Alþjóðlegt samstarf

Samstarf við umboðsmenn barna í nágrannalöndunum er ríkur þáttur í starfi embættisins. 

Úrdráttur

  • Samtök evrópskra umboðsmanna barna héldu ársfund sinn í Reykjavík í september 2022 og í tengslum við þann fund fór fram ráðstefna um loftlagsréttlæti út frá réttindum barna. Um 100 manns tóku þátt á ráðstefnunni þ.m.t. umboðsmenn barna víðs vegar um Evrópu og starfsfólk þess.

  • Árlegur fundur norrænna umboðsmanna barna fór fram á Nuuk á Grænlandi.

  • Umboðsmaður barna var í margvíslegu erlendu samstarfi á árinu. Þar á meðal var samstarfsverkefni við búlgörsku samtökin National Network for Children en starfsfólk embættisins ásamt fulltrúum Ráðgjafarhópsins heimsóttu samtökin í Sofiu. 


ENOC

Ársfundur samtaka evrópskra umboðsmanna barna (ENOC) fór fram 21. september í Reykjavík. Á fundinum tók Salvör Nordal, umboðsmaður barna, við formennsku samtakanna en hún er fyrsti íslenski umboðsmaður barna til að sitja í stjórn samtakanna og vera í forsvari þeirra.

Í tengslum við ársfundi ENOC var haldin ráðstefna um loftslagsréttlæti út frá réttindum barna með yfirskriftinni Shaping the Future: Children´s Rights in Climate Crisis. Tæplega eitt hundrað manns sóttu ráðstefnuna í Hörpu frá systurstofnunum víðs vegar í Evrópu. Fjöldi íslenskra barna tók þátt í ráðstefnunni, þar á meðal fulltrúar úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna, kynnt voru verkefni nokkurra ungmenna sem hafa unnið samkeppni Landverndar Ungt umhverfisfréttafólk. Þá flutti Jökull Jónsson, tónlistarmaður og loftslagsaktíviksti nokkur lög við mikla ánægju viðstaddra. 

  • Enoc fundur 
  • Enoc fundur
  • Enoc fundur
  • Enoc fundur

Í ENOC eiga flest embætti umboðsmanna barna í Evrópu aðild og eru samtökin afar mikilvægur vettvangur fyrir alþjóðlega samræðu og samstarf um réttindi barna. Á vegum þeirra starfar einnig ENYA, evrópskt samstarfsnet ráðgjafarhópa barna, og taka fulltrúar ENYA mikinn þátt í starfi samtakanna, ekki síst á hinni árlegu ráðstefnu.

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna hefur á síðustu árum tekið virkan þátt í starfi ENYA sem er einstakur vettvangur til að eiga samtal við börn og ungmenni annars staðar frá í Evrópu og skiptast á sjónarmiðum og reynslu.

Hópmynd af enoc fundi

Árlegur fundur norrænna umboðsmanna barna

Norrænir umboðsmenn barna hittast árlega og ræða um sameiginleg málefni sem tengjast réttindum barna á Norðurlöndunum. Að þessu sinni fór fundurinn fram á Nuuk á Grænlandi 30. ágúst - 1. september. Á fundinum var sérstök kynning á stöðu barna á Grænlandi. 

Graenland-norraenn-fundur

Annað erlent samstarf

Umboðsmaður barna var í margvíslegu erlendu samstarfi á árinu.

Búlgaría

Embættið hefur síðastliðin ár verið þátttakandi í samstarfsverkefni við búlgörsku samtökin National Network for Children. Styrkur fékkst frá Uppbyggingarjóði EES og felur verkefnið meðal í sér undirbúning þess að setja á laggirnar embætti umboðsmanns barna í Búlgaríu. Fyrr á árinu komu fulltrúar búlgörsku samtakanna til Íslands, til að kynna sér embættið og barnaþing og fræðast um þá þjónustu við börn sem veitt er hér á landi. Í júní heimsóttu Salvör Nordal, umboðsmaður barna og Stella Hallsdóttir, lögfræðingur, samtökin og áttu margvíslega fundi um hlutverk umboðsmanna barna meðal annars með umboðsmanni Alþingis í Búlgaríu, þingmenn og ráðherra. Þá sóttu þær einnig ársfund samtakanna National Network for Children

Bulgaria-nov23

Í nóvember fóru tvö ungmenni úr ráðgjafarhóp umboðsmanns barna, þau Bryn Thorlacius og Þórey María Kolbeins, ásamt starfsmönnum embættisins, þeim Eðvaldi Einari Stefánssyni og Andreu Róa Sigurbjörns, til höfuðborgar Búlgaríu, Sofiu, þar sem þau tóku þátt í ráðstefnunni “Voice it: An opinion matters” sem haldið var af samtökunum "Megafon" youth network og National Children's Network. Þá sátu þau námskeið um mikilvægi þeirra barna sem berjast fyrir mannréttindum og héldu erindi á fyrrgreindri ráðstefnu, fyrir búlgörsk börn og ungmenni og embættisfólk.

Transgender börn

Umboðsmaður barna tók þátt í verkefninu “Transgender child – an effective support system in school” í samstarfi við Fundacja Psycho-Edukacja (Stofnun um sálfræðimenntun í Póllandi) og “Warszawskie Centrum Innowacji Edukacyjno-Społecznych i Szkoleń” (Miðstöð menntunar, nýsköpunar og þjálfunar í Varsjá). Markmið verkefnisins er að styðja skólastjórnendur og kennara til að hanna og innleiða skilvirkt stuðningskerfi í skólum til að draga úr mismunum og ofbeldi sem stafar af fordómum gagnvart hinsegin fólki í pólskum grunn- og framhaldsskólum. Verkefnið var styrkt af Uppbyggingarsjóði EES. 

mynd af vita

Verkefnið "Lighthouse-keepers"

Umboðsmaður barna tók þátt í verkefninu Lighthouse-keepers: Business and Human Rights Cooperation Network sem er leitt af  Polish institute for human rights and business

Stefna Evrópuráðsins um réttindi barnsins

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, sótti ráðstefnuna Beyond the horizon: a new era for the rights of the child í Róm þar sem ný stefna Evrópuráðsins um réttindi barnsins var kynnt.

Stefnan er hluti af verkefninu Building Europe for and with children sem hefur verið við lýði síðan árið 2006 og er sú fjórða í röðinni. Í nýju stefnunni voru sex forgangsþættir kynntir sem eru:

  1. Frelsi barna frá öllu ofbeldi
  2. Jöfn tækifæri og félagsleg aðlögum fyrir öll börn
  3. Gott aðgengi að tækni og örugg notkun fyrir börn
  4. Barnvænt réttarkerfi
  5. Öll börn fái sína rödd
  6. Réttindi barna í átökum og neyð

Ráðstefnan var skipulögð af Evrópuráðinu og í tengslum við formennsku Ítalíu í ráðherranefnd Evrópuráðsins. 

skógur

Sérfræðihópur um þátttöku barna á tímum heimsfaraldurs

Guðríður Bolladóttir átti sæti í sérfræðihópi á vegum Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar (NVC). Um er að ræða norrænt samstarfsverkefni sem fjallar um rétt barna og ungmenna til þátttöku á tímum heimsfaraldurs. Markmið verkefnisins er að miðla þekkingu og rannsóknum um áhrif faraldursins og sóttvarnatakmarkana á börn á Norðurlöndunum. Verkefnið er unnið fyrir hönd Norrænu barna- og æskulýðsnefndarinnar (NORDBUK) og Norrænu ráðherranefndarinnar um heilbrigðis- og félagsmál.



Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica