Ársskýrsla 2022

Lesa meira

Til forsætisráðherra

Árið 2022 var viðburðarríkt hjá embætti umboðsmanns barna. Í upphafi árs setti heimsfaraldurinn enn mark sitt á samfélagið. Á fyrstu vikum ársins greindust mun fleiri börn með kórónuveiruna en áður í faraldrinum, þau voru því tíðir gestir í sýnatöku og skólahald raskaðist verulega vegna veikinda þeirra. Jafnframt hófust bólusetningar meðal yngri aldurshópa barna. Umboðsmaður barna gerði fjölmargar athugasemdir við sýnatöku og framkvæmd bólusetninga meðal barna og átti í ítrekuðum samskiptum við sóttvarnaryfirvöld vegna stöðu barna í faraldrinum.

Eftir að öllum sóttvarnarráðstöfunum var aflétt í lok febrúar var hafist handa við undirbúning barnaþings sem átti að halda í nóvember 2021 en þurfti að fresta fram í mars 2022. Í skýrslu umboðsmanns barna sem birt var í tengslum við barnaþingið var farið ítarlega yfir sóttvarnarráðstafanir stjórnvalda en ljóst er að þær höfðu umfangsmikil áhrif á börn og þeirra daglega líf. Þar á meðal fór skóla- og frístundastarf sem og félagslíf barna úr skorðum á tímabilinu. Margvíslegar ráðstafanir sem gripið var til í þeim tilgangi að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar sýndu mikilvægi þess að mat á áhrifum á börn verði innleitt með formlegum hætti við mótun stefnu og ákvarðanatöku, á öllum stigum stjórnkerfisins. Slíkt mat gerir kröfu um að samráð sé haft við börn við undirbúning slíkra aðgerða sem og að gripið sé til mótvægisaðgerða til að milda áhrif ráðstafana á börn. Börn eru, eðli málsins samkvæmt, á viðkvæmum mótunaraldri og þær breytingar og óvissa sem fylgdi faraldrinum er líkleg til að marka dýpri spor í líf þeirra og framtíð en þeirra sem eldri eru. Það er því brýnt að stjórnvöld hugi vel að langtímaáhrifum faraldursins á öll börn, þar á meðal viðkvæma hópa barna og að gripið verði til aðgerða með það að markmiði að milda neikvæð áhrif heimsfaraldurs og sóttvarnarráðstafana gerist þess þörf.

Um 150 börn sóttu barnaþingið í mars og tókst það í alla staði vel. Ánægjulegt hefur verið að sjá áhuga ríkisstjórnar og þingmanna á barnaþinginu en margir þeirra sóttu þingið og áttu þar gott samtal við barnaþingmenn. Skýrslu með niðurstöðum þingsins var skilað til ríkisstjórnarinnar á vormánuðum og var hún tekin til sérstakrar umræðu á Alþingi í júní þar sem forsætisráðherra var málshefjandi. Barnaþingið er að festa sig í sessi sem mikilvægur samræðuvettvangur við börn og það er von embættisins að með því aukist verulega áhrif barna á ákvarðanir stjórnvalda.

Embætti umboðsmanns barna hóf á árinu þrjú mikilvæg verkefni sem lúta að stöðu barna í viðkvæmum aðstæðum. Í fyrsta lagi hóf embættið réttindagæslu sem er tilraunaverkefni til tveggja ára sem kveðið er á um í aðgerðaáætlun stjórnvalda um innleiðingu Barnasáttmálans og samþykkt var á Alþingi vorið 2021. Markmið verkefnisins er að börn og/eða foreldrar þeirra geti leitað stuðnings og ráðgjafar hjá aðila sem aðstoði þau við að leita réttar barns hjá stjórnvöldum telji þau brotið gegn réttindum þess. Embættið fékk sérstaka fjárveitingu til verkefnisins og hóf þegar í stað undirbúning þess í upphafi ársins. Verkefnið hefur veitt embættinu mikilvæga innsýn í raunverulega stöðu barna og hvar þörf sé á úrbótum.

Í öðru lagi beindi embættið sérstaklega sjónum að stöðu barna sem eiga foreldra í fangelsum. Tveir meistaranemar, annar í afbrotafræði og hinn í lögfræði, í samvinnu við Háskóla Íslands, gerðu úttekt á stöðu þessa hóps og fékkst styrkur frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til verkefnisins. Af úttektinni má ráða að aðkallandi þörf er á því að bæta aðstöðu barna til að viðhalda tengslum við foreldra sína á meðan á afplánun stendur. Embættið mun fylgja þessari skýrslu eftir á næstu misserum og jafnframt halda áfram að vinna úttektir á stöðu barna sem tilheyra viðkvæmum hópum þar sem sérstaklega verður leitast eftir því að ná fram sjónarmiði barnanna sjálfra í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans.

Loks hóf embættið að birta upplýsingar um fjölda þeirra barna sem bíða eftir þjónustu hjá ýmsum aðilum en langir biðlistar eftir greiningum og margvíslegri þjónustu hefur verið viðvarandi vandamál árum saman. Embættið hefur verið í góðu samstarfi við opinbera aðila vegna þessa verkefnis en markmið þess er að fylgjast með stöðunni hverju sinni og meta hvort árangur er að nást í að stytta bið eftir þjónustu. Embættið birti upplýsingar um stöðuna á vefsíðu sinni í fyrsta skipti í febrúar og svo aftur í september. Ljóst er að markmið stjórnvalda um snemmtæka íhlutun, sem liggur lögum um farsæld barna til grundvallar, er háð því að börn þurfi ekki að bíða eftir nauðsynlegri þjónustu mánuðum og jafnvel árum saman eins og því miður er raunin nú. Jafnframt er mikilvægt að stjórnvöld hugi betur að gagnaöflun um stöðu biðlista eftir ákveðinni þjónustu eins og þjónustu talmeinafræðinga. Þrátt fyrir loforð stjórnvalda er ekki hægt að fá upplýsingar um hve mörg börn bíða eftir þjónustu talmeinafræðinga hverju sinni. Á þessu sviði eins og mörgum öðrum skortir talsvert á gæði gagnasöfnunar um stöðu barna. Er það von embættisins að verulega verði bætt úr þeim vanda á næstu misserum.

Í september var haldin í Hörpu ráðstefna og ársfundur evrópusamtaka umboðsmanna barna (ENOC) þar sem undirrituð tók við formennsku samtakanna. Meginefni ráðstefnunnar var loftslagsréttlæti og réttindi barna. Ráðstefnan tókst afar vel og hana sóttu um hundrað manns, meðal annars börn, frá fjölmörgum Evrópuríkjum. Íslensk börn og ungmenni, þar á meðal fulltrúar úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna og ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, léku stórt hlutverk í dagskrá ráðstefnunnar, enda hafa börn látið sig loftslagsmálin miklu skipta. Embættið naut styrkjar frá forsætisráðuneytinu til að halda ráðstefnuna hér á landi og að lokum vil ég þakka sérstaklega fyrir þann góða stuðning. 

UMBODSMADURBARNA_79


Stefna embættisins til 2025

Stefna embættisins er í samræmi við breytingu á lögum um embættið sem samþykkt var á Alþingi í desember 2018.

 

Hlutverk

Að efla þátttöku barna í samfélaginu og vinna í því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna þeirra á öllum sviðum.

Gildi

Virðing, samvinna og frumkvæði.

Áherslur í starfi

 • Barna­sátt­málinn

  Fylgjast með þróun og túlkun Barna· sáttmálans og stuðla að því að hann sé virtur.
  Kynna Barna· sáttmálann sem víðast með fjölbreyttu kynningarefni.Gera úttektir á stöðu tiltekinna hópa barna og miðla niðurstöðum.Gera reglubundið mat á innleiðingu barnasáttmálans.
 • Þátttaka barna

  Efla lýðræðisþátttöku barna og beint samráð við þau um réttindi, þarfir og hagsmuni þeirra.
  Efla ráðgjafarhóp umboðsmanns og stofna sérfræðihópa barna með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu. Kynna og innleiða fjölbreyttar leiðir til samráðs við börn.Halda barnaþing annað hvert ár.
 • Framsækni

  Markvisst samstarf hérlendis og erlendis með nýtingu rannsókna og gagnreyndra aðferða og stuðla að því að hann sé virtur.
  Styrkja samstarfsnet um réttindi barna. Kynna bestu aðferðir frá nágrannalöndum við innleiðingu Barnasáttmálans. Stuðla að stefnumótandi umræðu um málefni barna.

Framtíðarsýn

Réttindi barna njóta víðtækrar virðingar og eru sjálfsagður hluti af allri stefnumótun og ákvörðunum.Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica