Kórónuveiran (Covid-19)

Kórónuveiran setti svip sinn á starfsemi embættisins þetta ár. Seinni hluta ársins skipti starfsfólk embættisins með sér viðveru á skrifstofunni og unnu heima þess á milli. Þá fóru fundir ýmissa starfshópa og samstarfsaðila fram með rafrænum hætti.

Þátttaka barna í ákvarðana­töku um tilhögun skólastarfs

Umboðsmaður barna fékk fyrirspurnir og ábendingar frá börnum vegna þeirrar röskunar sem varð á skólastarfi í kjölfar aðgerða sem miða að því að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Meðal þess sem helst hvíldi á börnum og ungmennum var hvort að yfirstandandi önn í grunn- og framhaldsskólum yrði lengd og hvernig staðið yrði að einkunnagjöf í grunnskólum og inntöku nemenda í framhaldsskóla.

Í bréfi til mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 15. apríl, benti umboðsmaður barna á rétt nemenda til þátttöku í ákvarðanatöku, og að tryggja þurfi að þeir fái nauðsynlegar upplýsingar um þá valkosti sem í stöðunni eru og tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.


Samræmd viðbrögð vegna kórónuveirunnar

Í faraldrinum var töluvert um skerðingar á skólastarfi auk verulegra takmarkana á íþrótta- og tómstundastarfi. Þá áttu börn takmarkað samneyti við vini og skólafélaga en auk þess var aðgengi þeirra að ýmissi þjónustu skert. Það var því mat umboðsmanns að brýnt væri að leggja mat á áhrif áðurgreindra takmarkana á börn og ungmenni, til lengri og skemmri tíma. Umboðsmaður barna sendi því bréf til forsætisráðherra þar sem bent var á nauðsyn þess að stuðla að samræmingu og eftirfylgni aðgerða í þágu barna og fjölskyldna.

Í bréfi embættisins kemur meðal annars fram að mikilvægt sé að upplýsinga sé aflað um aðstæður, heilsu og líðan barna í íslensku samfélagi í kjölfar faraldursins, þannig að unnt sé að bregðast tímanlega við og tryggja þannig rétt barna til viðunandi þjónustu og góðra uppeldisaðstæðna.

Áhrif kórónuveirunnar á líf barna

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft víðtæk áhrif á líf barna, takmarkanir hafa verið á skólagöngu þeirra og þátttöku í frístundastarfi, en einnig hefur faraldurinn haft mikil áhrif á heimili barna og fjölskyldur þeirra. Umboðsmaður barna taldi vildi því kanna áhrifin á börn og gefa þeim tækifæri til þess að koma því á framfæri.

1

Í mars óskaði umboðsmaður barna eftir frásögnum barna og ungmenna og þá í samstarfi við KrakkaRÚV. Ekki voru gerðar sérstakar kröfur um form frásagna en börn voru hvött til þess að senda myndir, skriflegar frásagnir eða myndskeið. Meira en 60 frásagnir bárust frá börnum á öllum aldri víðsvegar að af landinu, flest voru börnin þó á grunnskólaaldri. Mest kom af skriflegum frásögnum en einnig voru sendar inn myndir og ljóð. Frásagnirnar voru flokkaðar eftir umfjöllunarefnum barnanna og þeim þemum sem voru hvað algengust í þeim tilgangi að gefa betri yfirsýn yfir frásagnir barnanna.

2

Fyrstu frásögnunum var safnað á upphafsstigum heimsfaraldursins þegar mikil óvissa ríkti. Frásagnirnar leiddu þó í ljós að kórónuveiran hafði þá þegar haft töluverð áhrif á daglegt líf barna sem má vel merkja af þeim svörum sem bárust. Mörgum fannst lífið á þessum tíma hafa verið skrítið og sumir upplifðu að heimurinn væri öðruvísi en áður. Börnin voru vel meðvituð um að margir hefðu smitast af veirunni og að dauðsföll vegna hennar væru mörg. Þau voru þó ekki hrædd við að fá veiruna sjálf og töldu líklegra að eldra fólk fengi veiruna og höfðu því áhyggjur af öldruðum ættingjum eins og öfum og ömmum. Þá sáu margir jákvæðar hliðar á þeim breytingum sem líf þeirra hafði tekið eins og í auknum samverustundum fjölskyldunnar. Þá voru dæmi um að börn greindu frá því að þau hafi lært hvað vináttan skiptir miklu máli, hvað það er mikilvægt að gera gott úr hlutunum, hugsa jákvætt og að halda sér uppteknum og finna sér eitthvað að gera.

Börn spyrja ráðamenn

Í aprílmánuði var sýndur umræðuþáttur á RÚV um COVID. Þátturinn var unninn í samstarfi við umboðsmann barna en þar fengu börn tækifæri til að spyrja ráðamenn og sérfræðinga um heimsfaraldurinn. Þá tóku þau Þórdís Ösp Melsteð og Ísak Hugi Einarsson, ungmenni úr Ráðgjafarhóp umboðsmanns barna þátt, og sögðu frá sinni upplifun af faraldrinum. Í lok þáttarins sagði Salvör Nordal meðal annars frá verkefninu „Frásagnir barna af kórónuveirufaraldrinu“ sem embættið stóð fyrir.

Áhrif sóttvarnareglna á börn

Í októbermánuði óskaði umboðsmaður barna eftir fundi með sóttvarnalækni, landlækni, heilbrigðisráðherra og yfirlögregluþjóni almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra til að ræða sóttvarnaráðstafanir og þær takmarkanir á réttindum barna sem í þeim felast.

Í bréfi umboðsmanns kom meðal annars fram að umræddar takmarkanir hafi haft víðtæk áhrif á daglegt líf barna en miklu máli skiptir að meðalhófs sé gætt í öllum ráðstöfunum sem snúa beint að börnum, bæði við val á úrræðum og beitingu þeirra. Þá er sömuleiðis brýnt að allar reglur og tilmæli sem varða börn séu skýr og ótvíræð og sett fram á einföldu og auðskildu máli.

Orðið var við þeirri beiðni og átti Salvör Nordal umboðsmaður barna fund þann 11. nóvember með Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, Ölmu Möller landlækni, Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Fundurinn fór fram rafrænt og fundinn sátu einnig starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins og embættis umboðsmanns barna.

Á fundinum átti sér stað mikilvæg umræða um áhrif sóttvarnaaðgerða á börn og nauðsyn þess að fylgst sé með áhrifum faraldursins á börn til skemmri og lengri tíma og að gripið sé til aðgerða til að tryggja þeim sem á þurfa að halda nauðsynlegan stuðning. Einnig var rætt um mikilvægi þess að börn fái upplýsingar við hæfi um sóttvarnaráðstafanir sem hafa áhrif á þau hverju sinni og að allar upplýsingar sem varða börn séu skýrar og settar fram á auðskildu máli.

Á fundinum var einnig rætt um fjölbreyttar leiðir til þess að fá fram sjónarmið og reynslu barna af því að vera barn á tímum kórónuveirunnar og hvernig tryggja má að þau sjónarmið verði hluti af ákvarðanatöku í sóttvörnum á næstu mánuðum

 


Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica