Alþjóðlegt samstarf

Samstarf við umboðsmenn barna í nágrannalöndunum er ríkur þáttur í starfi embættisins. Þrátt fyrir ýmsar takmarkanir á fundarhaldi og samskiptum á árinu átti umboðsmaður árangursrík samskipti á árinu við erlenda samstarfsaðila. 

Fundur norrænna umboðsmanna barna

Umboðsmenn barna á Norðurlöndunum hittast árlega og fara yfir stöðuna hverju sinni. Þessir fundir eru mikilvægir í starfsemi embættisins en á þeim er fjallað um hagsmuna- og réttindamál barna sem eru efst á baugi í hverju landi fyrir sig og nýjustu verkefnin kynnt. 

Fundurinn fór fram rafrænt þann 6. maí undir stjórn umboðsmanns barna á Álandseyjum. 

Fundur samtaka evrópskra umboðsmanna barna (ENOC)

Árleg ráðstefna samtaka evrópskra umboðsmanna barna fór fram dagana 16. og 17. nóvember þar sem rætt var um mat á áhrifum á réttindi barna (Child Rights Impact Assessment - CRIA). Ráðstefnan fór að þessu sinni fram með rafrænum hætti frá Edinborg í Skotlandi. 

Í kjölfar ráðstefnunnar fór fram aðalfundur ENOC með þátttöku allra umboðsmanna barna í Evrópu. Á fundinum var kosin ný stjórn samtakanna og er Salvör Nordal áfram í stjórn.

Á fundinum var samþykkt yfirlýsing um mat á áhrifum á réttindi barna og þess krafist að tekið sé tillit til réttinda barna við setningu laga, mótun stefnu og ráðstöfun á opinberu fé. Þá ber stjórnvöldum að tryggja að opinberar stofnanir fái stuðning við framkvæmd við mat á áhrifum. 

ENYA (European Network of Young Advisors)

Embættið tók þátt í vinnu ENYA hópsins (European Network of Youth Advisors) sem er skipaður ungmennum sem vinna með umboðsmönnum barna um alla Evrópu. Ráðgjafahópur umboðsmanns barna vann verkefni um þátttöku barna í ákvarðanatöku, í þremur flokkum: þátttaka barna á Íslandi - framkvæmd og mat á árangri; réttindi hinsegin barna á Íslandi; og framkvæmd hagsmunamats um áhrif á réttindi barna. Samráð um þessar tillögur fór fram á netinu og voru niðurstöður þess samráðs teknar til greina í niðurstöðum hópsins. Sérstaklega var leitað eftir svörum hinsegin barna í samráðinu. Tveir fulltrúar Ráðgjafahópsins, þær Anna Ingibjargardóttir og Vigdís Grace voru svo valdar til að taka þátt í fundi ENYA fyrir hönd Íslands. Var fundurinn haldinn á netinu dagana 3. og 4. október og voru þar saman komin 26 ungmenni á aldrinum 12-18 ára, frá 13 ríkjum Evrópu. Anna og Vigdís kynntu þar niðurstöður verkefnisins á Íslandi og tóku þátt í að móta heildarniðurstöður sem voru lagðar fram á ársfundi umboðsmanna barna í Evrópu í nóvember.


Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica