Fjölbreytt samráð við börn

Embættið leggur áherslu á að efla lýðræðisþátttöku barna og beint samráð við þau um mál sem varða hagsmuni þeirra. 

Umboðsmaður barna starfækir ráðgjafarhóp og heldur utan um Ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Þá leggur embættið einnig áherslu á að kynna fjölbreyttar leiðir til samráðs við börn og heldur barnaþing annað hvert ár.

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna

Embætti umboðsmanns barna leggur ríka áherslu á virkt samráð við ungmenni. Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna starfar á grundvelli 3. gr laga um umboðsmann barna en þar segir

Umboðsmaður barna skal í störfum sínum leitast við að hafa virkt samráð við börn og hafa hóp barna sér til ráðgjafar um þau málefni sem snúa að börnum í íslensku samfélagi. 

Í hópnum eru börn á aldrinum 12 – 17 ára. Í kjölfar lögfestingar Ráðgjafarhópsins var ákveðið að styrkja hópinn betur og var verkefnastjóri ráðinn til þess að halda utan um það starf.

Ráðgjafarhópurinn hittist reglulega í upphafi ársins en þurfti að færa starf sitt alfarið á netið eftir að samkomutakmarkanir tóku gildi.

Radgjafarhopur05

Umræðuþáttur á RÚV

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna tók þátt í ýmsum verkefnum á árinu þrátt fyrir samkomutakmarkanir. Fulltrúar hópsins tóku þátt í umræðuþætti sem sýndur var á RÚV í apríl þar sem börn og ungmenni fengu tækifæri til að spyrja ráðamenn og sérfræðinga um kórónuveiruna.

Afmælisþáttur um Vigdísi Finnbogadóttur

Í apríl var á dagskrá RÚV afmælisþáttur í tilefni af 90 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur. Þátturinn bar heitið Til hamingju Vigdís og komu þar meðal annars fram ungmenni úr Ráðgjafarhópi umboðsmanns barna. Vigdís Finnbogadóttir hefur alltaf látið málefni barna sig varða. Hún var sérstakur heiðursgestur á tíu ára afmæli ráðgjafarhópsins síðasta vor og var verndari fyrsta barnaþingsins í nóvember 2019. Það var okkur sannur heiður að taka þátt í þessu verkefni og hylla okkar fyrrverandi forseta á stórafmælinu. 

Málþing á degi mannréttinda barna

Hópurinn skipaði stórt hlutverk á málþingi í streymi sem haldið var á degi mannréttinda barna og nánar er greint frá í kaflanum um embættið. Ráðgjafarhópurinn stýrði fundinum og flutti erindi um upplifun ungmenna af Covid og áhrif samkomutakmarkana á þau. 

Þátttaka í ENYA og ENOC

Hópurinn átti tvo fulltrúa í vinnu ENYA hópsins (European Network of Youth Advisors) sem er skipaður ungmennum sem vinna með umboðsmönnum barna um alla Evrópu. Fundurinn fór fram rafrænt í október og er nánar greint frá honum í kaflanum um alþjóðlegt samstarf. Annar þessara fulltrúa tók einnig þátt í árlegri ráðstefnu samtaka evrópskra umboðsmanna barna, ENOC (European Network of Ombudspersons for Children).

Rub-enya-okt

Lokafundur starfsársins

Á lokafundi hópsins í júní vann hópurinn kynningarmyndband um hópinn. Á þeim fundi veitti umboðsmaður barna fimm ungmennum viðurkenningu fyrir góð störf en þau kvöddu hópinn vegna aldurs og fara nú inn í sín fullorðinsár. Það voru þau: Ármann Leifsson, Ísak Hugi Einarsson, Margrét Lilja Óskarsdóttir, Vigdís Sóley Vignisdóttir og Auður Bjarnadóttir. 

Radgjafarhopur02

Ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna

Embættið gerði í lok sumars samning við forsætisráðuneytið um utanumhald og rekstur Ungmennaráðs heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Meginmarkmið Ungmennaráðsins er að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, meðal ungmenna og í samfélaginu. Ráðinu er ætlað að vera lifandi vettvangur þar sem heimsmarkmiðin og Barnasáttmálinn eru höfð að leiðarljósi og rædd með gagnrýnum og lausnamiðuðum hætti. Ungmennaráðið samanstendur af tólf fulltrúum, víðs vegar að á landinu, á aldursbilinu 13-18 ára. Ungmennaráðið á fulltrúa og varamann í Barnamenningarsjóði Íslands. 

Greinar um og eftir fulltrúa ráðsins:

Samskipti við börn

Fyrirspurnir frá börnum njóta forgangs og kappkostar embættið að svara börnum eins fljótt og unnt er og þeim er heitið fullum trúnaði. Starfsfólk embættisins er þó bundið tilkynningarskyldu barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

Radgjafarhopur03

Flestar fyrirspurnir frá börnum berast með tölvupósti á netfangið ub@barn.is, eða í gegnum vefsíðuna, undir liðnum spurt og svarað. Þegar fyrirspurnir koma í gegnum vefsíðuna getur viðkomandi valið að fá svar í tölvupósti eða á heimasíðunni. Ekki er gerð krafa um að börn gefi upp nafn eða aðrar persónuupplýsingar. Þá eru dæmi um að börn komi á skrifstofu embættisins og óski eftir upplýsingum og aðstoð. Skrifstofan er vel merkt og staðsett miðsvæðis í Reykjavík.

Dæmi um fyrirspurnir frá börnum og ungmennum

Hér fyrir neðan má sjá dæmi um spurningar sem borist hafa frá börnum í gegnum Spurt og svarað af vefsíðu embættisins. Ekki eru öll erindi frá börnum birt á síðunni heldur einungis þau sem leyfi hefur verið veitt fyrir að birta.

Hvatning til nemendaráða

Í byrjun september sendi umboðsmaður barna út bréf til allra nemendaráða grunnskóla vegna tillagna mennta- og menningarmálaráðuneytisins um breytingar á viðmiðunarstundarskrá grunnskóla. Umboðsmaður barna hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að samráð sé haft við börn og ungmenni um tillögur og breytingar sem þau varðar. Við vinnslu tillagnanna átti ráðuneytið ekki samráð við börn og því hvatti embættið nemendaráð grunnskóla til að skoða tillögur menntamálaráðuneytisins og koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Viðbrögð við bréfinu voru góð og höfðu nemendaráð samband við embættið um aðstoð við að koma þeirra ábendingum á framfæri sem orðið var við. Þá bárust fleiri umsagnir frá nemendaráðum sem hægt er að lesa í samráðsgátt stjórnvalda.

Skýrsla barnaþings 2019

Skýrsla barnaþings 2019 var afhent ráðherrum þann 8. maí fyrir utan ráðherrabústaðinn að loknum ríkisstjórnarfundi.

Salvör Nordal kynnti skýrsluna og síðan afhentu þau Vigdís Sóley Vignisdóttir, úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna og Vilhjálmur Hauksson, barnaþingsmaður skýrsluna ásamt sumargjöf til ráðherra, svuntu með áletruninni Ég brenn fyrir réttindum barna. Einnig tóku þátt í afhendingunni þau Eiður Axelsson Welding, Dagmar Hákonardóttir og Emil Davíðsson úr ráðgjafarhópnum og barnaþingsmennirnir Atli Dagur Kristjánsson, Anja Sæberg, Dagmar Edda Á. Guðnadóttir, Friðrik Sigurðsson, Elísabet Heiða Eyþórsdóttir og Ólafur Breiðfjörð Þórarinsson.

Afhending-barnathingsskyrslu02

Eitt helsta markmið barnaþings er að skapa vettvang á forsendum barna, en barnaþingmenn hverju sinni velja þau málefni sem eru til umfjöllunar. Barnaþing er haldið annað hvert ár og er reglubundinn vettvangur fyrir börn til þess að láta í ljós skoðanir sínar á málefnum sem þeim finnst skipta mestu máli hverju sinni.

Afhending-barnathingsskyrslu01

Í skýrslunni birtast helstu niðurstöður barnaþingsins en hugðarefni barnanna eru afar fjölbreytt og komu þar fram ýmsar skoðanir þeirra um framvindu samfélagsins og alþjóðamálefni.

Samráð um stefnu um barnvænt Ísland

Á árinu undirrituðu Salvör Nordal, umboðsmaður barna og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, samstarfssamning um samráð við börn. Meðal verkefna var umsjón með samráði við börn um stefnu um barnvænt Ísland.

Samráðið fór fram í nóvembermánuði og leitaði umboðsmaður barna til fjölbreytts hóps barna meðal annars með rafrænum hætti. Umboðsmaður barna hefur í sínum störfum lagt áherslu á mikilvægi þess að börn taki þátt í stefnumótun og ákvarðanatöku samkvæmt Barnasáttmálanum og að frumvörp sem varða börn séu ávallt rýnd af þeim. 

Ungmenni funda með menntamálaráðherra

Börn og ungmenni úr ráðgjafarhóp umboðsmanns barna og ungmennaráði heimsmarkmiðanna áttu fund með Lilju Dögg Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra á degi mannréttinda barna. Fundurinn fór fram á netinu og 17 börn úr ráðunum tveimur mættu til leiks.

Á fundinum ræddu börnin við menntamálaráðherra um Covid og lögðu áherslu á andlega heilsu barna í skólum og grímunotkun. Börnin og ráðherra ræddu kosti og galla fjarnáms og staðnáms, mikilvægi þess að tillit væri tekið til andlegrar líðana í skólum, og rétta notkun á grímum. Einnig ræddu börnin um mikilvægi þess að huga að umhverfinu og hvetja til notkunar á fjölnota grímum og gæta þess að einnota grímum væri fargað rétt. Í lok fundar kynnti ráðherra nýja menntastefnu og hrósaði þeim fyrir gott samtal og frábært starf. 

Fundur-med-mrn

Beiðnir opinberra aðila um samráð við börn

Það hefur færst í aukana að opinberir aðilar leiti til embættisins um aðstoð við framkvæmd samráðs við börn um málefni sem tengjast þeim. Í þeim tilvikum sinna meðlimir í ráðgjafarhópi umboðsmanns barna og Ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna þeim köllum. Þau sem leituðu til embættisins á árinu með ósk um samráð voru Neyðarlínan-112 vegna nýrrar vefsíðu fyrir börn og Menntamálastofnun vegna nýs námsefnis um sjálfbærni.

 


Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica