Ársskýrsla 2020

Lesa meira

Til forsætisráðherra

Umboðsmaður barna hefur unnið markvisst að innleiðingu þeirrar stefnu sem mörkuð var á árinu á undan með áherslu á Barnasáttmálann, aukna þátttöku barna á öllum sviðum samfélagsins og samstarf við innlenda og erlenda aðila. Eitt af einkunnarorðum embættisins er framsækni en í því felst meðal annars að embættið beiti sér fyrir nýrri hugsun við túlkun á réttindum barna og standi fyrir nýjungum í starfi. Þrátt fyrir að samkomutakmarkanir hafi sett starfseminni margvíslegar skorður, ekki síst erlendu samstarfi og ráðstefnuhaldi, voru ýmsar nýjungar teknar upp eins og glöggt kemur fram í skýrslunni sem hér fer á eftir.

Innleiðing Barnasáttmálans er viðamikið verkefni sem nær til allra þátta samfélagsins. Til að fá yfirsýn yfir innleiðingu hans í opinberri stjórnsýslu sendi embættið í upphafi árs út skoðanakönnun til opinberra stofnana þar sem spurt var um þekkingu starfsmanna á sáttmálanum og hvort skref hefðu verið stigin til samráðs við börn. Af svörum má merkja mikinn áhuga meðal stofnana á réttindum barna og óskir um frekari fræðslu og stuðning við innleiðingu Barnasáttmálans. Embættið hyggst fylgja könnunni eftir með námskeiðum og fræðsluefni fyrir stofnanir. Embættið hefur frá upphafi leitast við að heimsækja skóla landsins og sveitarfélög til að kynna og ræða réttindi barna. Á síðasta ári var bryddað upp á þeirri nýbreytni að færa skrifstofu embættsins í eina viku til Egilsstaða þar sem starfsfólk fékk einstaklega góðar móttökur og aðstöðu. Heimsóttir voru skólar á Egilsstöðum og nágrenni og meðal annars rætt við sveitarstjórnarfólk og fulltrúa ungmenna. Ferðin var ákaflega lærdómsrík og dýpkaði skilning okkar allra á aðstöðu barna á Austurlandi.

Embættið viðhafði fjölbreyttar aðferðir við samráð við börn á árinu og afhenti meðal annars ráðherrum ríkisstjórnarinnar skýrslu með niðurstöðum barnaþings frá fyrra ári. Ráðgjafarhópur embættisins gegnir sem fyrr lykilhlutverki í starfi embættisins, og tók hann þátt í fjölmörgum verkefnum meðal annars rafrænum samstarfsfundi ENYA (European Network of Young Advisors), sem er ungmennastarf á vegum evrópskra umboðsmanna barna. Þá stóð embættið fyrir því að safna frásögnum frá börnum af þeirra lífi á tímum kórónuveirunnar bæði í fyrstu bylgju faraldursins og aftur í þriðju bylgju hans í lok árs. Naut embættið góðs samstarfs við grunnskóla víða um land og fékk sendar fjölmargar og fjölbreyttar frásagnir barna af þeirra upplifunum af nýjum aðstæðum. Þá vann embættið samráðsverkefni við börn fyrir félagsmálaráðuneytið vegna nýrra frumvarpa um málefni barna. Síðast en ekki síst tók embættið við ungmennaráði Heimsmarkmiðanna af forsætisráðuneytinu sem gerði embættinu kleift að ráða starfsmann í hálft starf til að sinna samstarfi og samráði við börn. Með þeim starfsmanni er mögulegt að styrkja enn frekar sérþekkingu embættisins á þessu sviði.

Málefni barna hafa fengið meiri athygli á undanförnum misserum og því ber að fagna enda víða sem þarf að gera mun betur í málefnum barna. Í skýrslunni Report Card 16 sem unnin er af rannsóknarstofnun UNICEF á Ítalíu, þar sem birtur er samanburður milli fjörtíu og eins ríkis OECD og Evrópusambandsins, kemur fram að staða íslenskra barna er mun lakari en hefði mátt vænta því Ísland lendir í sæti 24 af 38 með tilliti til andlegrar líðanar, líkamlegrar heilsu og náms- og félagsfærni. Þá kom fram í skýrslu embættis umboðsmanns barna til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna að Ísland hefur ekki brugðist með markvissum hætti við fjölmörgum ábendingum nefndarinnar frá árinu 2011. Má þar til dæmis nefna að ekki eigi sér stað hér á landi skipuleg gagnasöfnun um stöðu barna sem væri grunnur að vandaðri stefnumótun. Loks má nefna að viðbrögð stjórnvalda við kórónuveirufaraldrinum hafa sýnt að verulega skortir á að við ákvarðanir sé lagt mat á áhrif þeirra á börn eins og stjórnvöldum ber skylda til. Það bíða því stjórnvöldum stór verkefni í að bæta stöðu barna hér á landi. Það er von mín og starfsmanna embættis umboðsmanns barna að enn frekari áhersla verði lögð á málefni barna á næstu árum og að Ísland vinni að innleiðingu Barnasáttmálans með markvissari og heildstæðari hætti en áður.

umboðsmaður barna

Salvör Nordal 

umboðsmaður barna


Stefna embættisins til 2025

Stefna embættisins er í samræmi við breytingu á lögum um embættið sem samþykkt var á Alþingi í desember 2018.


Hlutverk

Að efla þátttöku barna í samfélaginu og vinna í því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna þeirra á öllum sviðum.

Gildi

Virðing, samvinna og frumkvæði.

Áherslur í starfi

 • Barnasáttmálinn

  Fylgjast með þróun og túlkun Barna· sáttmálans og stuðla að því að hann sé virtur.
  Kynna Barna· sáttmálann sem víðast með fjölbreyttu kynningarefni.Gera úttektir á stöðu tiltekinna hópa barna og miðla niðurstöðum.Gera reglubundið mat á innleiðingu barnasáttmálans.
 • Þátttaka barna

  Efla lýðræðisþátttöku barna og beint samráð við þau um réttindi, þarfir og hagsmuni þeirra.
  Efla ráðgjafarhóp umboðsmanns og stofna sérfræðihópa barna með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu. Kynna og innleiða fjölbreyttar leiðir til samráðs við börn.Halda barnaþing annað hvert ár.
 • Framsækni

  Markvisst samstarf hérlendis og erlendis með nýtingu rannsókna og gagnreyndra aðferða og stuðla að því að hann sé virtur.
  Styrkja samstarfsnet um réttindi barna. Kynna bestu aðferðir frá nágrannalöndum við innleiðingu Barnasáttmálans. Stuðla að stefnumótandi umræðu um málefni barna.

Framtíðarsýn

Réttindi barna njóta víðtækrar virðingar og eru sjálfsagður hluti af allri stefnumótun og ákvörðunum.Hafðu samband

Þetta vefsvæði byggir á Eplica