Innleiðing Barnasáttmálans

Embættið fylgist með þróun og túlkun Barnasáttmálans og stuðlar að því að hann sé virtur.

Það er mikilvægur þáttur í innleiðingu Barnasáttmálans að tryggja að hann sé hafður að leiðarljósi með markvissum og kerfisbundnum hætti við alla stefnumótun, lagasetningu og ákvarðanatöku sem varðar börn. Grundvallarforsenda þess er að til staðar sé þekking á Barnasáttmálanum og þeim réttindum sem þar er kveðið á um. 

Innleiðing Barnasáttmálans í stjórnsýslunni

Í janúar 2020 sendi embættið bréf til allra ráðuneyta og ríkisstofnana með beiðni um að taka þátt í könnun umboðsmanns barna. Meginmarkmið könnunarinnar var að afla upplýsinga um stöðu innleiðingar Barnasáttmálans í íslenskri stjórnsýslu og fyrirkomulag samráðs stofnana við börn. Auk þess var tilgangur hennar að fá yfirlit yfir þá þekkingu og vitund sem starfsmenn ríkisstofnana hafa um sáttmálann og þau réttindi sem í honum felast. Þetta var í fyrsta sinn sem slík könnun er gerð en hún er mikilvægur liður í því verkefni að meta ávinninginn af lögfestingu Barnasáttmálans.

Könnunin leiddi í ljós að mikill áhugi er meðal stofnana og ráðuneyta um að taka næstu skref í innleiðingu Barnasáttmálans. Könnunin virðist hafa vakið marga til umhugsunar um Barnasáttmálann og verið hvatning til að hefja aðgerðir sem miða að innleiðingu sáttmálans og aukinni þátttöku barna. Það er afar jákvætt.

Næstu skref hjá embættinu er að svara kalli stofnana um fræðslu og leiðbeiningar og gera þeim kleift að stíga frekari skref í átt að innleiðingu.

Reglubundið mat á innleiðingu Barnasáttmálans – dæmi um ábendingar og álit

Reglubundið mat á innleiðingu Barnasáttmálans fer fram með margvíslegu móti eins og eftirfylgni með fyrirspurnum og ábendingum og umsögnum til Alþingis um frumvörp og þingsályktunartillögur. Þá hefur embættið frumkvæði að umræðu um ýmis mál sem varða hag barna í samfélaginu.

Ástand skólahúsnæðis

Umboðsmanni barna barst erindi þar sem fram komu áhyggjur nemenda í Fossvogsskóla vegna ástands á húsnæði skólans og framkvæmda vegna myglu og raka. Í kjölfarið sendi umboðsmaður bréf til skólastjóra Fossvogsskóla og til borgarstjóra. Þar áréttaði umboðsmaður barna nauðsyn þess að hugað sé að rétti barna til upplýsinga, þátttöku og besta mögulegs heilsufars samkvæmt ákvæðum Barnasáttmálans, við töku ákvarðana er varða skólahúsnæði Fossvogsskóla.

Ofbeldi gegn börnum

Umboðsmaður barna sendi bréf til Kópavogsbæjar þar sem óskað var eftir upplýsingum og skýringum um verklag sveitarfélagsins í málum er varða ofbeldi gegn börnum í leikskólum. Tilefni bréfsins var dómur héraðsdóms Reykjaness í máli þar sem þroskaþjálfi, fyrrverandi starfsmaður leikskóla í sveitarfélaginu, var sakfelldur fyrir ofbeldi gegn fötluðu barni.

Áhyggjur barna af fyrirhugaðri vinnustöðvun

Embættinu bárust erindi frá börnum þar sem þau lýstu miklum áhyggjum vegna fyrirhugaðra verkfallsaðgerða Eflingar í grunnskólum eftir að samkomutakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins lauk. Þau töldu meðal annars vegið að rétti sínum til menntunar og höfðu einnig áhyggjur af því að verkföll myndu auka á þá félagslega einangrun sem þau upplifðu í kjölfar Covid aðgerða. Embættið brást við með því að senda bréf til Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í þeim bréfum voru hlutaðeigandi aðilar hvattir til þess að ganga til samninga áður en til vinnustöðvunar kæmi.


Ábending til sveitarfélaga

Embætti umboðsmanns barna sendi bréf til allra sveitarfélaga þar sem minnt var á hlutverk og tilgang ungmennaráða og mikilvægi þess að í ungmennaráðum sitji fulltrúar yngri en 18 ára.

Markmiðið með starfi ungmennaráða sveitarfélaga, er fyrst og fremst að gefa börnum sem ekki hafa kosningarétt og geta ekki gefið kost á sér til framboðs í sveitarstjórnarkosningum, tækifæri til þess að hafa áhrif á ákvarðanatöku í eigin nærsamfélagi og þar með eigið líf, umhverfi og framtíð. Nýleg rannsókn sýndi fram á að 44 af 51 ungmennaráðum í sveitarfélögum landsins hafa verið skipuð, að hluta til eða jafnvel að öllu leyti, ungu fólki sem er 18 ára eða eldra. Ákveðin hætta er á því að hagsmunir yngri hópsins fái minna vægi í ungmennaráðum með breiða aldurssamsetningu. 

Umboðsmaður barna beindi þeim tilmælum til sveitarfélaga að líta til markmiðs æskulýðslaga og tryggja að í ungmennaráðum eigi eingöngu sæti fulltrúar ungmenna í sveitarfélaginu undir 18 ára aldri þannig að tryggt sé að sjónarmið barna fái vægi í töku ákvarðana og mótun stefnu í málefnum sem þau varða.

Vistun barna í leikskólum

Nokkur umræða var í fjölmiðlum um að börn sem búsett eru í Reykjavík eigi á hættu að fá ekki boðaða vist í leikskóla vegna vanskila foreldra við sveitarfélagið. Þá hafi dæmi verið um að foreldrar hafi fengið tilkynningar um uppsögn á vistunarsamningi við leikskóla af sömu ástæðum.

Vegna þessa sendi embættið bréf til skrifstofu borgarstjóra þar sem bent er á að samkvæmt leikskólalögum, nr. 90/2008, er leikskólinn fyrsta skólastigið í skólakerfinu. Meginmarkmið leikskólastarfsins að hlúa að börnum í samræmi við þarfir hvers og eins svo að börn fái notið bernsku sinnar. Það barn sem ekki fær vistun í leikskóla verður því af menntun, félagslegum samskiptum og þroska og gæti upplifað tengslarof og höfnun með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum fyrir lífsgæði þess og þroska.

Í bréfi sínu skoraði umboðsmaður barna á Reykjavíkurborg að taka verklag borgarinnar í umræddum málum til endurskoðunar þannig að tryggt sé að börn fái í öllum tilvikum, óháð aðstæðum foreldra þeirra, notið réttar síns til framfærslu, menntunar og þroska.

Skýrsla til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna

Í febrúar skilaði umboðsmaður barna skýrslu til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna þar sem settar voru fram ábendingar um aðgerðir sem stjórnvöld verða að grípa til og sem miða að áframhaldandi innleiðingu Barnasáttmálans.

Meðal þess sem fram kom í skýrslunni er að verulega þurfi að efla þátttöku barna í stefnumótun og ákvarðanatöku opinberra aðila. Þá þurfi að tryggja að við mótun stefnu og töku ákvarðana í málum barna sé ávallt byggt á vönduðum og áreiðanlegum tölfræðiupplýsingum og öðrum gögnum sem varpað geta ljósi á stöðu barna.

Einnig kom fram að bæta þurfi verulega aðgengi barna að heilbrigðisþjónustu, ekki síst geðheilbrigðisþjónustu, stytta biðlista og fjölga úrræðum. Þá er lögð áhersla á að bæta þurfi aðgengi barna að opinberum stofnunum, m.a. með fræðslu til starfsfólks stofnana um Barnasáttmálann og þau réttindi sem þar er fjallað um, ekki síst rétt barna til þátttöku. Sérstaklega þurfi að huga að fötluðum börnum, hinsegin börnum og börnum af erlendum uppruna.

Umboðsmaður barna átti ásamt fulltrúum félagasamtaka fund með barnaréttarnefndinni þar sem umboðsmaður fjallaði um skýrsluna og svaraði spurningum nefndarinnar. Sá fundur er liður í upplýsingaöflun barnaréttarnefndarinnar sem vinnur nú að mati á árangri íslenskra stjórnvalda í innleiðingu Barnasáttmálans.


Sumarverkefni

Þrír háskólanemar unnu að jafn mörgum verkefnum fyrir umboðsmann barna. Tvö verkefnanna hlutu styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og eitt var liður í sumarátaksverkefni Vinnumálastofnunar.

Sumarstarf

Réttur barna til friðhelgi einkalífs

Hörn Harðardóttir vann að verkefni sem fjallar um „rétt barna til friðhelgi einkalífsins og persónuverndar“. Hörn ritaði lokaritgerð sína í lögfræði um sama málefni. Verkefnið hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Þátttaka barna í stefnumótun og ákvarðanatöku

Guðjón Þór Jósefsson vann að verkefni um „þátttöku barna í stefnumótun og ákvarðanatöku“. Guðjón er laganemi við Háskóla Íslands og hefur reynslu af þátttöku í ungmennastarfi. Verkefnið hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Spurningalisti og handbók fyrir starfsfólk vinnuskóla

Marta Magnúsdóttir vann að verkefni sem fól meðal annars í sér gerð matsblaðs og spurningalista fyrir þátttakendur vinnuskólans og upplýsingar um leiðir að því hvernig börn og ungmenni geta sjálf haft áhrif á sitt vinnuumhverfi. Verkefnið var styrkt af Vinnumálastofnun. 

Umsagnir og álit

Á vefsíðu umboðsmanns barna birtast umsagnir og álit sem embættið sendir frá sér til Alþingis og annarra opinberra aðila.

Umsagnir ársins

Frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003 (kynrænt
sjálfræði), 204. mál - foreldrastaða.

Frumvarp til laga um bætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum (lokauppgjör), 211. mál.

Frumvarp til laga um mannanöfn, 161. mál.

Frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum (skipt búseta barns), 11. mál.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019 (breytt aldursviðmið), 20. mál.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um um kynrænt sjálfræði (ódæmigerð kyneinkenni), 22. mál.

Drög að breytingu á viðmiðunarstundaskrá í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011

Umsögn umboðsmanns barna um tillögur mennta- og menningarmálaráðuneytisins um breytingar á gildandi viðmiðunarstundarskrá grunnskóla. Þar kemur fram að tilefnið sé viðvarandi slakur árangur nemenda í íslensku og náttúrufræði í PISA könnunum OECD.

Drög að stefnu um barnvænt Ísland

Umsögn umboðsmanns barna um drög að stefnu um barnvænt Ísland. Birt á Samráðgsgátt stjórnvalda. 

Menntastefna 2030 – drög að tillögu til þingsályktunar

Umsögn umboðsmanns barna birt á Samráðsgátt stjórnvalda.




Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica