr ráðgjafarhópnum þátt í Fundi fólksins sem fór fram í Norræna húsinu. Þar ræddu ungmennin um skólastarf á tímum kórónuveirunnar og rafræna kennslu og þá mismunun sem felst í aðstöðumun barna sem hafa ekki öll aðgang að tölvu og síma á heimilum sínum. Einnig fjallaði ráðgjafarhópurinn um stöðu barna í kjölfar faraldursins sem mörg hver hafa þróað með sér félagskvíða.
Samráð um framsetningu á upplýsingaefni til barna og ungmenna
Í lok árs leitaði landlæknir til ráðgjafarhópsins vegna vinnu við framsetningu á upplýsingaefni til barna og ungmenna um fyrirhugaðar bólusetningar gegn kórónuveirunni. Ráðgjafarhópurinn rýndi í textana og lagði til ýmsar breytingar í því skyni að gera efnið aðgengilegra, skýrara og frekar við hæfi barna. Einnig kom ráðgjafarhópurinn á framfæri tillögum um hvaða leiðir ætti að nýta til að koma efninu á framfæri við börn.
Ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna
Umboðsmaður barna heldur utan um starf Ungmennaráðs heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna samkvæmt samningi við forsætisráðuneytið.
Meginmarkmið Ungmennaráðsins er að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, meðal ungmenna og í samfélaginu. Ráðinu er ætlað að vera lifandi vettvangur þar sem heimsmarkmiðin og Barnasáttmálinn eru höfð að leiðarljósi og rædd með gagnrýnum og lausnamiðuðum hætti. Ungmennaráðið samanstendur af tólf fulltrúum, víðs vegar að á landinu, á aldursbilinu 13-18 ára. Ungmennaráðið á fulltrúa og varamann í Barnamenningarsjóði Íslands.
Skipað var í ungmennaráð heimsmarkmiðanna sumarið 2020 til eins árs, eða til loka maí mánaðar 2021 en skipunartíminn var framlengdur til áramóta 2021-2022
Þrátt fyrir aðstæður gekk vinna ráðsins vel og reglulegir fjarfundir voru haldnir. Þá hittist ráðið þrisvar sinnum í raunheimum um sumartímann. Ungmennaráðið átti fundi með fjölmörgum aðilum á árinu eins og umboðsmanni barna, sérfræðingum hjá utanríkisráðuneytinu, forsætisráðuneytinu og stýrihópi stjórnarráðsins um mannréttindi.
Verkefni hópsins voru fjölbreytt en hér fyrir neðan má sjá nokkur dæmi um verkefni sem ungmennaráðið tók þátt í á árinu.
Fundur með ríkisstjórninni
Í ágúst fundaði ungmennaráð heimsmarkmiðanna með ríkisstjórninni þar sem ráðið kynnti tillögur sínar að úrbótum á fjölmörgum sviðum.
Meðal þeirra atriða sem rædd voru á fundinum voru menntamál, heilbrigðismál, umhverfismál, lýðræði og samfélagsmál. Frekar: Meðal þeirra málefna sem rædd voru á fundinum voru umhverfismál, lýðræði, heilbrigði og önnur samfélagsleg málefni.
Fundur fólksins
Í september tóku nokkur ungmenni úr ungmennaráði heimsmarkmiðanna þátt í Fundi fólksins sem fór fram í Norræna húsinu. Þar ræddu þau sérstaklega um matarsóun og neysluhyggju út frá heimsmarkmiði númer tólf sem fjallar um ábyrga neyslu og framleiðslu.
Netráðstefna heimsskrifstofu UNICEF
Í desember tók fulltrúi úr ungmennaráði heimsmarkmiðanna þátt í netráðstefnu á vegum heimsskrifstofu UNICEF: Global Forum for Children and Youth. Þar ræddi hann um erfiðleika barna vegna kórónuveirunnar og mikilvægi þess að ungmenni fái að taka þátt í ákvarðanatöku sem varðar þau líkt og Barnasáttmálinn kveður á um.
Barnaþing
Á árinu stóð til að barnaþing yrði haldið í annað sinn í Hörpu dagana 18. og 19. nóvember. Um 150 börn höfðu skráð sig til þátttöku en þau voru öll valin með slembivali úr Þjóðskrá til að fá sem fjölbreyttastan hóp til þátttöku líkt og gert var á fyrsta barnaþinginu árið 2019. Undirbúningur fyrir þingið hófst í byrjun árs en auk starfsfólks embættisins komu fjölmargir aðrir að þeim undirbúningi.
Kórónuveirufaraldurinn virtist vera í rénum um mitt árið og hélt undirbúningur því áfram. Stuttu fyrir barnaþing voru samkomutakmarkanir hertar enn á ný vegna aukinna smita meðal barna af kórónuveirunni og var því ákveðið að fresta barnaþingi til næsta árs. Um var að ræða þungbæra ákvörðun sem tekin var að vandlega skoðuðu máli með hagsmuni og öryggi barna að leiðarljósi.
Krakkakosningar
Í tengslum við Alþingiskosningar sem fram fóru í september, efndu umboðsmaður og KrakkaRÚV til Krakkakosninga meðal grunnskólanemenda. Þær voru nú haldnar í fimmta sinn og tóku yfir þrjú þúsund börn þátt að þessu sinni.
Vinstri Græn voru sigurvegarar Krakkakosninga með 17,6% og þar á eftir Sjálfstæðisflokkurinn með 13,7%, Viðreisn með 10,7 og Píratar með 9,5%. Næstu flokkar voru Framsókn með 9,4%, Flokkur fólksins og Samfylking bæði með 9,3%, Miðflokkurinn með 7,8% og Sósíalistaflokkurinn með 5,8%, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn með 4,8% og Ábyrg framtíð, sem bauð sig fram í Reykjarvíkurkjördæmi norður, með 2,1%.
Samskipti við börn
Mikil áhersla er lögð á að vera í góðum samskiptum við börn og njóta fyrirspurnir frá börnum ávallt forgangs hjá embættinu. Börnum er svarað eins fljótt og unnt er og er þeim heitið fullum trúnaði. Starfsfólk embættisins er þó bundið tilkynningarskyldu skv. barnaverndarlögum, nr. 80/2002.
Flestar fyrirspurnir frá börnum berast með tölvupósti á netfangið ub(hjá)barn.is , eða í gegnum heimasíðu umboðsmanns barna, undir liðnum spurt og svarað. Þegar fyrirspurnir koma í gegnum heimasíðuna getur viðkomandi valið að fá svar í tölvupósti eða á heimasíðunni. Ekki er gerð krafa um að börn gefi upp nafn eða aðrar persónuupplýsingar. Einnig geta börn haft samband við umboðsmann barna á samfélagsmiðlunum facebook og instagram eða í spjallboxi á heimasíðunni. Þá eru dæmi um að börn komi á skrifstofu embættisins og óski eftir upplýsingum og aðstoð. Skrifstofan er vel merkt og staðsett miðsvæðis í Reykjavík.
Fyrirspurnir
Dæmi um fyrirspurnir frá börnum og ungmennum
Hér fyrir neðan má sjá dæmi um spurningar sem borist hafa frá börnum í gegnum Spurt og svarað af vefsíðu embættisins. Ekki eru öll erindi frá börnum birt á síðunni heldur einungis þau sem leyfi hefur verið veitt fyrir að birta.
- Hæ foreldrar mínir leyfa mér bara að vera til 11 úti og allir mínir vinir fá að vera til 12 eða 1.
- Ráða foreldrar mínir hvort ég fari í menntaskóla?
- Ég er 14 ára að verða 15 í lok október sem þýðir að ég verð 16 ára næsta haust. Spurningin mín er hvort ég þurfi að borga fulla skatta með laununum sem ég fæ yfir sumarið 2018 (ennþá 15 ára) eða byrja ég að borga skatta eftir að ég verð 16?
- Mamma vill ekki leyfa mér að fá insta og ég er 14 ára. Allir í bekknum mínum eru með insta en ekki ég.
- Má pabbi taka allan fermingarpeninginn og setja inná bók án þess að ég samþykki?
- Eru lög um hvort maður sé jafn lengi hjá hverjum foreldra ef þau eru skilin?