Innleiðing Barnasáttmálans
Embættið fylgist með þróun og túlkun Barnasáttmálans og stuðlar að því að hann sé virtur.
Reglubundið mat á innleiðingu Barnasáttmálans
Reglubundið mat embættisins á stöðu innleiðingar Barnasáttmálans fer fram með ýmsum hætti eins og eftirfylgni með fyrirspurnum og ábendingum og umsögnum til Alþingis um frumvörp og þingsályktunartillögur auk veittra umsagna í samráðsgátt stjórnvalda. Embættið á iðulega frumkvæði að stefnumótandi umræðu um ýmis mál sem varða hag barna í samfélaginu. Þá hefur embættið lagt aukna áherslu á að gera upplýsingar um stöðu barna aðgengilegar sem hafa hingað til ekki verið birtar eða sem erfitt hefur verið að nálgast.
Dæmi um bréf sem umboðsmaður barna hefur sent á árinu
Ofbeldi gegn fötluðum börnum.
Í janúar sendi umboðsmaður barna ásamt Þroskahjálp og Tabú bréf til dómsmálaráðuneytisins og Dómstólasýslunnar þar sem bent var á nauðsyn þess að löggæsluaðilar, dómarar og aðrir sem koma að rannsóknum og meðferð mála sem varða ofbeldi gegn fötluðum börnum, búi yfir nauðsynlegri þekkingu á réttindum fatlaðra barna sem og eðli, tíðni og áhrifum ofbeldis gegn þeim. Í bréfinu var einnig fjallað um réttindi fatlaðra barna samkvæmt Barnasáttmálanum og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, ásamt mikilvægi þess að fá fram sjónarmið og reynslu fatlaðra barna. Að lokum var farið yfir alþjóðlegar meginreglur og leiðbeiningar um aðgengi fatlaðs fólks að réttarkerfinu og lýsti umboðsmaður barna sig reiðubúinn til frekara samstarfs um framangreind atriði.
Ekki hafa borist viðbrögð við bréfinu.
Talmeinaþjónusta
Í febrúar sendi umboðsmaður bréf til heilbrigðisráðuneytisins þar sem óskað var eftir upplýsingum um viðbrögð ráðuneytisins við löngum biðlistum barna sem þurfa á talmeinaþjónustu að halda. Fram kom í bréfinu að þrátt fyrir nokkra fjölgun útskrifaðra talmeinafræðinga væri biðtími eftir þjónustu enn töluverður og að dæmi væru um allt að 36 mánaða biða. Þá benti umboðsmaður barna á mikilvægi þess að biðlistum barna verði eytt og að þjónusta við þau verði tryggð þar sem töf á þessari mikilvægu þjónustu geti haft umfangsmikil áhrif á framtíð barna með tal- og málþroskaröskun.
Svar barst frá ráðuneytinu sem varð til þess að umboðsmaður sendi ráðuneytinu annað bréf. Þar óskaði umboðsmaður barna eftir upplýsingum um það hvernig heilbrigðisráðuneytið ætlaði að koma á samstarfi við sveitarfélögin og talmeinafræðinga um lausn á þeim bráða vanda sem uppi væri. Einnig óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um það til hvaða aðgerða ráðuneytið ætlaði að grípa í þeim tilgangi að bæta þjónustu við börn sem þurfa á talmeinaþjónustu að halda og tryggja snemmtæka íhlutun.
Í síðara svari ráðuneytisins tók ráðuneytið undir sjónarmið umboðsmanns um að þörf væri fyrir aðgerðir og frekari fjárveitingar til verkefnisins og ítrekaði að heilbrigðisráðherra muni leggja fyrir þingið þingsályktunartillögu um stofnun þverfaglegs landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu. Í bréfinu kom einnig fram að fyrrnefnt landsráð yrði kjörinn vettvangur til að fara yfir málefni talmeinafræðinga og leita að heildstæðum lausnum með hagsmuni barna að leiðarljósi.
Skólahúsnæði Fossvogsskóla
Í mars sendi umboðsmaður barna bréf til borgarstjóra Reykjavíkur vegna ástands húsnæðis Fossvogsskóla en áður hafði embættið fengið ábendingar frá nemendum skólans og foreldrum þeirra um myglu í húsnæðinu og flutninga á starfsemi skólans í annað skólahúsnæði. Í bréfinu var m.a. kallað eftir því að Reykjavíkurborg láti framkvæma óháða úttekt á viðbrögðum og aðgerðum vegna ástands á húsnæði Fossvogsskóla og kynni þær niðurstöður fyrir skólasamfélaginu. Þá taldi umboðsmaður nauðsynlegt að skýrir verkferlar væru til staðar sem tryggja rétt og tímanleg viðbrögð þegar svipuð mál koma upp í skólum borgarinnar.
Svar barst frá borgarstjóra þar sem m.a. kom fram að Reykjavíkurborg leggi áherslu á að allt skóla- og frístundastarf fari fram í heilnæmu umhverfi og að andleg og líkamleg vellíðan barna, ungmenna og starfsfólks sé ávallt í fyrirrúmi. Þá hafi allar aðgerðir Reykjavíkurborgar tekið mið af þessum atriðum og meginverkferill sé í undirbúningi undir forystu borgarstjóra og borgarritara í samvinnu við viðeigandi svið borgarinnar.
Meðferð eineltismála
Í júní sendi umboðsmaður barna, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, skólastjórafélag Íslands, Heimili og skóla, Félag grunnskólakennara og Grunn, félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, bréf til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Í bréfinu var bent á að þörf væri á aðgerðum til að styðja aðila skólasamfélagsins við meðferð eineltismála. Þá kom þar einnig fram að tilefni væri til að ráðast í frekari breytingar til að efla starfsemi fagráðs eineltismála. Það væri afar mikilvægt að börn gætu á fyrstu stigum máls leitað til hlutlauss aðila sem hefði það hlutverk að gæta hagsmuna þeirra. Lagt var til að mennta- og menningarmálaráðherra tæki verklag við úrlausn eineltismála til gagngerrar endurskoðunar í samstarfi við framangreinda hagsmunaaðila.
Ekki hafa borist viðbrögð frá ráðuneytinu vegna bréfsins.
Sundkennsla
Í júní sendi umboðsmaður barna bréf til mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem vakin var athygli á því að mörg börn hafi kallað eftir því að breytingar verði gerðar á fyrirkomulagi sundkennslu í efstu bekkjum grunnskóla. Í bréfinu kom m.a. fram að telja mætti að hæfniviðmið í sundi væru langt yfir það sem nauðsynlegt mætti telja til að nemendur gætu stundað sund sem líkamsrækt á öruggan hátt að loknum grunnskóla. Þá telji sumir nemendur sig eiga erfitt með að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til þeirra í sundtímum ásamt því að margir nemendur, sér í lagi hinsegin börn, hafi lýst upplifun sinni af einelti og áreitni í sundkennslu.
Svar barst frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem þakkað var fyrir ábendinguna og bent á að það svigrúm sem grunnskólar hafi til að útfæra skólanámskrár og kennsluáætlanir í samræmi við hæfniviðmið aðalnámskrá grunnskóla í einstökum námssviðum. Þá kom einnig fram í bréfinu að fram undan væri endurskoðun greinasviða aðalnámskrár á vegum ráðuneytisins sem Menntamálastofnum hafi verið falið að undirbúa.
Hækkun á árskorti ungmenna í strætó
Í desember sendi umboðsmaður barna bréf til Strætó bs. vegna tilkynningar um breytingar á gjaldskrá Strætó sem fólu í sér verulega hækkun á árskortum ungmenna samhliða því að mánaðargjöld til fullorðinna voru lækkuð. Umboðsmaður barna gagnrýndi hækkunina harðlega og benti á að fyrr á árinu hafði Strætó bs. kynnt að strætóferðir yrðu framvegis gjaldfrjálsar fyrir börn að 11 ára aldri en það var eindregin skoðun barna á barnaþingi 2019 að almenningssamgöngur ættu að vera gjaldfrjálsar fyrir börn. Því hafði umboðsmaður barna fagnað og taldi að um væri að ræða fyrsta skref í þá átt að tryggja öllum börnum aðgang að gjaldfrjálsum samgöngum. Umboðsmaður óskaði einnig eftir skýringum á því hvernig stjórnarmenn sem þar sátu sem fulltrúar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, rökstyðji umrædda hækkun á nauðsynlegri þjónustu við börn í sveitarfélögum sem samkvæmt yfirlýsingum umræddra sveitarfélaga væru barnvæn.
Í lok árs 2021 hafði umboðsmanni barna ekki borist svar við erindi sínu.
Handbók vinnuskóla
Embættið gaf út Handbók vinnuskóla 2021 í aprílmánuði. Í handbókinni, sem er afrakstur vinnu sem unnin var árið 2020, er m.a. að finna leiðbeiningar um endurmat ungmenna á vinnuskólanum, sjálfsrýni ungmenna og annað áhugavert efni um starfsemi vinnuskóla.
Vinnuskóli er starfræktur fyrir ungmenni yfir sumartímann í flestum sveitarfélögum. Markmið vinnuskólans er meðal annars að gefa börnum og ungmennum kost á samspili vinnu, þjálfunar og fræðslu. Handbókina má finna hér: Handbók umboðsmanns barna, Vinnuskóli sveitarfélaga fræðsla – öryggi- ábyrgð.
Sumarverkefni
Tveir nemendur unnu að verkefni fyrir umboðsmann barna um valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins um sjálfstæða kæruleið til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, en íslensk stjórnvöld stefna að fullgildingu hennar fyrir árslok 2023. Rannsóknin ber heitið „Réttindagæsla og sjálfstæð kæruleið fyrir börn“ og var unnin af þeim Unni Helgadóttur og Guðmundi Skarphéðinssyni. Verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og er ætlað að vera innlegg í umræðuna um bætt aðgengi barna að réttarúrræðum.
Umsagnir
Á vefsíðu embættisins birtast veittar umsagnir og álit umboðsmanns barna um m.a. lagafrumvörp og þingsályktunartillögur.