Embættið

Vinnur að bættum hag barna og stendur vörð um hagsmuni þeirra, þarfir og réttindi.

Vinnur að bættum hag barna og stendur vörð um hagsmuni þeirra, þarfir og réttindi.

Um áramótin 2020 var aldarfjórðungur liðinn frá því að embætti umboðsmanns barna var komið á fót þann 1. janúar 1995. 

Hlutverk umboðsmanns barna er skilgreint í lögum nr. 83/1994 en honum er ætlað að vinna að bættum hag barna og standa vörð um hagsmuni þeirra, þarfir og réttindi í samræmi við ákvæði Barnasáttmálans. Skal umboðsmaður jafnframt eiga frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni barna, fylgjast með þróun og túlkun Barnasáttmálans og stuðla að því að hann sé virtur, sem og aðrir alþjóðasamningar sem varða réttindi og velferð barna. Umboðsmaður barna skal vinna að því að tekið sé fullt tillit til barna á öllum sviðum samfélagsins, jafnt hjá opinberum aðilum sem og einkaaðilum, og bregðast við ef brotið er á réttindum þeirra. Þá er umboðsmanni ætlað að koma með ábendingar og tillögur um það sem betur má fara í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem varða málefni barna. Einnig felst í hlutverki umboðsmanns að kynna fyrir almenningi löggjöf sem varðar börn sérstaklega.

Á vefsíðu embættisins má lesa nánar um hlutverk umboðsmanns.


Mannauður

Salvör Nordal, heimspekingur, er umboðsmaður barna, og hefur hún gegnt embætti frá 1. júlí 2017. Aðrir starfsmenn á árinu voru: Eðvald Einar Stefánsson, sérfræðingur, lögfræðingarnir Guðríður Bolladóttir og Sigurveig Þórhallsdóttir. Þá var Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, verkefnastjóri í hlutastarfi á fyrri hluta ársins. Í september gekk Tinna Rós Steinsdóttir, sérfræðingur til liðs við embættið. Stella Hallsdóttir, lögfræðingur var í leyfi á árinu.

 • HEIMASIDA2
 • HEIMASIDA3
 • HEIMASIDA4
 • HEIMASIDA6
 • Tinnaros
 • HEIMASIDA5

Starfshópar

Embættið fær reglulega beiðnir um tilnefningar í starfshópa á vegum hins opinbera. 

 • Skólahald vegna heimsfaraldurs kórónuveiru
  Eðvald Einar Stefánsson, sérfræðingur var í samráðshópi um skólahald vegna heimsfaraldurs kórónuveiru (Covid-19). Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði í hópinn.
 • Barnvænt Ísland
  Guðríður Bolladóttir, lögfræðingur var í nefnd sem falið var að semja stefnu og aðgerðaáætlun um Barnvænt Ísland. Félags- og barnamálaráðherra skipaði í hópinn. 
 • Lagarammi rýndur til að bæta þjónustu við börn með neyslu- og fíknivanda
  Guðríður Bolladóttir, lögfræðingur var í starfshópi heilbrigðisráðherra til að rýna þá löggjöf sem snýr að börnum með neyslu- og fíknivanda og gera tillögur um úrbætur til að laga hann betur að þörfum þeirra og þjónustuveitenda. Guðríður var jafnframt formaður hópsins.
 • Kynrænt sjálfræði, börn sem fæðast með ódæmigerð einkenni
  Guðríður Bolladóttur, lögfræðingur, var í starfshóp sem fjallar um málefni barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Forsætisráðherra skipaði í hópinn. 
 • Stýrihópur stjórnarráðsins um mælaborð um velferð barna
  Salvör Nordal, umboðsmaður barna var í stýrihópi stjórnarráðsins um mælaborð um málefni barna. Félags- og barnamálaráðherra skipar í hópinn.
 • Endurskoðun undanþágukafla aðalnámskrá grunnskóla
  Sigurveig Þórhallsdóttir, lögfræðingur var í starfshópi um endurskoðun undanþágukafla aðalnámskrá grunnskóla. Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði í hópinn.
 • Samráð um innleiðingu menntastefnu Reykjavíkurborgar
  Eðvald Einar Stefánsson var í framtíðarhópi vegna samráðs um næstu skref í innleiðingu menntastefnu Reykjavíkurborgar 2021-2024. Hópurinn er á vegum Skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar.
 • Velferðarvaktin
  Eðvald Einar Stefánsson, sérfræðingur var í Velferðarvaktinni sem er skipuð af félags- og barnamálaráðherra.

Önnur verkefni

 • Guðríður Bolladóttir er persónuverndarfulltrúi embættisins.
 • Eðvald Einar Stefánsson er jafnréttistengiliður embættisins.
 • Í lok ársins skráði embættið sig til leiks í verkefnið Græn skref sem ætlað er ríkisstofnunum sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Eðvald Einar Stefánsson, sérfræðingur heldur utan um verkefnið hjá embættinu.

Aðrir hópar

Umboðsmaður barna er í samstarfi við ýmis félagasamtök og á fulltrúa í nokkrum vinnuhópum þeim tengdum.

 • Sigurveig Þórhallsdóttir, lögfræðingur var fulltrúi embættisins í Náum áttum sem er fræðslu- og forvarnahópur sem skipuleggur morgunverðarfundi um ýmis mál er varða forvarnir og velferð barna og ungmenna. 
 • Eðvald Einar Stefánsson, sérfræðingur var fulltrúi embættisins í Samanhópnum. Hópurinn hefur meðal annars það markmið að vinna og vekja athygli að forvörnum og styrkja og styðja foreldra í sínu uppeldishlutverki. 
 • Sigurveig Þórhallsdóttir, lögfræðingur var í vinnuhóp með fulltrúum Barnaheilla, UNICEF og Menntamálastofnunar vegna fræðsluefnis um Barnasáttmálann. Sá hópur heldur meðal annars utan um fræðslusíðu um Barnasáttmálann og kynningarefni því tengdu.

Fjárveitingar

Fjárveitingar til embættisins hafa aukist nokkuð í samræmi við breytingu á lögum. Sjá nánar í töflu.

Ár Framlag úr ríkissjóði
2020 77,8 m.kr.
2019 78,8 m.kr.
2018 53,3 m.kr.
2017 51,7 m.kr.
2016 47,9 m.kr.

Tafla 1. Fjárveitingar til umboðsmanns barna

Embættið í fjölmiðlum

Vefsíða embættisins gegnir ríku hlutverki í að koma ábendingum og fyrirspurnum barna á framfæri sem og fréttum af starfi embættisins og stöðu barna í íslensku samfélagi. Embættið er einnig virkt á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram.

Undanfarin ár hefur umboðsmaður barna nýtt þjónustu Fjölmiðlavaktarinnar til að vakta umfjöllun um embættið í útvarpi, sjónvarpi, blöðum og á netmiðlum. 

 

Fjolmidlar-samanburdur-2020-mynd

Mynd 1. Þróun fjölda frétta árið 2020 í samanburði við árið 2019.

Fjolmidlar-samanburdur-tafla

 Tafla 2. Þróun fjölda frétta 2020 í samanburði við árið 2019 eftir miðlum.

Ný vefsíða

Á vormánuðum opnaði nýr vefur embættisins . Nýjum vef er ætlað að bæta aðgengi barna að embættinu með fjölbreyttari samskiptaleiðum. Börn og ungmenni geta sent fyrirspurnir með einföldum hætti og jafnframt nálgast svör við algengum spurningum. Vefurinn var unninn í samstarfi við Hugsmiðjuna.

Útgefið efni

Embættið gefur reglulega út skýrslur og annað efni sem tengist Barnasáttmálanum og stöðu barna í íslensku samfélagi. Þá gefur embættið reglulega út rafræn fréttabréf og umboðsmaður barna skrifar reglulega greinar í blöð um þau málefni barna sem eru efst á baugi hverju sinni.

Skýrslur

Eftirfarandi skýrslur voru gefnar út á árinu.

Skýrsla barnaþings 2019

Skýrsla með niðurstöðum barnaþings sem haldið var í Hörpu 21. - 22. nóvember 2019.

Niðurstöður könnunar um innleiðingu Barnasáttmálans

Skýrsla með niðurstöðum könnunar um innleiðingu Barnasáttmálans, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins hjá ráðuneytum og ríkisstofnunum. Könnunin er liður í því lögbundna verkefni embættisins að fylgjast með þróun og túlkun Barnasáttmálans og því að hann sé virtur.

Skýrsla til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna

Í febrúar skilaði umboðsmaður barna skýrslu til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna þar sem settar eru fram ábendingar um aðgerðir sem stjórnvöld verða að grípa til og sem miða að áframhaldandi innleiðingu Barnasáttmálans, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Skýrslan var kynnt barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna með rafrænum hætti þann 29. september.

Greinar í dagblöðum og tímaritum

Hér má sjá yfirlit yfir greinar umboðsmanns barna á árinu. 


Fréttabréf

Umboðsmaður gaf út 6 rafræn fréttabréf á árinu.


Stefnumótandi umræða

Umboðsmaður barna skipuleggur reglulega viðburði auk þess sem starfsfólk embættisins sækir fjölda málþinga og ráðstefna. Þá á embættið fundi með ýmsum aðilum um málefni sem tengjast börnum og réttindum þeirra á ári hverju.

Kórónuveiru-faraldurinn setti nokkuð strik í reikninginn á árinu og fóru flestir fundir og viðburðir fram með rafrænum hætti. Að færa fundi á rafrænt form var í flestum tilvikum nokkuð góð lausn. Fundir urðu styttri og skilvirkari og áttu þátt í að einfalda samstarf og samskipti við hina ýmsu aðila sem koma að réttindum barna. 

Dæmi um fundi og fyrirlestra

Norrænt barnaþing í Kaupmannahöfn

Salvör Nordal, umboðsmaður barna tók þátt í Norrænu barnaþingi sem haldið var á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar í janúar í Kaupmannahöfn. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra var einnig á meðal þátttakenda auk íslenskra ungmenna. Á þinginu fór meðal annars fram hópavinna þar sem tillögur um andlega heilsu og líðan barna voru ræddar og var sú vinna afar lærdómsrík. Umboðsmaður barna kom því heim með góðar hugmyndir og tillögur frá börnum í farteskinu.

SN-i-koben

Dagur mannréttinda barna - málþing í streymi

Í tilefni af degi mannréttinda barna þann 20. nóvember stóð umboðsmaður barna fyrir málþingi um þátttöku og áhrif barna í samfélaginu. Málþingið bar heitið „Áhrif barna: Tækifæri, leiðir og framkvæmd“ og var streymt beint af síðu embættisins á Facebook.

Eiður Welding og Anna Ingibjargardóttir, ungmenni úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna stýrðu fundinum. Fyrirlesarar voru þau Marta Magnúsdóttir, Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir og Guðjón Þór Jósefsson. Þá fluttu Ólöf Vala og Ísak Hugi, ungmenni úr ráðgjafarhópi umboðsmanns, erindi sem aðgengilegt er á síðu embættisins á Facebook. Fjölluðu þau meðal annars um upplifun ungs fólks af Covid-19 og áhrifin sem þau takmörk sem sett hafa verið í samfélaginu hafa haft á þau.

Upptaka frá málþinginu

Embættið á Fljótsdalshérað

Embættið flutti starfstöðina tímabundið til Egilsstaða vikuna 9. – 13 mars. Markmið þess var að styrkja tengsl við börn á landsbyggðinni og þá aðila sem koma að málefnum barna í Fljótsdalshéraði. Starfsfólk embættisins heimsótti grunnskóla, leikskóla, félagsmiðstöðvar og tónlistarskóla. Þá átti starfsfólkið góðan fund með sveitarstjórn Fjallabyggðar og sveitarstjóra Djúpavogs og bæjarstjóra Seyðisfjarðar. Einnig var fundur með sveitarstjóra og starfsfólki Fjarðabyggðar en ætlunin er heimsækja það sveitarfélag aftur á næstu árum.

Það er ætlun umboðsmanns barna að heimsóknir sem þessi verði reglubundinn þáttur í starfi embættisins. 

 • Djupivogur01
 • Djupivogur03
 • Sveitarstjorn01
 • Seydisfjardaskoli01
 • Reydarfjordur
 • Fljotsdalsherad
 • Fellaskoli01
 • Bokasafn

 


Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica