Fjölbreytt verkefni

Verkefni embættis umboðsmanns barna eru fjölbreytt og fela meðal annars í því að setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur, að afla og miðla gögnum um aðstæður barna og margt fleira. 

Úrdráttur

  • Embættið birtir reglulega upplýsingar um bið barna eftir þjónustu á vefsíðu sinni. Þær upplýsingar birtust fyrst í byrjun ársins 2022 og svo í lok sumars sama ár.

  • Embættið hóf tilraunaverkefni um réttindagæslu barna til tveggja ára. Meðal þeirra mála sem komið hafa á borð réttindagæslunnar varðar erfiðleika innan grunnskóla en dæmi eru um að börnum hafi verið vísað úr skóla, þau horfið frá námi eða skólinn ekki sinnt menntun þeirra.

  • Embættið í samvinnu við Persónuvernd og Fjölmiðlanefnd gáfu út leiðbeiningar varðandi réttindi barna í stafrænu umhverfi.

  • Embættið stóð fyrir úttekt á réttindum og stöðu barna sem eiga foreldri í fangelsi. Verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóð námsmanna.Hvaða kynþætti þau tilheyra eða hvernig þau eru á litinn.

  • Fyrirtaka Íslands hjá  barnaréttarnefndinni fór fram í Genf á árinu. Salvör Nordal, umboðsmaður barna og Guðríður Bolladóttir, yfirlögfræðingur, voru viðstaddar fyrirtökuna. 


Verkefni embættis umboðsmanns barna felast meðal annars í því að:

  • Hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni barna.
  • Fylgjast með þróun og túlkun Barnasáttmálans, veita börnum og fullorðnum fræðslu um sáttmálann og stuðla að því að hann og aðrir alþjóðasamningar sem varða réttindi og velferð barna séu virtir.

  • Setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins.
  • Afla og miðla gögnum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna.
  • Stuðla að þátttöku barna í samfélagslegri umræðu, og stefnumótun og ákvarðanatöku í málefnum barna hjá ríki og sveitarfélögum.
  • Stuðla að því að kynna fyrir almenningi löggjöf og aðrar réttarreglur sem varða börn og beita sér fyrir því að gerðar verði rannsóknir á þessu.

Ylona-maria-rybka-u87ckq3jdxA-unsplash

Verkefni

Bið barna eftir þjónustu

Umboðsmaður barna starfar eftir lögum um umboðsmann barna nr. 83/1994 og hefur það hlutverk að standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi barna. Liður í því er að afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni í samvinnu við ýmsa aðila. Bið eftir þjónustu hefur verið viðvarandi vandamál og ljóst að erfitt er að tryggja snemmtæka íhlutun, eins og stjórnvöld hafa kynnt, ef börn þurfa að bíða lengi eftir nauðsynlegri þjónustu. Embættið kallar reglulega eftir upplýsingum um fjölda barna sem bíða eftir þjónustu hjá ýmsum aðilum og birtir á vefsíðu sinni. Upplýsingar um bið eftir þjónustu voru fyrst birtar í byrjun árs 2022 og aftur í lok sumars 2022.

Samstarfsaðilar verkefnisins eru Barna- og fjölskyldustofa, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Geðheilsumiðstöð barna, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Barna og unglingageðdeild LSH, Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu og Heilsuskóli Barnaspítala hringsins. Biðlistar talmeinafræðinga liggja ekki fyrir í samræmdum gögnum en Sjúkratryggingar gerður úttekt á stöðu barna sem bíða eftir þjónustu hjá talmeinafræðinga í desember 2021 að beiðni heilbrigðisráðuneytisins. Þessar tölur voru birtar á síðu embættisins. 

Réttindagæsla barna

Á árinu hóf embættið tilraunaverkefni til tveggja ára um réttindagæslu barna. Um er að ræða aðgerð sem kveðið er á um í aðgerðaráætlun stjórnvalda um innleiðingu Barnasáttmálans. Sérstök fjárveiting fékkst til verkefnisins sem gerði embættinu kleift að ráða nýjan lögfræðing til starfa. Markmið verkefnisins er að veita börnum og/eða foreldrum þeirra vettvang þar sem þau geta leitað stuðnings og ráðgjafar hjá aðila sem aðstoðar þau við að leita réttar barns hjá stjórnvöldum telji þau brotið gegn réttindum þess.

Við undirbúning verkefnisins var m.a. leitað ráðgjafar hjá umboðsmanni barna í Belgíu og umboðsmanni nemenda í Svíþjóð. Í starfi réttindagæslunnar er lögð rík áhersla á að aðkoma hennar að málum einstakra barna sé í þágu þeirra og eigi sér stað með þeirra vitund, samþykki og þátttöku. Foreldrar eða aðrir talsmenn barns geta þó leitað til réttindagæslunnar fyrir hönd barnsins. Réttindagæslan áskilur sér hins vegar ávallt rétt til að leita með virkum hætti eftir samþykki þess barns sem um ræðir hverju sinni.

Af þeim málum sem hafa komið inn til réttindagæslunnar er í nokkuð mörgum tilvikum um að ræða erfiðleika innan grunnskóla. Dæmi eru um að börnum hafi verið vísað úr skóla eða þau horfið frá námi og skólinn ekki sinnt menntun þeirra. Mismunandi ástæður liggja þar að baki, má þar nefna einelti, ásakanir um brot gegn öðrum nemendum og skort á stuðningi innan skólans. Umboðsmaður barna telur að sterkar vísbendingar hafi komið í ljós um að víða sé staða barna sem eru með ADHD og einhverfu greiningu alvarleg innan grunnskóla, þar sem bæði sé skortur á stuðningi og úrræðum. Þá hafa einnig komið inn mál sem tengjast barnaverndarþjónustu.

Réttindagæsla umboðsmanns barna hefur eflt embættið verulega og veitt umboðsmanni barna mikilvægar upplýsingar um raunverulega stöðu barna og hvar þörf er á umbótum. 

Hluti-3-Oryggi-a-netinu-forsidumynd-01

Réttindi barna í stafrænu umhverfi

Umboðsmaður barna í samvinnu við Persónuvernd og Fjölmiðlanefnd gáfu út leiðbeiningar fyrir foreldra, ábyrgðaraðila og starfsfólk í skóla- og frístundastarfi sem varða netið, samfélagsmiðla og börn. Leiðbeiningarnar eru byggðar á sænskri fyrirmynd og er þeim ætlað að vekja athygli á og fræða foreldra, starfsfólk í skóla-, frístunda-, íþrótta og tómstundastarfi sem og ábyrgðaraðila um nauðsynlega vernd barna í stafrænu umhverfi. Leiðbeiningarnar voru kynntar á Grand hótel í lok apríl þar sem meðal annars tóku þátt fulltrúar úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna.

Börn fanga

Embættið stóð fyrir úttekt á réttindum og stöðu barna sem eiga foreldri í fangelsi í samvinnu við Helga Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði og Ragnheiði Bragadóttur, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands. Sótt var um styrk til Nýsköpunarsjóðs námsmanna og fengust tveir styrkir til verkefnisins. Lilja Katrín Ólafsdóttir, sem nýlokið hafði meistaranámi í lögfræði og Daníel Guðjónsson, meistaranemi í afbrotafræði við háskólann í Lundi að verkefninu fyrir umboðsmann barna.

Niðurstöður verkefnisins eru aðgengilegar í sameiginlegri skýrslu á vefsíðu embættisins. Í fyrri hlutanum er fjallað um íslenska löggjöf sem varðar málefni og réttindi barna og framkvæmdina þegar kemur að börnum fanga á Íslandi. Einnig er gerður samanburður milli Norðurlandanna á stöðu barna sem eiga foreldri í fangelsi. Þá er fjallað um þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist á þessu sviði m.a. samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 19/2013, mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994 og tilmæli Evrópuráðsins um börn fanga. Í síðari hlutanum er fjallað um reynslu og viðhorf fanga sem eiga börn m.a. varðandi heimsóknaraðstöðu og tilhögun heimsókna. Skýrslurnar leiða báðar í ljós að afar brýnt er að endurskoða málefni sem tengjast fullnustu refsinga með hliðsjón af réttindum og hagsmunum barna. Umboðsmaður barna stóð fyrir málþingi þann 3. október í samvinnu við félagsvísindasvið Háskóla Íslands þar sem Lilja Katrín og Daníel kynntu niðurstöður verkefnisins. Á eftir framsögum voru pallborðsumræður með Guðmundi Inga Þóroddssyni, formanni Afstöðu, Helga Gunnlaugssyni prófessor, Páli Winkel, forstjóra Fangelsismálastofnunar, og Ragnheiði Bragadóttur, prófessor við Háskóla Íslands. Fundarstjóri var Salvör Nordal, umboðsmaður barna.

Niðurstöður verkefnisins voru einnig kynntar dómsmálaráðherra í bréfi dagsettu 17. október.

Born-fanga-malthing-01

Umsagnir

Á vefsíðu umboðsmanns barna birtast umsagnir og álit sem embættið sendir frá sér til Alþingis og annarra opinberra aðila. Hér má finna þær umsagnir sem embættið sendi frá sér á árinu en þær eru einnig aðgengilegar á vefsíðu Alþingis og á samráðsgátt stjórnvalda.

Jon-tyson-r9T0LZv8xWQ-unsplash-1-

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna

Hlutverk barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna er m.a. að hafa eftirlit með framkvæmd Barnasáttmálans hjá aðildarríkjum sáttmálans. Aðildarríkin skila nefndinni reglulega skýrslur um framkvæmd Barnasáttmálans sem nefndin fer yfir og aflar frekari upplýsinga um ástand mála í viðkomandi ríki.

Fyrirtaka Íslands hjá nefndinni fór fram í Genf 4. – 5. júní þar sem lagðar voru spurningar fyrir sendinefnd og rætt m.a. um þátttöku barna, aðgengismál fatlaðra barna, veitta þjónustu sveitarfélaga, brotthvarf úr skólum og margt fleira. Salvör Nordal, umboðsmaður barna og Guðríður Bolladóttir, yfirlögfræðingur, voru viðstaddar fyrirtökuna í Genf. Hér eru þær tvær skýrslur sem embættið sendi vegna fyrirtöku Íslands hjá nefndinni.

Barnaréttarnefndin birti tilmæli sín til íslenska ríkisins um nauðsynlegar úrbætur sem miða að því að tryggja áframhaldandi innleiðingu Barnasáttmálans á öllum sviðum samfélagsins.

Tilmæli Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna

Barnathing_enoc_19092022-22

Önnur stefnumótandi umræða

Umboðsmaður barna skipuleggur reglulega viðburði auk þess sem starfsfólk embættisins sækir fjölda málþinga og ráðstefna og á fundi við margvíslega aðila um málefni sem tengjast börnum og réttindum þeirra á ári hverju. Þá fer umboðsmaður barna reglulega í viðtöl við fjölmiðla til að vekja athygli á málefnum sem tengjast réttindum barna eða hafa áhrif á umræðu um börn og réttindi þeirra.

Dómstóladagurinn

Guðríður Bolladóttir, var með erindið „Börnin í réttarkerfinu, Rökstólar, barnasáttmálinn“ á Dómstóladeginum þann 30. september.

Landsamráðsfundur gegn ofbeldi

Starfsfólk embættisins tók þátt í Landssamráðsfundi gegn ofbeldi, þar tók Guðríður Bolladóttir þátt í pallborðsumræðum um ofbeldi og sjónarmið ungmenna. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum á vefsíðu verkefnisins.


Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica