Fjölbreytt samráð við börn

Embættið leggur áherslu á að efla lýðræðisþátttöku barna og beint samráð við þau um mál sem varða hagsmuni þeirra á öllum sviðum. 

Úrdráttur

  • Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna samanstendur af börnum á aldrinum 12 – 17 ára. Hópurinn tók m.a. virkan þátt í barnaþingi og undirbúningi þess og í ráðstefnu evrópskra umboðsmanna barna sem haldinn var í Reykjavík.

  • Embættið heldur utan um starf ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna samkvæmt samningi við forsætisráðuneytið.

  • Fjölmörg börn höfðu samband við umboðsmann barna á árinu en erindi frá þeim njóta ávallt forgangs. Á vefsíðu embættisins birtast svör við algengum erindum frá börnum.



Umboðsmaður barna starfrækir ráðgjafarhóp með börnum og heldur utan um starf Ungmennaráðs heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Þá leggur embættið ríka áherslu á að kynna fjölbreyttar leiðir til samráðs við börn, en mikilvægur liður í því er barnaþing sem haldið er annað hvert ár.

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna gegnir lykilhlutverki í starfi embættisins. Hópurinn er ráðgefandi fyrir umboðsmann barna um hagsmuni barna í landinu. Embættið leitar eftir því að efla þátttöku barna með samtali um það sem skiptir börn máli og inngilda þau í ákvarðanatöku sem snýr að þeirra réttindum.

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna saman stendur af 10 börnum á aldrinum 12 - 17 ára sem hafa það sameiginlegt að brenna fyrir réttindum barna. Hópurinn er síbreytilegur þar sem aldurstakmarkið er 17 ára og nýir meðlimir ávallt velkomnir. Send var út auglýsing á samfélagsmiðla snemma á árinu til að hvetja til þátttöku í hópnum, en einnig er alltaf sagt frá starfinu þegar starfsfólk embættisins hittir nemendur og börn í ungmenna- og nemendaráðum út um allt land.

Fundir ráðgjafarhóps umboðsmanns eru 1-2 sinnum í mánuði og oftar þegar vinna þarf að komandi viðburði eða verkefnum. Starfsmaður embættisins sem sérhæfir sig í þátttöku barna sendir út fundarboð, gerir drög að fundardagskrá og hefur yfirsýn með samskiptum og umræðum á fundinum. 

Á fundum ráðgjafarhópsins hefur verið rík áhersla á mannréttindi, umhverfismál og skólamál. Fundurinn er settur upp af starfsmanni embættisins en umræðan stýrist af þeim málefnum sem eru ofarlega í huga barnanna. 

Starfið á árinu 2022 var kröftugt eins og síðustu ár og hafa börnin unnið fjölbreytt verkefni í samstarfi við starfsmenn embættisins. Hér eru dæmi um nokkur verkefni:

Barnaþing

Ráðgjafarhópurinn tók virkan þátt í undirbúningi barnaþings og var í lykilhlutverki á barnaþinginu sjálfu. Þann 27. maí 2022 afhentu fulltrúar úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna ráðherrum ríkisstjórnarinnar skýrslu barnaþings 2022 en í henni er að finna helstu niðurstöður frá þinginu sem haldið var í mars. Afhending fór fram á ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum. 

Barnathing_afhending_radherrabustadur_net-4

ENOC ráðstefnan í Hörpu í september 2022

Ráðgjafarhópurinn tók virkan þátt í ráðstefnu evrópskra umboðsmanna barna, European network for Ombudspersons for children (ENOC) sem haldin var í Hörpu undir yfirskriftinni, Shaping the Future: Childrens‘s Rights in a Climate Crisis. Þrjú úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna tóku þátt í pallborði um stefnu Íslands í loftlagsmálum og áttu samtal við Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra um efnið.

Barnathing_enoc_19092022-8

Samráðshópur barna og ungmennaráða um stöðu mannréttinda og hatursorðræðu í nóvember 2022

Forsætisráðuneytið skipulagði fund fyrir börn um mannréttindi og hatursorðræðu á skrifstofu umboðsmanns barna í Borgartúni. Börn úr ráðgjafarhóp umboðsmanns barna, ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og ungmennaráði Samtakanna ‘78 mættu á fundinn. Fundurinn var haldinn í tengslum við vinnu forsætisráðuneytisins í grænbók um mannréttindi þar sem starfshópur gegn hatursorðræðu átti mikilvægt samráð við börn.

Kynning á lokaniðurstöðum barnaréttarnefndar Sþ á vegum mennta- og barnamálaráðuneytisins í nóvember 2022

Mennta- og barnamálaráðuneytið, hélt kynningarfund um lokaniðurstöður úttektar Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna á innleiðingu Barnasáttmálans á Íslandi. Hópur barna fór yfir lokaniðurstöðurnar og átti samtal um þau málefni sem þeim fannst mikilæg. Fulltrúi úr hópi ráðgjafarhópsins tók þátt í bæði undirbúningi viðburðarins og flutti erindi á málþingi sem haldið var í kjölfarið.

Á fundum ráðgjafarhópsins hefur verið lögð rík áhersla á mannréttindi, umhverfismál og skólamál. Fundurinn er settur upp af starfsmanni embættisins en umræðan stýrist af þeim málefnum sem eru ofarlega í huga barnanna. 

Tapio-haaja-YwfXOmnfdqs-unsplash

Ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna

Umboðsmaður barna heldur utan um starf Ungmennaráðs heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna samkvæmt samningi við forsætisráðuneytið.

Meginmarkmið Ungmennaráðsins er að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, meðal ungmenna og í samfélaginu almennt. Ráðinu er ætlað að vera lifandi vettvangur þar sem heimsmarkmiðin og Barnasáttmálinn eru höfð að leiðarljósi og rædd með gagnrýnum og lausnamiðuðum hætti. Ungmennaráðið samanstendur af tólf fulltrúum, víðs vegar að af landinu, á aldursbilinu 13-18 ára. Ungmennaráðið á fulltrúa og varafulltrúa í Barnamenningarsjóði Íslands.

Nýtt ungmennaráð tók til starfa eftir kosningu á barnaþingi 2022. Ungmennaráðið hittist reglulega í gegnum fjarfundabúnað en áttu fund í Vindáshlíð, Reykjavík og Mosfellsdal árið 2022.

Verkefni ráðsins voru fjölbreytt fyrstu mánuðina.

Heimsins stærsta kennslustund

Heimsins stærsta kennslustund var formlega sett af stað í Landakotsskóla 6. des. 2022. Eliza Reid forsetafrú og verndari Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, og Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, héldu erindi um menntun. Fulltrúar frá Ungmennaráði heimsmarkmiða SÞ stýrðu kennslustundinni.

Heimsins stærsta kennslustund er verkefni sem miðar að því að efla fræðslu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og auka vitund nemenda um alþjóðamál og sjálfbærni. Þemað að þessu sinni er heimsmarkmið nr. 4 – Menntun fyrir alla.

ENOC ráðstefnan í Hörpu í september 2022

Ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna tók virkan þátt í ráðstefnu evrópskra umboðsmanna barna, European network for Ombudspersons for children (ENOC) sem haldin var í Hörpu undir yfirskriftinni, Shaping the Future: Childrens‘s Rights in a Climate Crisis. Fulltrúi úr ráðinu flutti erindi.

Samráðshópur barna og ungmennaráða um stöðu mannréttinda og hatursorðræðu í nóvember 2022

Forsætisráðuneytið skipulagði fund fyrir börn um mannréttindi og hatursorðræðu á skrifstofu umboðsmanns barna í Borgartúni. Börn úr ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna tóku þátt. Fundurinn var haldinn í tengslum við vinnu forsætisráðuneytisins í grænbók um mannréttindi þar sem starfshópur gegn hatursorðræðu átti mikilvægt samráð við börn.

Ráðið sat einnig samráðsfund hjá forsætisráðuneytinu um hatursorðræðu og græn bók um mannréttindi. Ein úr ráðinu tók flutti erindi á ENOC ráðstefnunni í Hörpu um loftlagsmál. 

Barnaþing

Barnaþing var haldið í Silfurbergi í Hörpu dagana 3. og 4. mars þar sem 113 börn, víðsvegar að af landinu, tóku þátt. Nánar er fjallað um barnaþing í sérkafla.

Barnathing_2022-78

Samskipti við börn

Mikil áhersla er lögð á að vera í góðum samskiptum við börn og njóta fyrirspurnir frá börnum ávallt forgangs hjá embættinu. Börnum er svarað eins fljótt og unnt er og þeim heitið fullum trúnaði. Starfsfólk embættisins er þó bundið tilkynningarskyldu skv. barnaverndarlögum, nr. 80/2002.

Flestar fyrirspurnir frá börnum berast með tölvupósti á netfangið ub@barn.is, eða í gegnum heimasíðu umboðsmanns barna, undir liðnum spurt og svarað. Þegar fyrirspurnir koma í gegnum heimasíðuna getur viðkomandi valið að fá svar í tölvupósti eða á heimasíðunni. Ekki er gerð krafa um að börn gefi upp nafn eða aðrar persónuupplýsingar. Einnig geta börn haft samband við umboðsmann barna á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram eða í spjallboxi á heimasíðunni.

Dæmi um fyrirspurnir frá börnum og ungmennum




Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica